Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 12:12:30 (7506)

2000-05-11 12:12:30# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, Frsm. 1. minni hluta SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[12:12]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. sagði áðan þann sjálfsagða hlut að Ísland væri sjálfstætt ríki sem ekki lúti niðurstöðum erlendra dómstóla. Enginn hefur haldið öðru fram. En gleymum því ekki hvaða leið íslensk stjórnvöld völdu í málinu. Þau hefðu getað brugðist við strax þegar deilan kom upp á sínum tíma og sett lög álík þeim sem hér er verið að setja. En þau brugðu hins vegar á það ráð að styðja að farið yrði með málið fyrir bandaríska dómstóla.

Ég veit ekki betur en að íslensk stjórnvöld og íslenska utanrrn. hafi borið bæði vinnu og kostnað af þeirri meðferð þannig að það var úrræði sem þau völdu sjálf. Það var síðan ekki fyrr en niðurstaða áfrýjunarréttar lá fyrir og allsendis óvíst var hvort málið fengist tekið fyrir í hæstarétti og niðurstaða áfrýjunarréttarins var óhagkvæm fyrir hið íslenska fyrirtæki að stjórnvöld tóku þá ákvörðun að taka málið upp með þessum hætti.

Þó mér blandist ekki hugur um að Ísland sé sjálfstætt ríki sem lúti ekki niðurstöðum erlendra dómstóla þá var þetta nú sú leið sem íslensk stjórnvöld studdu og réðu kannski ferðinni um og hefur nú ekki gert stöðu íslenskra stjórnvalda í deilunum við Bandaríkjastjórn einfaldari.

Það gleður mig hins vegar að hæstv. utanrrh. lét ekki orð falla í þá átt --- enda veit ég að hann mundi aldrei gera það --- að áhugi minn á þessu máli og áhyggjur stöfuðu af því að ég væri að bera frekar hagsmuni Bandaríkjamanna fyrir brjósti en Íslendinga því að honum er það mætavel kunnugt og það veit hann. Ég veit að hann viðurkennir að sjónarmið mitt mótast af hagsmunum Íslands en ekki annarra.