Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 11:58:38 (7505)

2000-05-11 11:58:38# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[11:58]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi umræðunnar taka fram þó að það þurfi í sjálfu sér ekki að Ísland er að sjálfsögðu fullvalda ríki sem ekki lýtur lögsögu dómstóla annarra ríkja. Það er skylda okkar að taka ákvarðanir um lagasetningu á Alþingi á grundvelli tvíhliða samninga og á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga okkar. Það er að sjálfsögðu íslenskt mál hvernig við högum þeirri löggjöf. Vel má vera að ekki líki öllum sú löggjöf alla tíð. Þess vegna er það að mínu mati svo að hér er um mikið prinsippmál að ræða.

[12:00]

Það er rangt að þetta mál sé fyrst og fremst tilkomið vegna sjóflutningamálsins. Þetta frv. er umfangsmikið og það liggur alveg ljóst fyrir að mikil þörf er á því að staða okkar sé styrkt til að framfylgja þeim skuldbindingum sem við höfum tekist á hendur enda er um umfangsmikið frv. að ræða.

Hins vegar er alveg rétt og alveg ljóst að eitt af þeim atriðum sem frv. snertir eru sjóflutningarnir og þeir hafa valdið deilum milli ríkjanna. Rétt er að taka fram að í þeim viðræðum sem hafa átt sér stað á undanförnum tveimur árum eða svo hafa bandarísk stjórnvöld beinlínis hvatt okkur til að skýrar reglur kæmu fram um það hvað við teldum vera íslensk fyrirtæki í skilningi samningsins sem við gerðum 1986 í framhaldi af svokölluðu Rainbow-máli. Í þeim anda höfum við unnið, ekki til þess að skapa einhver vandamál gagnvart góðum samstarfsaðila heldur til að halda fram íslenskum rétti og íslenskum réttindum. Við erum ekki með þessu frv. að ganga fram fyrir skjöldu vegna einhverra tiltekinna fyrirtækja eins og látið hefur verið skína í hér. Það er ekki svo.

Það er alveg ljóst að þó að áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum komist að tiltekinni niðurstöðu í deilumáli sem tiltekið fyrirtæki fer í, þá er það ekki mál íslenskra stjórnvalda.

Við höfum hins vegar verið þeirrar skoðunar að það fyrirtæki sem er með þessa flutninga núna hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem gera verður til að komast að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið sé talið íslenskt á þeim tíma sem samningurinn var gerður. En ég ætla ekki að leggja nokkurn dóm á það hvort fyrirtækið uppfylli þau skilyrði nú eða uppfylli þau á næstu mánuðum. Ég vænti þess a.m.k. að fyrirtækið geti gert allar þær ráðstafanir sem til þarf til að uppfylla slík skilyrði.

Hitt er svo annað mál að eðlilegt er þegar upp koma mál á milli ríkja, milli vinaþjóða, að menn leiti eftir niðurstöðu og reyni að hliðra til og skapa svigrúm til að fá niðurstöðu. Það höfum við gert án þess að efnisatriðum þessa frv. sé breytt. Tilteknum hluta þess er frestað fram til 1. maí og það er ekki sama frestun og var í brtt. hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Það á við verktökuna almennt. Það á ekki eingöngu við bráðabirgðaákvæði. Ég er ekki að segja að það skipti grundvallarmáli. En það er ekki alveg það sama m.a. vegna þess að við viljum skapa svigrúm til að fara yfir þann þátt máls almennt, ekki eingöngu að því er varðar skipaflutningana heldur verktökuna almennt.

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson flutti hér brtt. og ég efast ekki um að sú tillaga sé ekki flutt í góðum og göfugum tilgangi. Mér er fullkomlega ljóst að mörg þeirra skipa sem sigla fyrir Íslendinga, eins og almennt er nú í heiminum, sigla ekki undir íslenskum fána. Fyrir stuttu var ég staddur í hinni stóru höfn í Norfolk og sá mikið af skipum fara þar inn. Þau voru flest undir hentifána sem þar fóru um höfnina. Þannig er því miður orðið umhorfs í alþjóðlegum siglingum.

En þá vaknar spurningin: Er eðlilegt eða hyggilegt að setja sérstakar kröfur til íslenskra skipafélaga sem hafa þennan tiltekna varning innanborðs? Nú má vel vera að þessi tiltekni varningur sé ekki nema lítið brot af öllum þeim varningi sem fer með viðkomandi skipi. Er ekki hægt að leiða að því rök að slík krafa verði til þess að jafnvel ekkert íslenskt skipafélag geti boðið í þessa flutninga? Ég tel það líklegustu niðurstöðuna.

Með því er ég ekki að segja að ekki sé rétt að taka almennt á þessu máli. En að taka á þessu máli að því er varðar nokkra pakka eða gáma til og frá Bandaríkjunum finnst mér vera hrein sýndarmennska. Ég tel að verði tillaga hv. þm., sýndartillaga hans, samþykkt sé líklegast að málið endi þannig að ekkert íslenskt skipafélag geti boðið í þessa flutninga. Nú veit ég að það er ekki tilgangur hv. þm. með þessari brtt. en ég tel að það verði árangurinn af henni.

Hins vegar finnst mér sjálfsagt að fara yfir þetta mál í heild sinni og fara yfir þá stöðu sem íslensk skipafélög eru í. Ég skora á hv. þm. að skoða þetta mál í breiðara ljósi en ekki út frá þeirri þröngu sýn sem þarna kemur fram.

Herra forseti. Að því hefur verið látið liggja að þetta mál muni skipta sköpum í þeim viðræðum sem eru fram undan við Bandaríkjamenn um tiltekna þætti sem varða varnarsamstarf Íslendinga og Bandaríkjanna og veru varnarliðsins hér á landi. Það finnst mér afar ólíklegt. Ég tel enga ástæðu til að ætla svo jafnvel þótt einstakar raddir hafi komið upp um það í Bandaríkjunum að reikna með því að bandarísk stjórnvöld verði slíkrar skoðunar. Hins vegar er alveg ljóst að ef aðilar í Bandaríkjunum telja það ekki samrýmast bandarískum hagsmunum að hér sé þessi aðstaða þá verður hún ekki lengur hér. Ef við teljum það ekki samræmast hagsmunum okkar þá verður hún heldur ekki lengur hér. Ef menn telja að hún samrýmist ekki hagsmunum Atlantshafsbandalagsins þá verður hún jafnframt lögð niður.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé að hafa varnarviðbúnað í Norður-Atlantshafi, að mjög mikilvægt sé að hafa eftirlit á Norður-Atlantshafi. Þetta er gríðarlega stórt hafsvæði og það eftirlit verður ekki framkvæmt af okkur Íslendingum einum. Það verður aðeins framkvæmt í samvinnu við aðrar þjóðir. Ég tel að það samrýmist hagsmunum allra þjóða sem liggja að Atlantshafi hvort sem það eru Bandaríkjamenn, Íslendingar, Bretar eða Norðmenn og fleiri þjóðir eiga hagsmuna að gæta í Atlantshafstengslunum.

Það er ekki eingöngu hagsmunamál okkar Íslendinga að góð aðstaða sé á Keflavíkurflugvelli til langframa. Það er hagsmunamál margra Evrópuþjóða og Bandaríkjanna og Kanada, ekki aðeins að því er varðar það sem lýtur að vörnum og öryggishagsmunum. Það lýtur líka að almennri flugumferð yfir Atlantshafið vegna þess að þær flugvélar sem flytja farþega í hvað mestum mæli yfir Atlantshafið í dag eru tveggja hreyfla vélar. Það liggur fyrir að ef Keflavíkurflugvöllur er af einhverjum ástæðum lokaður eða ekki er sá viðbúnaður þar sem er nauðsynlegur fyrir almenna flugumferð allan sólarhringinn þá þurfa þessar flugvélar, farþegarflugvélar, að velja aðra leið yfir hafið sem er þeim mun dýrari. Hér er því ekki um neitt einkamál Íslendinga að ræða.

Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að við munum ná niðurstöðu í þeim viðræðum sem fram undan eru og ég tel þetta mál í reynd óskylt því máli þó að því hafi verið blandað saman í umræðunni því hér erum við að setja löggjöf á grundvelli þeirra samningsskuldbindinga sem eru fyrir hendi og ekkert annað. En við erum jafnframt að skapa svigrúm til að ræða tiltekinn þátt á næstu mánuðum og um það hafa þjóðirnar orðið sammála, en það hlýtur að vera sterk vísbending um að þjóðirnar hyggjast halda þessu samstarfi áfram.