Afgreiðsla vegáætlunar

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 10:49:02 (7495)

2000-05-11 10:49:02# 125. lþ. 116.92 fundur 527#B afgreiðsla vegáætlunar# (aths. um störf þingsins), JónK
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[10:49]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það eru í raun tvö atriði sem ég vildi undirstrika varðandi þá umræðu sem hér hefur farið fram um vegáætlun. Ég er sammála hv. 3. þm. Norðurl. e. um að leggja beri áherslu á að kjördæmisþingmenn fjalli um skiptingu vegafjár.

Ég vil hins vegar benda á að í þeim viðbótartillögum sem komnar eru er verið að leggja til skiptingu á vegafé frá árinu 2002 til ársins 2004. Þannig mun gefast tækifæri til að endurskoða vegáætlun fyrir þann tíma og ég vildi þá leggja áherslu á að kjördæmisþingmennirnir kæmu að því verki varðandi jaðarbyggðafé t.d. sem ákveðið er í þessum viðbótartillögum en hefur ekki verið skipt innan kjördæma. Ég vildi undirstrika það.

Jafnframt varðandi þensluáhrifin af þessum framkvæmdum þá er það vissulega rétt að þau valda umhugsun en hins vegar vil ég benda á að hér er ekki lagt til viðbótarfjármagn í ár eða næsta ár heldur á áðurnefndu tímabili. Vonandi tekst okkur að standa við þessa áætlun því að hún er þáttur í að reyna að halda samkomulagi í þjóðfélaginu um vegamál og ég vil leggja áherslu á að það samkomulag milli þéttbýlis og dreifbýlis haldist.