Lyfjalög og almannatryggingar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 10:28:07 (7530)

2000-05-12 10:28:07# 125. lþ. 117.3 fundur 401. mál: #A lyfjalög og almannatryggingar# (Lyfjamálastofnun o.fl.) frv. 108/2000, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[10:28]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli formanns hv. heilbr.- og trn. ritum við þingmenn jafnaðarmanna í heilbr.- og trn., sú sem hér stendur og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, undir þetta nefndarálit með fyrirvara og mun ég í máli mínu gera grein fyrir þeim fyrirvara.

Eins og kom fram í framsögu með nefndarálitinu er hér er á ferðinni frv. þar sem verið er að sameina í eina stofnun Lyfjaeftirlit ríkisins og lyfjanefnd ríkisins, þ.e. í stofnunina Lyfjamálastofnun. Sömuleiðis eru þessari nýju stofnun ætluð ný verkefni við umsjón með skráningu og eftirlit með verkunum og aukaverkunum lyfja. Þá er enn fremur verið að setja í lög ýmis ákvæði sem okkur ber að setja í íslensk lög vegna gildistöku tilskipana Evrópusambandsins sem hafa verið teknar inn í EES-samninginn.

[10:30]

Fyrirvari okkar er m.a. sá að við teljum að ekki hafi gefist nægur tími til að fara yfir allar athugasemdir og taka tillit til allra athugasemda sem komu fram. Aftur á móti erum við sammála því að það þurfi að setja þessi lög nú þar sem komið hefur krafa frá Eftirlitsstofnun EFTA þar sem við erum fyrir löngu orðin of sein að setja þessi ákvæði inn í lög og verðum því að gera það nú. Annars hefðum við, ég og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, talið ástæðu til að geyma málið til haustsins og skoða ýmsa þætti þess betur.

Það komu t.d. athugasemdir um að það þyrfti að vera hlutverk þessarar stofnunar að fylgjast með þróun í lyfjanotkun hér á landi, það ætti að falla undir slíka stofnun. Það væru þættir eins og heilsuhagfræði lyfja og athuga hvort hún væri í takt við það sem gerist í öðrum löndum. Menn sem við fengum á fund nefndarinnar, t.d. frá Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum verslunarinnar voru með ýmsar athugasemdir sem ég hefði talið að hefði þurft að skoða betur og gefst auðvitað tækifæri til að skoða. Þó svo þetta frv. verði nú að lögum er auðvitað hægt að gera endurbætur á þeim lögum í haust. Það var t.d. bent á að lyfjaeftirlitsgjaldið félli á innflytjendur og þeir voru ósáttir við að það félli alfarið á þá o.s.frv. Það voru ýmsar athugasemdir sem ég hefði talið að þyrfti að vinna betur og skoða en gafst ekki tími til.

Það er líka það sem snýr að verksviði lyfjatækna og ýmsir aðrir þættir sem hefði mátt fjalla um nánar í nefndinni. Ég fagna því sérstaklega að samkomulag varð um að kveða nánar á um menntun og þekkingu forstjóra Lyfjastofnunar sem er náttúrlega mjög nauðsynlegt að komi inn í lögin og það var samróma álit nefndarmanna að svo væri gert. Einnig sá þáttur sem varðar maka lækna, tannlækna og dýralækna, að þeir mættu ekki vera eigendur að stórum hluta í lyfsölu eða lyfjaframleiðslu eða lyfjaheildsölu. Í litlu landi er erfitt að standa við slík ákvæði sem voru upphaflega í frv. þannig að full ástæða er til þess að vera með undanþáguákvæði og nauðsynlegt að setja það inn. Sömuleiðis tel ég vera mjög til bóta að Tryggingastofnun ríkisins fengi rafrænar upplýsingar um lyf frá lyfjaverslunum því að til að fá einhverja heildarmynd á lyfjanotkun þurfa slíkar upplýsingar að berast Tryggingastofnun ríkisins. Það hefur líka verið notað sem ástæða fyrir því að ekki hefur verið unnt að endurgreiða hlut af kostnaði þegar kostnaður hjá sjúklingi hefur verið óeðlilega mikill vegna lyfja, þá hefur það verið notað sem rök að Tryggingastofnun berast ekki slíkar upplýsingar um lyf sem þeir greiða ekki hluta af. Ég tel það vera mjög til bóta að þarna komi inn allar uppplýsingar þannig að unnt verði af hálfu velferðarkerfisins, af hálfu Tryggingastofnunar, að koma til móts við þá einstaklinga sem bera mjög mikinn kostnað og eru e.t.v. tekjulitlir og bera mikinn kostnað og það af lyfjum sem þeir þurfa að greiða að fullu.

Eitt atriði í viðbót langar mig til að nefna þó það komi ekki fram í frv. og það er sú umræða sem hefur verið um að menn ætli að flytja Lyfjamálastofnun frá höfuðborgarsvæðinu út á land. Ég verð að segja að ég tel það alveg ótækt og að það gæti nánast staðið stofnuninni fyrir þrifum ef menn eru að íhuga að flytja Lyfjamálastofnun út á land því að eins og kom fram í nefndinni eru þeir sem starfa við stofnunina margir hverjir starfandi á sjúkrahúsunum, við háskólann. Þess vegna er mjög mikilvægt að stofnunin verði áfram á höfuðborgarsvæðinu. Menn geta ekki litið á þetta sem nýja stofnun, þetta eru auðvitað tvær eldri stofnanir sem eru settar saman í eina stofnun, Lyfjamálastofnun. Þess vegna vil ég ítreka það hér að menn sjái til þess að stofnunin verði áfram á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að það verði nýrri Lyfjamálastofnun fyrir bestu.