Lífsýnasöfn

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 13:09:37 (7523)

2000-05-11 13:09:37# 125. lþ. 116.10 fundur 534. mál: #A lífsýnasöfn# frv. 110/2000, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[13:09]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svarið og þessa ágætu ábendingu. En bara til að fá þetta alveg skýrt, getur þá blóðsýni sem tekið er við þjónusturannsókn lent inni á lífsýnasafni og getur það verið grundvöllur erfðafræðilegra rannsókna? Er mögulegt að úr því verði síðan dregnar tilteknar upplýsingar um arfgengi hluta og að sú staða sé komin upp að einhver maður sem e.t.v. hefur af göfugum hvötum farið í Blóðbankann til að gefa blóð til að hjálpa öðrum, að sýni úr honum lendi á lífsýnasafni og að hægt verði að fara í það og kanna arfgerð viðkomandi manns og þær upplýsingar liggi einhvers staðar fyrir og tengdar nafni hans?