Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 21:49:54 (7485)

2000-05-10 21:49:54# 125. lþ. 115.1 fundur 511#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumnræður)#, SvH
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 125. lþ.

[21:49]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. ,,Góðærið er knúið áfram með erlendri skuldasöfnun.`` Góðærið er knúið áfram með erlendri skuldasöfnun. Hver skyldi svo mæla? Að ósynju kynnu menn að ætla að þetta væri upphrópun stjórnarandstöðu. Svo er hins vegar ekki. Ummælin eru í dagblaðinu Degi í dag, höfð eftir framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, Sveini Hannessyni, glöggskyggnum manni sem lengi hefur haft uppi varnaðarorð um hina háskalegu þróun efnahagsmála. En hann er ekki einn um það. Seðlabanki Íslands og Þjóðhagsstofnun klifa á því a.m.k. vikulega að váboðar séu fram undan í verðbólgumálum og er viðvarandi og langvarandi viðskiptahalli eitt gleggsta hættumerkið.

En þrátt fyrir viðvaranir kemur allt fyrir ekki. Ríkisstjórnin skellir skollaeyrum við öllum aðvörunum og stundar síðan óaflátanlegar yfirhymingar með stöðugleikatali og skrumi um góðæri og velsæld meðan erlendar skuldir okkar hlaðast upp með leifturhraða og skuldir heimilanna að sama skapi. Menn hafa fengið að hlusta á þetta hér í kvöld.

Fjmrh. gat þess að verðbólga væri á niðurleið. Hann gat þess enn fremur að viðskiptahalli hefði ekki aukist. Hvað segir Seðlabankinn um þetta? Hvað segir Þjóðhagsstofnun um þetta? Þessar stórfréttir höfðu ekki borist fjölmiðlum klukkan sex þegar ég hlustaði á Ríkisútvarpið þá. Þetta hefur skeð síðan og eru stórtíðindi. En þetta er eins og annað í máli stjórnarsinna, þar er með þessum hætti reynt að hylma yfir hinar köldu staðreyndir og mæra með fögrum orðum það sem allt öðruvísi lítur út í raun.

Gumað er af afgangi á fjárlögum sem í raun er að mestu froðufé innheimt með tollum og öðrum sköttum af hinum ógnarlega innflutningi umfram efni þjóðarinnar. Þess eru engin merki að ríkisstjórnin ætli að taka sig á og veita viðspyrnu gegn þessum ófögnuði. Ef vel ætti að vera þyrfti að beinskera niður opinberar framkvæmdir svo brakaði í hverju tré. En hér er verið að úthluta á borð þingmanna tillögum um stóraukið fjármagn til vega og framkvæmda og jarðganga.

Slíkra viðbragða sem niðurskurðar er auðvitað ekki að vænta af mönnum sem trúa orðið eigin áróðri um að hér sé allt blúndulagt. Þess í stað stefna þeir nú í stórframkvæmdir í orku- og stóriðjumálum sem eiga sér enga hagræna stoð. Það er raunar það óhugnanlegasta agn sem framsókn hefur til þessa beitt á atkvæðaöngul sinn og er þá mikið sagt.

Gjafverð á orku til stóriðju hefur síðustu þrjátíu árin verið bein skattheimta af þegnum landsins. Hún mun enn stóraukast við Kárahnjúkavirkjun ef í hana verður ráðist.

Valdhrokinn lætur ekki á sér standa í þessum efnum. Spánnýtt dæmi höfum við um hann og um leið um þýlyndi ríkisstjórnarmanna við matmæður sínar. Málatilbúnaður utanrrh. vegna flutninga fyrir varnarliðið er eitt mesta heiftarklúður sem menn á hinu háa Alþingi hafa kynnst. Eftir öllum sólarmerkjum að dæma er hann eftir pöntun frá Eimskipafélagi Íslands. Þótt öllu öðru sé sleppt er verst að þola þá vansæmd sem við Íslendingar vinnum okkur með slíkum aðferðum.

Herra forseti. Af nógu væri að taka ef tími leyfði. Alþingi afgreiddi í morgun ný lög um kosningar til Alþingis en fylgjendur laganna töldu þeim það helst til ágætis að allir væru jafnóánægðir með þau. Lögin hafa hins vegar það eitt sér til ágætis að við þau mun ekki verða búið stundinni lengur, að ákveða með lögum frá Alþingi árið 2000 allt að tvöfalt misvægi atkvæða milli þegna landsins eru býsn og fádæmi sem halda hefði mátt að heyrðu fortíðinni til.

Víst er það rétt að ekkert er háskalegra frelsi einstaklingsins en risavaxið ríkisvald sem teygir anga sína um allar æðar þjóðarlíkamans. Jafnvíst er að eins og málum er komið verða allir frjálslyndir lýðræðissinnar að snúa bökum saman til varnar frelsinu, frelsi alls almennings gegn yfirdrottnun örfárra útvaldra að hverra köku núverandi ríkisstjórnar skarar eld ótæpilega.

Ég óska öllum landsmönnum góðs og gleðilegs sumars.