Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 12:16:47 (7508)

2000-05-11 12:16:47# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, Frsm. 1. minni hluta SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[12:16]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi hefði verið hægt að leysa málin með þessum hætti strax og deilurnar hófust. Í öðru lagi var það í samráði við íslensk stjórnvöld sem ákveðið var að hefja málarekstur fyrir bandarískum dómstólum. Í þriðja lagi kom þessi leið um lagasetningu ekki fram fyrr en niðurstaða áfrýjunarréttar lá fyrir sem var óhagkvæm hinu íslenska skipafélagi.

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. tók þannig til orða sjálfur þegar hann lýsti afstöðu sinni til brtt. hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að hér væri um minni háttar mál að ræða, að verið væri að flytja nokkra gáma til og frá yfir hafið. Það er alveg rétt. Hér er um að ræða flutning á örfáum gámum, einhverjum húsmunum, varningi, matvælum og bílum varnarliðsmanna. Þetta er flutningur sem veltir 130 milljónum á ári. Ætli ekki sé búið að eyða öðru eins í málakostnað í Bandaríkjunum af hálfu félagsins og íslenskra stjórnvalda eða jafnvel meiru? Þess vegna segi ég einfaldlega, herra forseti, þetta eru ekki hagsmunir af því tagi að það borgi sig að taka þá upp með þessum hætti. Mér dettur ekki í hug að ásaka hæstv. utanrrh. um að gæta hagsmuna annarra en Íslendinga enda veit ég að hann er að því. En ég held að þetta sé bara ekki rétt mat. Ég held að þeir hagsmunir sem eru í húfi séu fjárhagslega og frá öryggissjónarmiði miklu stærri en þeir hagsmunir sem við erum að fjalla um hér.

Ég vek athygli á því að sá hv. þm. sem hér hefur talað og hefur verið á móti varnarsamningnum við Bandaríkin og vill helst sjá herinn á brott, hefur sérstaklega fagnað þessu því að þetta væri líklegasta aðferðin til að skila þeim árangri. Ég vona að honum ratist ekki satt orð á munn. En engu að síður voru þetta viðbrögð hv. þm.