ILO-samþykkt um aðbúnað skipverja

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 15:17:59 (7457)

2000-05-10 15:17:59# 125. lþ. 114.16 fundur 512. mál: #A ILO-samþykkt um aðbúnað skipverja# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir þessa fsp. sem hljóðar eins og hann gerði grein fyrir:

,,Hvenær má búast við fullgildingu ríkisstjórnar Íslands á ILO-samþykktinni S.163 frá 1987, um aðbúnað skipverja?``

Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 163 frá 1987 fjallar um aðbúnað skipverja. Samþykktin hefur verið fullgilt af 11 ríkjum en þau eru: Brasilía, Tékkland, Danmörk, Finnland, Ungverjaland, Mexíkó, Noregur, Slóvakía, Spánn, Svíþjóð og Sviss.

Samgrn. hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort Ísland eigi að fullgilda þessa samþykkt. Í samþykktinni er miðað við að ákvæði hennar skuli innleidd í löggjöf viðkomandi ríkis í samráði við samtök skipaeigenda og sjómanna. Á næstunni mun ég hins vegar óska eftir afstöðu útgerða og stéttarfélaga sjómanna til samþykktarinnar og hvort Ísland eigi að fullgilda hana. Ég legg mjög mikið upp úr því samráði.

Í framhaldi af því mun samgrn. í samráði við félmrn., sem fer með málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hér á landi, ákveða framhald málsins. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að Ísland hefur nýlega fullgilt ILO-samþykkt nr. 147, um lágmarkskröfur á kaupskipum. Þar er m.a. ákvæði um aðbúnað skipverja. Sú samþykkt er hluti af svokölluðu hafnríkiseftirliti sem Siglingastofnun Íslands annast fyrir okkar hönd.