Sjúklingatrygging

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 11:23:41 (7548)

2000-05-12 11:23:41# 125. lþ. 117.4 fundur 535. mál: #A sjúklingatrygging# frv. 111/2000, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[11:23]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því sérstaklega að hér er að verða að lögum frv. um sjúklingatryggingu. Ég hef í tvígang á síðasta kjörtímabili lagt fram þingmál um sjúklingatryggingu vegna þess hversu brýnt ég tel þetta mál vera. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. heilbrrh. fór í þá vinnu að klára það verk sem við lögðum til á síðasta kjörtímabili, ég ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni.

Þetta er mikil réttarbót fyrir þá sem hafa orðið fyrir læknamistökum eða öðrum áföllum við læknismeðferð. Hingað til höfum við búið við mjög óburðuga grein í almannatryggingunum innan slysatrygginganna þar sem voru hin svokölluðu Karvelslög eða grein í sjúkratryggingunum um að sjúklingar, sem væru í meðferð á sjúkrastofnunum sem starfa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, væru slysatryggðir samkvæmt almannatryggingalögunum sem var alls ekki nógu góð trygging. Hér er því að koma geysileg réttarbót fyrir þennan hóp. Verið er að tryggja bæði víðtækari rétt handa þeim sem verður fyrir tjóni en hann á samkvæmt skaðabótareglum og jafnframt að auðvelda fólki að ná fram rétti sínum en það hefur oft verið þrautin þyngri að ná fram rétti sínum þegar fólk hefur lent í læknamistökum.

Norðurlandaþjóðirnar hafa búið við svona löggjöf undanfarin 10 ár og er litið til þeirrar löggjafar hér og tel ég að allar breytingar sem gerðar hafa verið á frv. í heilbr.- og trn. hafi verið til bóta.

Vegna þess að síðar á fundinum á að ræða starfsréttindi tannsmiða þá langar mig aðeins til þess að koma inn á atriði sem snýr að sjúklingatryggingunni sem varðar það en í því frv. sem verður til umræðu síðar á fundinum er gert ráð fyrir því að tannsmiðir fái að starfa sjálfstætt við að taka mót og smíða gervigóma en þeir verði áfram iðnaðarmenn. En samkvæmt því frv. um sjúklingatryggingu sem hér eru að verða að lögum, er gert ráð fyrir að þeir sem eru tryggðir fyrir skakkaföllum öðlist rétt, þeir sem lenda í skakkaföllum í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun, í sjúkraflutningum eða hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanni sem hlotið hefur löggildingu heilbr.- og trmrh. En það munu tannsmiðir ekki öðlast þannig að þeir sem verða fyrir skakkaföllum hjá tannsmið eiga engan bótarétt samkvæmt þessum lögum.

Mig langar til að nefna sem dæmi frá tannlæknadeild Háskóla Íslands um það hvað getur gerst ef gervitennur falla ekki rétt að gómum sem ég þekki einhver dæmi um af afspurn. Gervitennur sem ekki falla rétt að gómum eru lausar og særa góma og tannhold og geta valdið miklum varanlegum skaða. Það hefur löngum sannast að þær valdi beineyðingu kjálkabeins og að sjúklingur endi með að geta alls ekki notað gervitennur.

Ekki þarf að tíunda frekar um bæði meltingarvandræði og félagsleg vandamál viðkomandi sjúklings svo að ekki sé minnst á útlit og sjálfsímynd þeirra. Sjúklingur sem lenti í þessu eftir samskipti við tannsmið ætti ekki rétt á bótum samkvæmt sjúklingatryggingunni en ef hann lenti í þessu eftir samskipti við tannlækni þá ætti hann rétt á bótum. Ég vil því aðeins benda á að ef menn samþykkja málið sem er síðar á dagskránni um starfsréttindi tannsmiða er það alveg ljóst að þeir sem lenda í skakkaföllum vegna þjónustu sjálfstætt starfandi tannsmiða eiga ekki rétt á bótum samkvæmt sjúklingatryggingunni. En þetta var útúrdúr, herra forseti. Ég vildi bara benda á þetta atriði þar sem við erum að fjalla um frv. um sjúklingatryggingu. Ég vil ítreka að ég fagna þessari lagasetningu. Hún er mikið famfaraspor. Ég tel það líka til mikilla bóta og tel það mjög gott að menn sem fara til aðgerða á erlendum sjúkrahúsum, t.d. á vegum Tryggingastofnunar ríkisins, svonefnd siglinganefndarmál, eiga einnig rétt á bótum samkvæmt þessu frv. þegar það verður að lögum nema þeir eigi rétt hjá hinu erlenda ríki þar sem þeir eru til meðferðar.

Ég fagna frv. og þessari lagasetningu og styð það heils hugar.