Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 12:23:10 (7511)

2000-05-11 12:23:10# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[12:23]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög eðlilegt og rökrétt að Eimskipafélag Íslands byggi málsókn sína á þeim samningum sem eru á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda og byggi réttargæslu sína og hagsmunagæslu sína á þeim grundvelli sem er til staðar. Eimskipafélag Íslands er íslenskt fyrirtæki. Ég vænti þess að engar efasemdir séu um það í huga hv. þingmanna. Eimskipafélag Íslands hlýtur að eiga þann rétt sem er í íslensku þjóðfélagi eins og önnur íslensk fyrirtæki. Það er hvorki verra né betra en önnur íslensk fyrirtæki.

Auðvitað ber okkur skylda til að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja almennt. Ég hef þá algjörlega misskilið hlutverk mitt ef það er ekki skylda mín. Mér ber ekki að draga fyrirtæki í dilka í því sambandi.

Ég stend við fullyrðingu mína frá því áðan að ég tel í grundvallaratriðum rangt að taka eitt mál með þessum hætti út úr að því er varðar íslenskan fána. Ég tel að með því að gera það séu allar líkur á því að það leiði til þess að íslensk skipafélög bjóði ekki í þessa flutninga. Ég stend við þá fullyrðingu. Ég tel því að brtt. hv. þm. þjóni ekki þeim góðu hugsunum sem annars liggja sjálfsagt þar að baki.