Skipulagsbreytingar hjá Íslandspósti hf.

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 15:34:18 (7463)

2000-05-10 15:34:18# 125. lþ. 114.17 fundur 613. mál: #A skipulagsbreytingar hjá Íslandspósti hf.# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni þá er það í nokkrum tilvikum svo að störfum hefur fækkað hjá Íslandspósti. Þegar á heildina er litið, utan höfuðborgarsvæðisins, hefur þeim samt sem áður fjölgað þegar landpóstarnir eru taldir með.

Það er alveg ljóst að einhver breyting verður á þessu ári. Það mun fækka í einhverjum tilvikum þar sem verkefni hafa dregist mjög saman, m.a. vegna þeirra breytinga sem hv. 1. þm. Vestf. gat um. Það verður ekki litið fram hjá þeim breytingum sem orðið hafa í þjóðfélagi okkar í tækni prentmiðlanna, tölvupóstinum og slíku. Þarna eru breyttar aðstæður.

Hvað varðar arðsemiskröfurnar sem hv. þm. Ögmundur Jónasson gat um þá er auðvitað nauðsynlegt að hafa í huga að opinberar stofnanir og fyrirtæki í opinberri eigu sýni árangur af rekstri sínum. Það er auðvitað mjög mikilvægt. Ég held að það styrki stöðu þessara fyrirtækja ef hægt er að sýna fram á að þau séu vel rekin og þar af leiðandi sé arður af rekstrinum á sama tíma og veitt er góð þjónusta. Þarna þarf þetta tvennt að fara saman.

Varðandi það að verið sé að segja upp eldra fólki þá kannast ég ekki við það. Ég veit ekki til þess að sú starfsmannastefna sé uppi hjá Íslandspósti. (ÖJ: Mun ráðherrann kanna það?) Ráðherra mun kanna það eftir því sem hægt er en það er ekki á mínu valdi að hlutast til um starfsmannahald í umræddu fyrirtæki frekar en öðrum.