Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 12:14:45 (7507)

2000-05-11 12:14:45# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[12:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér dettur ekki í hugar að hv. alþingismenn á Alþingi Íslendinga séu í málflutningi sínum á einhvern hátt að huga að öðru en íslenskum hagsmunum. En það er nú alltaf svo að menn kunna að hafa mismunandi skoðanir á því hvað séu íslenskir hagsmunir í þessu máli. Ég vænti þess að hv. alþingismenn treysti því jafnframt að sá sem hér stendur hafi ekkert annað í huga í þessu máli. Mér finnst því óþarfi af okkur að vera að færa þetta mál inn á þá braut og er sammála hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um það.

[12:15]

Hins vegar er alveg ljóst að því er varðar þetta skipaflutningamál að það er ekkert nýtt mál og við höfum verið lengi í viðræðum og skoðanaskiptum við Bandaríkjamenn um það. Þetta dómsmál í Bandaríkjunum hefur engin áhrif á þá atburðarás af okkar hálfu. Hins vegar er rétt að við höfum lagt fram greinargerð um skoðun okkar í því máli. En það frv. sem hér er lagt fyrir er ekki í neinum tengslum við þann málatilbúnað.

Viðbrögð okkar eru byggð á þeim samskiptum sem við höfum átt við Bandaríkjamenn og m.a. hvatningu þeirra til að setja reglur í þessu sambandi þannig að það kemur ekki beint við þeim málatilbúnaði sem hefur verið af hálfu Eimskipafélags Íslands fyrir dómstólum í Bandaríkjunum.