Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 21:42:47 (7484)

2000-05-10 21:42:47# 125. lþ. 115.1 fundur 511#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumnræður)#, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 125. lþ.

[21:42]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Á þessu þingi hafa verið lögð fram mörg mikilvæg mál á verksviði iðnaðar- og viðskiptaráðuneytanna. Í því sambandi nægir að nefna málefni á sviði orkumála, samkeppnismála og fjármagnsmarkaðar.

Að þessu sinni vil ég þó einungis fjalla um einn af þeim málaflokkum sem falla undir mín ráðuneyti en það eru byggðamálin. Þau fluttust til iðnrn. um síðustu áramót. Það er því hlutverk mitt að fylgja eftir stefnu ríkisstjórnarinnar og Alþingis í byggðamálum.

Mun fleiri sjá nú og skilja að hin mikla fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu á kostnað landsbyggðarinnar er bæði óheillavænleg og óhagkvæm. Ég tel að flestir Íslendingar vilji að jafnvægi sé í byggð landsins en til þess að við náum því marki þarf að reka öfluga byggðastefnu.

Sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu hafa vakið athygli á þeim mikla kostnaði sem er samfara mikilli fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma eru tekjur sveitarfélaga á landsbyggðinni að dragast saman vegna fækkunar íbúa. Það er því orðið sameiginlegt hagsmunamál sveitarfélaganna að snúa þessari þróun við. Ég vænti þess að sveitarstjórnarmenn haldi áfram að ræða um hvernig þeir geti í samvinnu við ríki og atvinnulíf stuðlað að því. Augu æ fleiri hafa opnast fyrir því að byggð í landinu öllu snertir ekki aðeins hagsmuni þeirra sem á landsbyggðinni búa, heldur landsmanna allra.

Í stefnuáætlun Alþingis og ríkisstjórnar í byggðamálum er lögð mikil áhersla á fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Því markmiði er hægt að ná með ýmsum hætti.

Í fyrsta lagi er hægt að flytja einstök verkefni sem unnin eru í opinberum stofnunum á höfuðborgarsvæðinu til einkaaðila eða annarra opinberra aðila á landsbyggðinni. Þetta má m.a. gera með því að nýta upplýsingatæknina til hins ýtrasta eins og berlega kom fram á fundi sem ég hélt með forstöðumönnum opinberra stofnana þann 4. maí sl. Það væri jafnframt í samræmi við reynslu annarra þjóða, t.d. Finna.

[21:45]

Því markmiði má í öðru lagi ná með því að staðsetja nýja starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins.

Í þriðja lagi er hægt að flytja starfandi stofnanir og fyrirtæki í eigu hins opinbera. Það hefur verið gert með góðum árangri og nægir í því sambandi að nefna Landmælingar Íslands sem voru fluttar á Akranes og Lánasjóð landbúnaðarins sem nýlega tók til starfa á Selfossi.

Ég mun sem ráðherra byggðamála fylgja fast eftir að þessari stefnumörkun Alþingis verði framfylgt. Í því skyni hef ég m.a. ákveðið að láta fara fram faglega úttekt á starfsemi allra stofnana sem starfa á vegum ráðuneyta minna til að kanna hagkvæmni þess að flytja verkefni út á land. Þessi vinna er í fullu samræmi við þær áherslur sem settar eru fram í stefnumótandi byggðaáætlun Alþingis en þar segir að hvert ráðuneyti eigi að leggja fram tillögur um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Þegar þessari hagkvæmnisúttekt er lokið mun ég kynna niðurstöðuna fyrir ríkisstjórn, jafnframt því sem ég mun leggja fram áætlun ráðuneyta minna um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.

Ekki hefur verið gert ráð fyrir að opinber útgjöld verði aukin til að ná fram því markmiði að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Þetta þýðir að sjónarmið hagkvæmni þurfa að ráða enda er eðlilegt að sömu lögmál gildi fyrir opinberan rekstur og einkarekstur hvað þetta varðar. Sú mikla áhersla sem lögð er á fjölgun opinberra starfa og verkefna í byggðaáætluninni þarf ekki að koma neinum á óvart sem til þekkir á landsbyggðinni. Þar eru að verða miklar breytingar í atvinnuháttum sem stafa af mikilli hagræðingu í sjávarútvegi annars vegar og rekstrarvanda í landbúnaði hins vegar. Þá eru blikur á lofti í ferðmálum og samkeppnisgreinum vegna þeirra miklu hækkana sem orðið hafa á raungengi krónunnar á síðustu mánuðum og missirum. Margt fólk á landsbyggðinni býr því við óöryggi í atvinnumálum og gerir kröfur um réttlátari skiptingu starfa og verkefna sem kostuð eru með opinberu fé.

Gríðarlega mikilvægt er að reyna að stuðla að fjölbreyttari atvinnustarfsemi á landsbyggðinni en það er frumforsenda þess að okkur takist að snúa við þeirri þróun búferlaflutninga sem við höfum séð á síðustu árum. Ýmislegt jákvætt er þó að gerast þessa dagana. Við höfum t.d. séð að einkafyrirtæki nýta sér í auknum mæli upplýsingatæknina til að vinna verkefni á landsbyggðinni. Nýleg dæmi eru fyrirtæki á sviði fjármálaþjónustu og trygginga. Þessi fyrirtæki leita hagkvæmustu lausna og af hagkvæmnisástæðum hafa þau stigið þessi skref. Það sama á auðvitað að gilda í opinberum rekstri, að leita hagkvæmra leiða. Opinberar stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins hafa sem betur fer einnig verið að gera svipaða hluti og ég fullyrði að meira mun gerast í þessum málum á næstu vikum.

Herra forseti. Ég mun í störfum mínum sem ráðherra byggðamála leggja mig alla fram til að ná árangri. Við þurfum að ná jafnvægi í byggð landsins. Til að svo megi takast tel ég að brýnasta verkefnið sé að auka fjölbreytni atvinnulífsins á landsbyggðinni þannig að ungt fólk hafi áhuga á að flytja þangað búferlum. Byggðastefnan á ekki að snúast um að koma í veg fyrir að fólk flytji frá einum stað til annars. Nei, þvert á móti á byggðastefnan að snúast um að fólk hafa áhuga á að flytja út á land og búa á landsbyggðinni. Um þessar mundir tel ég brýnast að höfða til yngra menntafólks. Landsbyggðin þarf á slíku fólki að halda til að byggja upp ný atvinnutækifæri.

Góðir áheyrendur. Ég hef lokið máli mínu.