Sjúklingatrygging

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 11:37:41 (7551)

2000-05-12 11:37:41# 125. lþ. 117.4 fundur 535. mál: #A sjúklingatrygging# frv. 111/2000, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[11:37]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að þakka hv. þm. fyrir hve vel og ötullega þeir hafa unnið í heilbr.- og trn. að undanförnu og komið í gegn mörgum mikilvægum málum. Þetta sem við erum hér að ræða er eitt þeirra og skiptir sjúklinga mjög miklu máli sem verða fyrir skaða af völdum læknisaðgerða. Ég heyri að mikill vilji er fyrir því að þetta verði að lögum hið allra fyrsta.

Ég var spurð að því hér af hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur hvort í farvatninu hjá heilbrrn. sé að setja á stofn nefnd til að undirbúa frv. um lyfjatjón eða aukaverkanir lyfja. Það er ekki hafin nein vinna í því en við erum mjög vakandi fyrir því og við erum að fylgjast með því hvað þjóðirnar á Norðurlöndum eru að gera í þessum efnum og munum fylgja þeim í því.