Skattaleg staða einstaklingsreksturs

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 15:44:34 (7467)

2000-05-10 15:44:34# 125. lþ. 114.22 fundur 617. mál: #A skattaleg staða einstaklingsreksturs# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:44]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Menn kjósa rekstrarform út frá mismunandi ástæðum þegar þeir hasla sér völl í atvinnurekstri. Eins og við vitum heimilar löggjöfin margs konar form í þessum efnum: hlutafélagaform, sameignarform, samvinnufélagsform og einstaklingsrekstur. Auðvitað getur þetta allt átt sér ákveðnar ástæður, hvaða rekstrarform menn kjósa sér. Oft hefja einstaklingar atvinnurekstur í smáum stíl og telja ekki ástæðu til þess að stofna um það sérstakt hlutafélag, hefja reksturinn en þegar fram líða stundir telja þeir skynsamlegt að stofna um það sérstakt félag. Það hefur auðvitað færst í vöxt að menn nýti sér hlutafélagaformið enda hentar það greinilega hvað best til atvinnurekstrar eins og menn hafa verið að átta sig á, ekki síst hjá hinu opinbera þegar fyrirtækjum er breytt í hlutafélag.

Oft er byrjað smátt og síðan vindur reksturinn upp á sig. Margar ástæður geta verið fyrir því að mönnum hentar betur að færa rekstur sinn úr einstaklingsrekstri yfir í hlutafélag. Það er t.d. ljóst að talsverður munur er á skattlagningu þessara rekstrarforma og í ákaflega athyglisverðri grein í fréttablaði ríkisskattstjóra frá því í maí á þessu ári, sem heitir Tíund, rekur Jón Ásgeir Tryggvason, deildarstjóri skattaskrifstofu, þessi mál og vekur athygli á því að talsverður munur er á skattlagningu ýmissa rekstrarforma, bæði þegar maður hættir og selur hlut sinn.

Í greininni segir að þegar maður er með reksturinn í formi einkahlutafélags eða sameignarfélags geti hann valið um að selja reksturinn út úr félaginu, selja eignarhlut sinn eða reksturinn í heilu lagi. Maður sem er í einstaklingsrekstri hefur ekki þetta val. Allur skattskyldur hagnaður sem myndast við sölu rekstrarfjármuna fer í almennt skattþrep og í sérstakan tekjuskatt eftir atvikum.

Í þessari grein kemur líka fram að ríkisskattstjóri hafi 4. desember árið 1997 gefið út sérstakar verklagsreglur um stofnun einkahlutafélaga með yfirtöku einstaklingsreksturs. Reglur þessar fela það í sér að eignir sem fluttar eru úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélag skuli færðar yfir á markaðsverði eða gangverði.

Nú er okkur kunnugt um að mörgum hentar betur að færa rekstur sinn m.a. af skattalegum ástæðum en einnig af öðrum ástæðum, t.d. til að takmarka ábyrgð sína við innborgað hlutafé. Þarna getur verið um að ræða að draga úr áhættu fjölskyldna við atvinnurekstur sem í eðli sínu er alltaf áhættusamur. Þess vegna hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að leggja fram eftirfarandi fsp. til hæstv. fjmrh.:

,,Er ætlun ráðherra að beita sér fyrir breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þannig að einstaklingar með atvinnurekstur á eigin kennitölu geti fært reksturinn yfir á kennitölu lögaðila og miðað yfirfærslu eignanna við skattalegt bókfært verð atvinnurekstrar síns?``