Skipulagsbreytingar hjá Íslandspósti hf.

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 15:31:48 (7462)

2000-05-10 15:31:48# 125. lþ. 114.17 fundur 613. mál: #A skipulagsbreytingar hjá Íslandspósti hf.# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:31]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin sem mér fannst vera athyglisverð en krefjast þess að farið verði nánar í saumana á þeim.

Í svari hans kemur fram að starfsmönnum Íslandspósts hf. hafi þegar á heildina er litið fjölgað um 28 á landsbyggðinni á tveimur árum. Þetta kemur mér á óvart í ljósi þess að verið er að loka pósthúsum víða í fámennum byggðarlögum. Ég nefndi mörg dæmi þar um. Þessar upplýsingar þarf að skoða betur enda kom í ljós að í ákveðnum landshlutum hefur starfsmönnum Íslandspósts fækkað, svo sem á Vestfjörðum. Ég mun óska eftir því að þetta verði kannað betur.

Hæstv. samgrh. minnti okkur á að hér væri um að ræða aðra stofnun, Íslandspóst hf., en var fyrir hlutafélagavæðingu. Það er alveg rétt og kom reyndar fram í máli forstjóra annarrar skyldrar stofnunar sem heyrir undir sama ráðherra. Þórarinn V. Þórarinsson forstjóri Íslandspósts sagði á aðalfundi Landssíma Íslands hf., samkvæmt fréttum í Morgunblaðinu, að kjarnakrafan í rekstri fyrirtækisins væri arðsemin. Allt annað yrði að lúta því. Þegar hæstv. samgrh. leggur áherslu á að meginstefna fyrirtækisins sé að bjóða fólki áhugaverð störf þá er staðreyndin sú að í fámennustu byggðarlögum er verið að segja upp fólki, leggja pósthús niður og veikja þar með byggðarlögin.

Ég vil inna hæstv. samgrh. eftir því sem ég spurði einnig um í máli mínu áðan, þ.e. þá tilhneigingu eða stefnu, sem virðist vera að gera vart við sig innan þessa fyrirtækis, að segja upp fullorðnu fólki. Ég hef dæmi um það og óska eftir svörum við því.