Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 20:02:37 (7471)

2000-05-10 20:02:37# 125. lþ. 115.1 fundur 511#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumnræður)#, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 125. lþ.

[20:02]

Össur Skarphéðinsson:

Góðir landsmenn. Góðir Íslendingar. Það er góð tilfinning að geta nú loksins gengið út í vorið eftir langan og strangan vetur. Sérstaklega er það góð tilfinning hjá okkur í Samfylkingunni og stuðningsmönnum okkar um allt land vegna þess að við höfum lokið þessum vetri með því að ná því verki fram sem við ætluðum okkur. Við höfum sameinast. Við höfum stofnað flokk og við höfum í sameiningu upplifað einhvern skemmtilegasta og áhugaverðasta pólitíska fund sem hér hefur lengi verið haldinn. Þessi upplifun var afskaplega sterk og hún var sameinandi fyrir okkur öll og hún er okkur ákaflega dýrmætt veganesti inn í framtíðina.

Andstæðingar okkar í þinginu segja auðvitað að ekkert hafi breyst. Þvílík grunnhyggni. Meira að segja Morgunblaðið heldur því fram að ekkert hafi breyst í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi þar sem jafnaðarmenn hafa tekið tekið völdin af sjálfstæðisflokkum viðkomandi landa. Þvílík grunnhyggni, segi ég líka.

Í öllum þessum þjóðfélögum hafa orðið gagngerar, ákaflega jákvæðar breytingar. Alveg eins og jafnaðaröflin í Evrópu þá ætlum við líka að breyta til hins betra eftir okkar eigin leiðum. Samfylkingin er tilbúin og hún ætlar sér að jafna leikinn í íslensku samfélagi.

Það hjálpar okkur og það skiptir verulega miklu máli að sjónarmið samhyggju móta nú stjórn margra helstu ríkja í Evrópu. Það hefur áhrif langt út fyrir svið stjórnmálanna alveg eins og raunin varð með frjálshyggjuna á sínum tíma sem hafði áhrif um allan heim síðustu þrjá áratugi aldarinnar. Þetta breytta viðhorf, uppgangur jafnaðarstefnunnar, undanhald frjálshyggjunnar gerir það að verkum að barátta okkar hér á Íslandi fyrir nýjum hugmyndum, fyrir breytingum, verður auðveldari en ella.

Samfylkingin berst fyrir sanngjörnu samfélagi jafnra tækifæra. Hún vill að einstaklingurinn blómstri í samfélagi sem sinnir um hann og við erum þeirrar skoðunar að réttindi eigi að haldast í hendur við skyldur og við viljum að öflugt efnahagslíf og sanngjarnt samfélag fari saman. Það kann að koma mörgum á óvart en við erum líka þeirrar skoðunar að einstaklingsframtak og félagshyggja eigi samleið.

Við höfum einsett okkur að breyta íslenskum stjórnmálum með nýjum hugmyndum á grunni samhjálpar og atorku. Íslensk stjórnmál hafa í allt of ríkum mæli einkennst af hagsmunafrekju, af hagsmunagæslu jafnvel hér á Alþingi. Hagsmunir dagsins, stundum gærdagsins, ráða of miklu. Það er of lítið gert af því að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir með vandaðri og ígrundaðri stefnumótun. Þessu vill Samfylkingin breyta. Í því samfélagi sem Samfylkingin vill verður enginn skilinn út undan.

Í hverju málinu á fætur öðru sem þrýst er með offorsi í gegnum Alþingi hefur óvandaður málatilbúnaður komið mönnum í koll. Ég læt mér nægja að minna á Fljótsdalsvirkjun og reyndar ýmis önnur umhverfismál þar sem málatilbúnaður var fráleitt nógu góður. Við höfum m.a. af þessum ástæðum lagt til að löggjafarvaldið verði styrkt, m.a. með því að ráðherrar sitji ekki á þingi. Við viljum líka dreifa valdi, m.a. með því að taka upp þjóðaratkvæðagreiðslu og reyna að þróa netið með þeim hætti að það verði auðveldara en ella og á því sviði eiga Íslendingar að taka forustu. Við erum líka þeirrar skoðunar að landið eigi að vera eitt kjördæmi.

Íslendingar hafa lifað gjöful ár og margs konar ávinningur hefur fallið okkur í skaut vegna góðs árferðis, vegna stöðugleikans sem verkalýðshreyfingin og vinstri flokkarnir náðu að koma á í byrjun síðasta áratugar og vegna EES-samningsins. Hvarvetna blasa við miklir möguleikar ef við höldum rétt á málum. Við erum þess vegna full bjartsýni og trúar á framtíð íslensks þjóðfélags.

En við erum ekki sammála hæstv. forsrh. sem heldur því enn fram að Íslendingar lifi í hinum besta af öllum heimum, öryrkjar lifi hér betra lífi en nokkurs staðar annars staðar, efnahagsmálin séu í jafngóðu lagi í 6% verðbólgu og þau voru í 2% verðbólgu og EES-samningurinn tryggi stöðu okkar í bak og fyrir þó hann sé sannarlega talsvert veikari en áður.

Góðir landsmenn. Þessi viðhorf Sjálfstfl. lýsa ekki raunsæju mati á stöðu mála.

Ég varaði eindregið við hættunni á vaxandi viðskiptahalla fyrir síðustu kosningar en uppskar lítið annað en flím og köpuryrði af hálfu þeirra herra sem enn stjórna landinu. Nú segir Seðlabankinn að viðskiptahallinn sé kominn í 7% af þjóðartekjum og stefni í 8%. Þetta, góðir landsmenn, er einsdæmi meðal þróaðra þjóða. Þetta eru hættumörk í öllum alþjóðlegum samanburði og þjóðir sem hafa lent í langvarandi erfiðleikum af þessu tagi hafa allar mátt þola þunga ágjöf. ,,En allt er í himnalagi``, segir samt forsrh., og sér engan mun á 6% og 2% verðbólgu, engan mun á 7% og 4% viðskiptahalla, engan mun á hættuástandi og stöðugleika.

Sannleikurinn er sá að 6% verðbólga er algjörlega óviðunandi fyrir fólkið og fyrir fyrirtækin í landinu. Hún felur í sér þungar byrðar fyrir launafólk, byrðar sem öryrkjar og ellilífeyrisþegar verða að bera af meiri þunga en aðrir því gegn verðbólgunni verja hvorki skattfrelsismörk né persónuafsláttur. Fyrir hönd þessa fólks og fyrir hönd þjóðarinnar þá spyr ég, þá spyr Samfylkingin: Hvar er nú flugbrautin fyrir mjúku lendinguna í efnahagsmálum sem ríkisstjórnin lofaði?

Eins og menn muna eftir voru menntamálin í öndvegi á stofnfundi Samfylkingarinnar um síðustu helgi. Við teljum að í framtíðinni muni hin hefðbundnu jöfnunartæki sem felast í skattheimtu, millifærslum og almannatryggingakerfi ekki duga ein og sér. Við erum þeirrar skoðunar að menntakerfið verði hið nýja jöfnunartæki og það verður fyrsta verk Samfylkingarinnar þegar hún tekur forustu í nýrri ríkisstjórn að tryggja tilfærslu fjármuna til menntamála. Það svið eitt getur tryggt öllum jöfn tækifæri í markaðs- og upplýsingasamfélaginu.

Góðir landsmenn. Á Íslandi eru bætur almannatrygginga, grunnlífeyrir og tekjutrygging miðaðar við lægstu tekjur og þær byrja að skerðast strax við lágar meðaltekjur. Það verður til þess að öryrkjar, langveikir og ýmsir hópar aldraðra búa við miklu lakari kjör hér en í ýmsum grannlöndum. Þetta segir Samfylkingin að sé smánarblettur á íslensku samfélagi sem við verðum að afmá og með nákvæmri greiningu, með vandaðri stefnumótun, með breytingum á almannatryggingakerfinu teljum við að það sé unnt að rétta hag þessara hópa án þess að það valdi efnahagslegum erfiðleikum eins og ýmsir aðrir en við hafa haldið fram.

Samfylkingin hefur gert upp við sig að brýnasta mál dagsins er að vinda ofan af gjafakvótakerfinu. Þingflokkur Samfylkingarinnar er einhuga um nýja stefnu í sjávarútvegsmálum og þessi stefna var samþykkt einróma á 700 manna stofnþingi Samfylkingarinnar um síðustu helgi. Þannig hefur Samfylkingunni tekist það sem engum stjórnmálaflokki hefur tekist hingað til, ef frá er talinn Frjálslyndi flokkurinn, og það er að vera einhuga um stefnu í sjávarútvegsmálum.

Við teljum að þessi stefna tryggi endurnýjun í sjávarútvegi og möguleika fyrir byggðir landsins til þess að eflast á nýjan leik. Stefna okkar byggist á aflamarkskerfinu en hún tryggir jafnframt jafnræði allra varðandi aðgang að veiðum. Þetta er sú leið sem skilar árangri og þetta er sú leið sem við teljum vænlegasta til þess að ná sáttum í samfélaginu.

Á næstu árum er líklegt að Evrópumálin verði eitt helsta umræðuefni á meðal þjóðarinnar. Við höfum fagnað skýrslu utanrrh. um Evrópusambandið, ekki síst vegna þess að hún hefur létt fjötrum bannfæringarinnar af umræðunni um málið sem ríkisstjórnin hefur drepið málið í, þ.e. ráðherrar Sjálfstfl. í ríkisstjórninni.

Stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu verður að meta reglulega enda er mjög mikið að gerast í Evrópumálunum. Við viljum hins vegar taka fastar á málum en ýmsir aðrir og skilgreina þau samningsmarkmið sem þorri Íslendinga gæti orðið sammála um ef til viðræðna um aðild að Evrópusambandinu kæmi. Við viljum vera tilbúin ef aðstæður breytast og knýjandi þörf á aðildarumsókn kynni að koma upp.

Samskipti okkar við Evrópusambandið og staða EES-samningsins er gríðarlega viðamikið mál og það þarf djúpa og langvarandi umræðu okkar á meðal til að hægt sé að átta sig á því til fullnustu. Ef það er svo að stjórnvöld vilja ekki þróa þessi mál áfram þá er það skylda flokks eins og Samfylkingarinnar, sem ætlar sér stóra hluti í íslenskum stjórnmálum að vinna það verk. Til þess verks munum við ganga á eindreginn og skipulegan hátt.

Góðir landsmenn. Tillögugerð okkar verður byggð á hugsjónum og hugmyndum en hún verður raunsæ og ábyrg. Við höfnum ekki grunnþáttum þess samfélags sem Íslendingar hafa skapað sér heldur ætlum við þvert á móti að byggja á hinum góðu gildum sem hafa einkennt það, íslenskum og alþjóðlegum gildum samhjálpar og einstaklingsfrelsis, dugnaðar og virðingar hver fyrir öðrum. Við ætlum að gera gott samfélag enn þá betra og við ætlum að starfa með fólkinu í landinu að framtíð okkar sjálfra, barnanna okkar og komandi kynslóða.

Góðir landsmenn. Við erum tilbúin. Samfylkingin er mætt til þess að jafna leikinn í íslensku samfélagi.