Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 21:05:52 (7478)

2000-05-10 21:05:52# 125. lþ. 115.1 fundur 511#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumnræður)#, KolH
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 125. lþ.

[21:05]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. 125. löggjafarþingi Íslendinga er senn lokið. Vinna síðustu daga er þess vegna ofarlega í huga, 10 frv. urðu að lögum í dag og 29 í gær.

Ýmis mál hafa verið fyrirferðarmikil en önnur hefðu að ósekju mátt fá meiri athygli. Þar má nefna aðild Íslands að Schengen-samkomulaginu, sem rann hér í gegn án þess að nokkrir spyrntu við fæti nema þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Það má nefna lög um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna sem hefðu líka mátt vekja meiri athygli, ekki síst í samræðu út á við. Það er ekki á hverjum degi sem löggjöf um jafnréttismál kemur fyrir þingið og sannarlega ástæða til að standa vörð um þann málaflokk. Það kann að vera að sumum finnist að það heyri til tíðinda að orðið kvenfrelsi er ekki að finna í lögunum eða greinargerð með frv. Það er af sem áður var þegar femínistar gengu fram fyrir skjöldu og lögðu á það ríka áherslu að hlutirnir væru kallaðir sínum réttu nöfnum.

Það er mat þeirrar sem hér stendur að enn sé full ástæða til að ástunda þann sið að tala um kvenfrelsi. Hin femínisku gildi hafa satt að segja ekki verið fyrirferðarmikil hjá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar þrátt fyrir raup og gort um fjölda kvenna á ráðherrastólum. Nei, þess í stað höfum við mátt þola það af nýjum byggðamálaráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, að hún hóf feril sinn á því að víkja burt einu konunni sem átti sæti í stjórn Byggðastofnunar. Þegar konur fá tækifæri til að rétta hlut kvenna þá verður að ætlast til að þær nýti þau ella skiptir engu máli hvort ,,herrann`` er karl eða kona.

Í menntamálum höfum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði lagt áherslu á aukin menntunartækifæri, ekki síst á landsbyggðinni. En þar hefur verið við ramman reip að draga því áherslur ráðherrans hafa verið aðrar. Í ráðuneyti menntamála er klifað á sjálfstæði skóla og ábyrgð sveitarfélaga, en samt er lögð æ ríkari áhersla á samræmingu prófa og námsbrauta og lítið heyrist um aukna tekjustofna sveitarfélaga til að standa straum af kostnaði við aukin verkefni. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur gagnrýnt hugmyndir menntmrh. um framkvæmd aðalnámskrár fyrir framhaldsskóla, áberandi einkavæðingarstefnu hans og fyrir ófyrirleitnar tilraunir ráðherrans til að innleiða skólagjöld í háskólanámi. Þá hafa þingmenn hreyfingarinnar vakið máls á málefnum Þjóðminjasafnsins og varað við þeirri einkavæðingarhættu sem að stofnuninni steðjar samkvæmt yfirlýsingum menntmrh. úr þessum ræðustól. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mótmælir því að menningararfurinn verði einkavæddur, ekki síður en hún mótmælir því að heilsugæsla og sjúkrastofnanir verði einkavæddar.

Samgöngumál eru eilífðarmál á Alþingi, vegalög, veg\-áætlun og jarðgangaáætlun. Í ár dúkkaði upp nýstárleg tillaga um breytingu á vegalögum. Hún kom frá Þuríði Backman, þingmanni Vinstri hreyfingrinnar -- græns framboðs, og fjallaði um tengistíga. Já, tengistíga. Þar var á ferðinni tillaga um að gefa meiri gaum að umferð hjólreiðafólks og gangandi vegfarenda í samgöngumálum á Íslandi. Frv. fékkst reyndar ekki afgreitt úr samgöngunefnd, enda hefur stefna ríkisstjórnarinnar í umferðarmálum ekki verið sú að fækka einkabílum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eða efla almenningssamgöngur. Ónei, þvert á móti hefur með umtalsverðri lækkun vörugjalds verið hvatt til þess að sem flestir keyptu sér stærri og eyðslufrekari bifreiðar. Á meðan hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs verið uppteknir við að afla sér fróðleiks um nýjar hugmyndir í framleiðslu bifreiða og komist að því að þess verði stutt að bíða að hætt verði að nota ál í bílaskrokka. Æ, æ, hvað gerum við þá við allar risaálbræðslurnar okkar?

Nei, frammistaða ríkisstjórnarinnar í ýmsum málefnum hefur verið ámælisverð. Minnist ég þá frammistöðu hennar í málefnum Fljótsdalsvirkjunar. Sú virkjun hefur sem kunnugt er fengið algera falleinkunn. Enn eru Austfirðingar leiknir grátt því hinar nýju tillögur ríkisstjórnarinnar eru stærri álbræðsla og stærri virkjun. Engin áætlun til vara. Hver kemur til með að segja að af Kárahnjúkavirkjun verði? Hversu oft hefur þjóðinni ekki verið sagt að nú skuli rísa álver hér og álver þar, sem ekki hafa svo risið --- að mati margra, til allrar guðslukku?

Í samræmi við þessa stóriðjustefnu hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á undanþágu frá Kyoto-bókuninni, að verða leyst undan sameiginlegri ábyrgð ríkja heims og auka losun gróðurhúsalofttegunda um 75% á meðan flest önnur iðnvædd ríki eiga að draga umtalsvert úr losun. Þetta er framlag ríkisstjórnarinnar til að leysa sameiginlegt vandamál jarðarbúa, þannig birtist hnattræn meðvitund hennar.

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Veruleiki heimsbyggðarinnar við upphaf 21. aldarinnar er alvarlegur. Fólksfjölgun er geigvænleg, fátækt mikil, milljónir manna búa við hungur og hafa ekki hreint vatn. Það er veruleiki heimsbyggðarinnar við upphaf 21. aldarinnar og er hluti af þeim málum sem við Íslendingar þurfum að taka nær hjarta okkar ef okkur á að takast að vera steinn í þeirri vörðu sem hnattræn meðvitund er á leið okkar til sjálfbærrar þróunar. Á þeirri vegferð er Vinstri hreyfingin -- grænt framboð tilbúin að taka forustu í íslenskum stjórnmálum. --- Góðar stundir.