Afgreiðsla vegáætlunar

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 10:32:35 (7487)

2000-05-11 10:32:35# 125. lþ. 116.92 fundur 527#B afgreiðsla vegáætlunar# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[10:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eins og kunnugt er hefur dregist nokkuð að hér kæmi fram afgreiðsla á vegáætlun frá samgn. Síðan gerast þau undur og stórmerki í gærkvöldi að undir eldhúsdagsumræðum er dreift brtt. við vegáætlun frá samgn. Þar eru til viðbótar þeim framkvæmdum í jarðgangamálum sem boðaðar höfðu verið og fyrir lá að kæmu með einhverjum hætti til afgreiðslu með vegáætlun gerðar tillögur um umtalsverðar viðbótarfjárveitingar til almennra framkvæmda í vegamálum.

Ég fagna að sjálfsögðu auknu fé til vegamála. En hitt verð ég að segja, herra forseti, að mér blöskra þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð. Skiptingin á þessu almenna vegafé virðist hafa verið ákveðin á bak við tjöldin með heldur ógeðfelldum hrossakaupum. Ekki verður annað séð ef fljótt er litið á þessar brtt., herra forseti, en að kjördæmi hæstv. samgrh. og formanns samgn. fái þarna sérstaka meðhöndlun án þess að þingmannahópar annarra kjördæma eða Alþingi yfirleitt hafi á nokkurn hátt getað komið að því máli. Þetta eru vinnubrögð, herra forseti, neðan við allar hellur. Þetta er brot á öllum þeim venjum sem hér hafa helgast og með vísan til fyrrum 10. gr., nú 18. gr., vegalaga. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum, herra forseti, og spyr: Hvernig ætlar hæstv. samgrh., formaður samgn. eða aðrir sem ábyrgð bera á þessu að réttlæta eða rökstyðja að tilteknar almennar framkvæmdir í vegamálum fá þarna mikið viðbótarfjármagn en aðrar ekki neitt? Heilir landshlutar eru algerlega settir hjá, þar á meðal t.d. eitt stærsta verkefnið í almennri vegagerð sem bíður, öll norðausturleiðin frá Húsavík til Vopnafjarðar fær ekki eina krónu á meðan sérstök gæluverkefni, að því er virðist, í öðrum kjördæmum eða annarra stjórnmálamanna fá þarna úrlausn.

Ég mótmæli þessum vinnubrögðum. Ég krefst þess að vinnan verði tekin upp á nýjan leik, fundir verði haldnir í þingmannahópum kjördæmanna og málið fari í venjulegan og lögbundinn farveg og skipting þessa viðbótarfjármagns lúti almennum reglum.