Lífsýnasöfn

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 10:10:34 (7527)

2000-05-12 10:10:34# 125. lþ. 117.2 fundur 534. mál: #A lífsýnasöfn# frv. 110/2000, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[10:10]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þegar frv. um lífsýnasöfn kom fram í þinginu þá fagnaði ég því að málið væri komið fram. Það var vel staðið að vinnslu við frv. Fengnir voru fagaðilar til að vinna það og fagna ég því að slík vinnubrögð voru viðhöfð. Eins og fram hefur komið í umræðunni skrifa ég undir þetta nefndarálit með fyrirvara og hefur hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir gert mjög ítarlega grein fyrir þeim fyrirvörum sem við jafnaðarmenn í heilbr.- og trn. gerum við frv. Sömuleiðis hafa þeir þættir komið fram hjá síðasta ræðumanni þannig að ég tel ekki ástæðu til að endurtaka það hér en legg áherslu á að komið hefur verið til móts við mjög margar athugasemdir sem komu fram í nefndinni frá þeim sem voru umsagnaraðilar um málið. En eins og komið hefur fram eru ákveðnir þættir ekki ljósir, ekki frágengnir, og þarf auðvitað að fara í að endurbæta þá og ná niðurstöðu. Ég treysti því að farið verði í þá vinnu. Ég fagna því að þó sé komið fram lagafrv. um lífsýnasöfn en það var orðið mjög brýnt að slík lög yrðu sett hér. Það er rétt sem komið hefur fram að sátt verður að vera um löggjöfina. Löggjöfin verður að vera skýr og það þarf að upplýsa fólk um hvaða reglur gilda. Það er náttúrlega grundvallaratriði að menn viti og skilgreini hvenær lífsýni er lífsýni og hvenær það hættir að vera lífsýni eins og komið hefur hér fram. Sömuleiðis þarf að taka á þessum þætti um ætlaða samþykkið í þjónusturannsóknunum.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu heldur vísa ég til skýringa hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur um fyrirvara okkar við nefndarálitið.