Skattaleg staða einstaklingsreksturs

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 15:47:51 (7468)

2000-05-10 15:47:51# 125. lþ. 114.22 fundur 617. mál: #A skattaleg staða einstaklingsreksturs# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:47]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Svarið við þessari fsp. er í stuttu máli að ég hef ríkan vilja til að taka á því álitamáli sem hv. þm. vekur athygli á. Ég hef falið ráðgjafarnefnd í skattamálum, sem unnið hefur á mínum vegum á liðnum vetri, að taka þetta mál sérstaklega fyrir. Nefndarmenn eru að mestu leyti fólk sem starfar utan skattkerfisins í samvinnu við starfsmenn ráðuneytisins. Afraksturinn af starfi þessa hóps má m.a. sjá í því skattalagafrumvarpi sem hér var afgreitt í gærkvöldi, að því er varðar kauprétt starfsmanna í hlutafélögum, svokallaðan valrétt. Það er hið beina svar við spurningunni.

Hér er um að ræða álitaefni sem snertir heimild einstaklinga með rekstur til að breyta um rekstrarform. Dæmi geta verið um að einstaklingur sem hefur verið með rekstur í eigin nafni í mörg ár hafi hug á að færa reksturinn og allar eignir og skuldir honum tengdar yfir í einkahlutafélag. Því hefur verið haldið fram að þar sé í raun ekki um að ræða neina eignabreytingu í rekstri þó nýr lögaðili verði formlegur eigandi. En markmiðið er á hinn bóginn það, eins og hv. þm. nefndi, að takmarka áhættu eigandans við það fjármagn sem hann hefur bundið í rekstrinum en ekki annað.

Þá skapast það vandamál að skattalegt verð varanlegra rekstrarfjármuna einstaklingsins kann að vera mjög lágt í samanburði við raunverð eða markaðsverð. Þess vegna hefur ríkisskattstjóri gefið út þær verklagsreglur --- þetta er hluti þeirra verklagsreglna sem hann hefur gefið út --- sem hv. þm. vitnaði til, dags. 4. desember 1997. Hins vegar hafa ýmsir gert athugasemdir við þá skattframkvæmd sem tíðkast hefur. Verslunarráðið hefur í skýrslu sinni um skattamál atvinnulífsins lagt til að í þeim tilvikum sem einstaklingsrekstur er yfirtekinn af hlutafélagi og eignir og skuldir færðar í heild sinni yfir í hlutafélagið gegn afhendingu hlutabréfa í hinu nýstofnaða félagi sem gagngjalds, þá skuli afhending þeirra sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem lét eignirnar af hendi. Ýmsir aðrir sérfræðingar hafa varpað fram sambærilegum tillögum.

Hér er hins vegar ekki um einfalt viðfangsefni að ræða. Þetta getur verið býsna snúið og það þarf að gera greinarmun á því hvort um er að ræða breytingu sem einvörðungu er til komin af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar og tilvikum þar sem menn eru að reyna að sniðganga skattgreiðslur af öðrum ástæðum.

Ég efast hins vegar ekki um góðan ásetning flestra þeirra sem við þetta vandamál eiga að stríða. Eins og spurningin er lögð fram þá er því til að svara að ætlun ráðherra er að beita sér fyrir breytingum á þessu atriði í tekjuskattslögunum þannig að einstaklingsrekstur geti færst yfir á kennitölu lögaðila bærilegar en nú tíðkast. Ég vona að það svari spurningu þingmannsins.