Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 11:43:02 (7553)

2000-05-12 11:43:02# 125. lþ. 117.5 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, Frsm. 1. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[11:43]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hafði óskað eftir því að hæstv. utanrrh. yrði við umræðuna og þætti vænt um að honum væri gert viðvart og gjarnan mætti hæstv. samgrh. vera það einnig því að þrátt fyrir allt, og þó að það gleymist nú oft, er flugstöð fyrst og fremst samgöngumannvirki en ekki eitthvað annað eins og ætla mætti, m.a. af forræði hæstv. utanrrh. yfir þessu mikilvæga samgöngumannvirki sem flugstöðin á helsta millilandaflugvelli landsmanna er. Ég mun ræða svolítið, herra forseti, þann þátt málsins sem lýtur að stjórnsýslu eða forræði síðar í framsöguræðu minni.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. utanrrh. er í húsinu og er væntanlegur í salinn. Er það ósk hv. þm. að hæstv. samgrh. sé gert viðvart?)

Það mætti gjarnan gera honum viðvart. Ég geri ekki kröfu til þess ef hann er vant við látinn að hann sé hér viðstaddur eða að umræðunni sé frestað af því að málið er þó þrátt fyrir allt á forræði utanrrh. Mér er það ljóst.

(Forseti (GuðjG): Þeim skilaboðum verður komið til hæstv. samgrh.)

Ég þakka hæstv. forseta.

Herra forseti. Fyrsti minni hluti gerir að sjálfsögðu ekki athugasemdir við að það mál sé tekið til skoðunar hvort heppilegt sé að breyta eitthvað um rekstrarform varðandi flugstöðina í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við Keflavíkurflugvöll. Það gæti vel komið til álita að einhverjir þættir þess rekstrar ættu betur heima í ríkishlutafélagi en hefðbundnu ríkisfyrirtæki þó að það ætti í sálfu sér ekki að skipta öllu máli, herra forseti. Ég hef aldrei séð að slík kraftaverk fælust í þessum stöfum hf. eða ehf. að það breyti öllu fyrir rekstur ef verkefnin eru áfram þau sömu og mennirnir sem stjórna áfram þeir sömu. Ég hef t.d. aldrei skilið þessa miklu trú á að nafnbreytingin eða formbreytingin ein og sér geri kraftaverk í rekstrinum ef ekkert annað breytist. En það hefur oftar en ekki verið, herra forseti, að nákvæmlega sömu stjórnendur hafa stýrt fyrirtækjum sem hafa sinnt nákvæmlega sömu verkefnum og áður. Þar af leiðandi held ég að menn séu oft að mikla það fyrir sér hvaða áhrif eru fólgin í slíkum breytingum.

[11:45]

Það sem menn eiga fyrst og fremst að spyrja um eins og alla jafnan við slíkar aðstæður, herra forseti, er náttúrlega hvers eðlis viðkomandi rekstur er og hvaða markmiðum hann á að þjóna og hvernig það verði best gert. Hér er á ferðinni eitt mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar þar sem nánast öll millilandaumferð fer um og sem slíkt á það tvímælalaust að vera á hendi hins opinbera og hið opinbera á að eiga og reka slík mannvirki til þess að geta tryggt með eignarhaldi sínu og forræði framgang þeirrar samgöngustefnu sem menn vilja reka hverju sinni.

Þar af leiðandi, herra forseti, tel ég að menn eigi fyrst og fremst að nálgast málið á þennan hátt.

Síðast en ekki síst er alveg ljóst að í þessu sambandi skiptir miklu máli að ekki vaki eitthvað annað fyrir mönnum en yfirlýstur tilgangur er. Auðvitað hefur það orðið tilefni til vaxandi tortryggni í þessum efnum á undanförnum árum að svardagar og yfirlýsingar um að ekki standi til að fara að einkavæða starfsemi heldur sé eingöngu um formbreytingu að ræða hafa oftar en ekki reynst með öllu haldlausir og ég veit að virðulegur forseti þekkir dæmin. Svarið var og sárt við lagt þegar fyrirtækinu Pósti og síma var breytt í hlutafélag að ekki stæði til að hrófla við eignarhaldi ríkisins á því. Þáverandi samgrh. gaf um það alveg sérstakar yfirlýsingar og fór með svardaga í þeim efnum hér á þingi. Þær yfirlýsingar voru ekki orðnar mjög gamlar, lögin ekki nema nokkurra mánaða hygg ég, þegar fyrstu raddirnar fóru af stað um að nú yrði að fara að einkavæða, og sami maður og gefið hafði loforðin áður sneri algerlega við blaðinu, þ.e. þáv. hæstv. samgrh. Svipaðir hlutir hafa gerst í tilviki fjármálastofnana og mörg fleiri dæmi eru til um það.

Það undarlega er reyndar, herra forseti, að í þessu frv. eða öðrum skjölum sem afgreiðslu þess tengjast eru engar sérstakar yfirlýsingar um að einkavæðing standi ekki til eins og þó hafa stundum verið settar inn í greinargerðir með frv. og ég minni t.d. á bankana í þeim efnum, sem var svo reyndar strax farið af stað að svíkja. En maður spyr sig auðvitað hvers vegna það sé ekki gert í þessu tilviki.

Í fyrsta lagi tel ég, herra forseti, mikinn galla á málinu að frv. kom mjög seint fram á þessu þingi og í öðru lagi sýnist mér alveg ljóst að það er engan veginn nógu vel undirbúið. Mikið vantar upp á að ýmsir þættir málsins hafi verið skoðaðir þannig að ég telji það fullnægjandi. Ég vil þar sem dæmi taka að nánast ekkert virðist hafa verið farið ofan í saumana á því fyrr en þá að einhverju leyti eftir að umræður sköpuðust um það mál í utanrmn. hvort þessi fyrirhugaða ráðagerð að sameina allan rekstur í eitt hlutafélag gangi upp t.d. gagnvart samkeppnislögum. Það er það sem þarna á að gera, að sameina í einu hlutafélagi allan rekstur ríkisins á svæðinu, þ.e. byggingu, fríhafnarverslun, útleigu á húsnæði og annað sem þarna tilheyrir. Um þetta atriði segir t.d. í umsögn sem utanrmn. fékk frá fyrirtækinu Íslenskum markaði, með leyfi forseta:

,,Við gerum engar sérstakar athugasemdir við að stofnað skuli hlutafélag um rekstur flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, enda höfðu forsvarsmenn Íslensks markaðar hf. frumkvæði að umræðu fyrir nokkrum árum um að slíkt ætti að gera. Það sem hins vegar gengur ekki upp frá okkar bæjardyrum séð, er að fyrirhugað hlutafélag skuli einnig ná til Fríhafnarinnar. Fyrir því eru nokkrar ástæður og þessar eru helstar. Þegar efnt var til útboðs á verslunarrekstri í flugstöðinni fyrir tveimur árum var allur slíkur rekstur nema Fríhafnarinnar boðinn út. Þetta þótti á þeim tíma einkennileg ákvörðun og ákveðin mismunun á rekstri þeirra tveggja verslana sem reknar höfðu verið í flugstöðinni um áratuga skeið. Önnur var sett í útboð en hin ekki. Það sem fylgdi í kjölfarið var að ákveðin samkeppni var leyfð í húsinu, en það hafði ekki viðgengist áður. Íslenskur markaður hf. hóf t.d. sölu á vöruflokkum sem Fríhöfnin hélt áfram að selja. Þessi samkeppni hefur síðan reynst mjög ójöfn þar sem fyrirtækin greiða ekki leigu eftir sömu reglum, og hafa búið við gjörólík rekstrarskilyrði að öðru leyti þar sem Fríhöfnin er B-hluta ríkisfyrirtæki (opinn ríkissjóður) en Íslenskur markaður hf. er hlutafélag og greiðir skatta og skyldur eins og önnur slík.``

Síðan er farið yfir þetta í ítarlegra máli og segir m.a. undir millifyrirsögninni Samkeppni eftir stofnun hlutafélags:

,,Svo virðist að gleymst hafi að gera ráð fyrir því í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar að í flugstöðinni starfa aðrir rekstraraðilar. Það verður einkennileg staða komin upp þegar aðrir leigutakar þurfa að leita til stærsta samkeppnisaðilans með kjör sín og önnur mál er að rekstri þeirra lýtur. Húsaleiga í flugstöðvum alls staðar í kringum okkur er há og á að vera það. Þar er hins vegar ekki samkeppni milli rekstraraðila og með hárri leigu er verið að kaupa einkaleyfi á sölu á ákveðnum vöruflokkum.``

Þetta, herra forseti, held ég að séu alveg réttmætar ábendingar og ég benti á það sama sjálfur við umræður um málið í utanrmn. að ég sé ekki betur en upp geti komið afar sérkennileg og vandræðaleg staða þegar búið verður að sameina öll þessi hlutverk í einu fyrirtæki sem leigir síðan samkeppnisaðilum sínum aðstöðu í byggingunni. Ég hefði talið að áður en menn a.m.k. treystu sér til að fara fram með málið með þessu móti hefðu menn þurft að afla fyrirframálits Samkeppnisstofnunar eins og hægt er samkvæmt sérstökum ákvæðum í þeim lögum og láta Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð gefa álit sitt á því hvort þetta fyrirkomulag gangi upp. Það hefur ekki verið gert. Og ég spyr: Eru menn tilbúnir til að gera það og fresta þá afgreiðslu málsins á meðan?

Í öðru lagi, herra forseti, eru efnahagslegar forsendur þessarar sameiningar og hins nýja hlutafélags að mörgu leyti óljósar. Það sem við höfum í höndum eru áætlaðar tölur, ársreikningur er áætlaður og efnahagsreikningur er áætlaður. Það á að vísu að skipa sérstaka nefnd sem á síðan að koma þessu saman en þegar Alþingi er hér fyrir sitt leyti að afgreiða málið og gefa lagaheimild fyrir því að búa til þetta félag, þá byggir það á eintómum áætlunum. Sýna nú dæmin og þar á meðal nýleg dæmi að margt getur orkað tvímælis þegar eignir eru metnar sem stofnfé í efnahagsreikningi í væntanlegum hlutafélögum. Ég geri ráð fyrir því að menn minnist þeirra hremminga sem menn hafa lent í með fyrirtækið Íslandssíma hf. í því sambandi þar sem menn hafa verið dæmdir eða hraktir til þess að gera stórfelldar breytingar á efnahagsreikningi fyrirtækisins. Um þessar efnahagslegu forsendur segir t.d. líka í einni af umsögnum sem nefndinni bárust aftur frá fyrirtækinu Íslenskum markaði, með leyfi forseta:

,,Með frumvarpinu fylgir ítarleg rekstraráætlun til fimm ára. Þar er m.a gert ráð fyrir að húsaleiga muni hækka um 36% á tímabilinu. Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt teljum við að þessi áætlun geti ekki staðist nema aðrar breytingar komi til. Þær verslanir sem starfa í flugstöðinni verða að fá leiðréttingu á kjörum sínum annars munu þær ekki geta starfað áfram að óbreyttu. Tilkoma nýrrar flugstöðvarbyggingar mun ekki breyta miklu þar um. Þar er verið að færa 15--20% af heildarfarþegafjölda til í húsinu og alveg ljóst að erfitt verður fyrir núverandi leigutaka að bæta við sig húsnæði og einnig erfitt fyrir nýja að koma inn. Farþegum mun ekkert fjölga við það eitt að stækka flugstöðina nema sem nemur árlegri aukningu. Þess vegna er þar ekki um nýja sölu að ræða heldur eins og áður sagði tilflutning á þeirri sem fyrir er. Við þær aðstæður verður erfitt að bæta við kostnaði af nýju svæði.``

Hér er verið að halda því fram, herra forseti, og að mörgu leyti virðast skynsamleg rök fyrir því að staða rekstraraðila verði þarna mjög erfið og húsaleiga er þegar mjög há og í einhverjum mæli hafa menn lent í vandræðum með að ná endum saman og standa skil á henni og verslanir hafa þegar lagt upp laupana, og í raun fullyrt að forsendur þessarar rekstraráætlunar til fimm ára sem hér er lögð fram standist ekki, þannig að forsendur sem menn gefa sér þarna um mögulegar tekjur á komandi árum og það sem á að taka inn í efnahagsreikning hins nýja hlutafélags er mjög á floti, hvernig þeir hlutir koma saman.

Það er einnig margt óljóst, herra forseti, um tilhögun mála hvað varðar t.d. hlut hins nýja hlutafélags, ef stofnað verður, í framtíðaráformum og framkvæmdum á svæðinu og má þar í því sambandi minna á mikinn kostnað við að mæta þörfum og kröfum sem á Ísland leggjast með aðild að Schengen-samningnum. Flugrekendur og ferðaþjónustufyrirtæki telja sig hafa loforð fyrir því að allur viðbótarkostnaður af aðild að Schengen greiðist úr ríkissjóði en ekki af ferðaþjónustuaðilunum. Einnig að þessu leyti er mjög losaralega frá málum gengið í frv.

Ég nefni t.d. að hvergi kemur skýrt fram hvort þessu nýja hlutafélagi er ætlað að annast þær framkvæmdir allar sem fram undan eru í Leifsstöð. Á það sjálfkrafa að reisa, eiga og reka þær nýju byggingar og annað slíkt sem þarna á að koma til sögunnar, eða hvað? Er það endilega sjálfgefið að það sé heppilegt fyrirkomulag að sama hlutafélagið sé annars vegar með reksturinn í byggingunum sem fyrir eru og standi svo í framkvæmdunum líka, nýframkvæmdunum? Hefði t.d. ekki komið til greina að hafa þarna a.m.k. tvö aðskilin hlutafélög sem önnuðust sinn þáttinn hvort? Þau gátu lotið sameiginlegri yfirstjórn, sameiginlegu eignarhaldsfélagi eða á annan hátt hefði mátt hugsa sér að ganga frá því. En það er auðvitað, herra forseti, ekkert smámál sem þarna er komið inn á af hálfu t.d. umsagnaraðila eins og Flugleiða. Hvernig verður frá þessum þáttum gengið og hver borgar? Hver ætlar að borga viðbótarkostnaðinn af Schengen upp á milljarða króna á komandi árum? Verður staðið við það fyrirheit sem flugrekendum var gefið að það verði greitt sérstaklega úr ríkissjóði en ekki lagt á t.d. flugstöðina eða hlutafélagið sem getur þá auðvitað ekkert annað gert en velt því yfir á notendurna? Þannig er það, herra forseti. Þeir fjármunir munu ekki koma af himnum. Og þess vegna er í raun og veru með öllu ólíðandi að það skuli ekki sett skýrt inn í lögin um leið og á að stofna hið nýja hlutafélag. Hvaða fjármuni fær það á komandi árum til þess að ekki verði um brigð á því loforði að ræða að Schengen-aðildin feli ekki í sér viðbótarkostnað fyrir flugrekendur og aðra aðila sem þarna standa fyrir rekstri? Í umsögn Flugleiða segir m.a. um þetta, með leyfi forseta:

,,Áður en vikið verður að frumvarpinu og einstökum greinum þess vil ég sérstaklega vísa til meðfylgjandi umsagnar Flugleiða hf. um ,,tillögur til þingsályktunar um fullgildingu samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna, 206. mál,`` sem send var Alþingi 25. janúar sl. Þar var m.a. vitnað til bréfs sem utanríkisráðherra sendi Flugleiðum 9. maí 1996, þar sem staðfest var að ríkissjóður myndi greiða stofnkostnað og rekstrarkostnað er leiddi af Schengen-samstarfinu, og að engar fyrirætlanir væru um að leggja á viðbótargjald vegna Schengen-samkomulagsins. Ljóst er, að af hálfu Flugleiða er lögð afar þung áhersla á að staðið verði að fullu og til framtíðar við þessa yfirlýsingu, óháð því hvaða rekstrarform verður valið fyrir Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli.``

Hvar er frágangur á þessu máli, herra forseti, í frv. eða í tengslum við þetta mál? Bréfið frá utanrrh. frá 9. maí 1996 segir berum orðum að fjármunirnir muni koma sérstaklega úr ríkissjóði. Ég sé það ekki í áætlunum og rekstraráætlun t.d. þessa nýja fyrirtækis næstu árin. Þvert á móti er ljóst að þar eru færðar inn fjárfestingar sem fyrir dyrum standa. Það verður ekki betur séð. Þannig eiga t.d. fastafjármunir hins nýja fyrirtækis að aukast úr 8,4 milljörðum í rúma 11 á árunum 2001--2005. Vegna hvers? Vegna þess að þar á að eignfæra inn væntanlega hinar nýju byggingar. En hefði þá ekki átt að sýna fjármunina úr ríkissjóði á móti til þess að standa við samkomulagið um að efna það að ríkissjóður kæmi inn með peninga sem næmi ekki bara stofnkostnaði vegna Schengen heldur líka rekstrarkostnaði? Hvar er frágangurinn á þessu máli og hvernig hyggst hæstv. utanrrh. standa við þessi loforð? Ég vil fá svör við því og tel að það eigi fullt erindi inn í afgreiðslu þessa máls. Ef svo er og verði við það staðið sem ég auðvitað treysti, þá eru áætlaðir ársreikningar þessa fyrirtækis kolvitlausir því að á móti fjárfestingunni verður þá að koma ríkisframlagið fyrir Schengen-hlutanum sem þarna er færð inn og inn í tekjuhlið áætlunarinnar.

[12:00]

Það þýðir ekki að reyna að segja okkur að þetta gerist þannig að flugstöðin eigi bara að taka þetta inn í gegnum sína tekjustofna. Hverjir eru þeir? Þeir eru notendagjöld. Og hvað er þá að gerast? Jú, þá væru menn að borga Schengen-kostnaðinn, sömu aðilar og lofað var að þyrftu ekki að gera það. Það er ekkert leyndarmál, herra forseti, og hafi það verið leyndarmál þá verður það það ekki lengur því að ég ætla að segja það, það er ekkert leyndarmál að t.d. aðilar eins og Flugleiðir voru keyptir til stuðnings við Schengen-aðildina með þessu loforði. Þar voru menn mjög gagnrýnir á það, höfðu og hafa enn miklar áhyggjur af því hvernig til tækist með Schengen, ef við færum inn í það. Ég er ekki í vafa um að mjög margir ferðaþjónustuaðilar hefðu heldur kosið að við yrðum þarna fyrir utan, sérstaklega auðvitað flugfélögin vegna áhyggna sem þau hafa af því, einkum auðvitað Flugleiðir, að tengiumferðin lendi þarna í vandræðum út af Schengen. En þeir voru m.a. keyptir til þess að láta kyrrt liggja og leggjast ekki gegn málinu út á það að þeim var lofað sérstaklega að fjármunir úr ríkissjóði kæmu til að mæta viðbótarkostnaðinum. Þó að auðvitað megi deila þarna um forsendur og gefa sér ýmsar slíkar til grundvallar útreikningum þá er í öllu falli alveg ljóst að Schengen-viðbótarkostnaðurinn bara núna í fyrsta áfanga, bara í nýju tengibyggingunni við enda landgangsins og tengdum framkvæmdum, hleypur á fleiri hundruðum millj. kr. Þeir útreikningar sem utanrmn. voru sýndir í tengslum við umfjöllun um Schengen-málið sýndu það. Þarna ættu því að lágmarki að koma sennilega a.m.k. 700--900 millj. kr. í formi framlaga frá ríkissjóði inn í dæmið ef standa á við loforðin frá 1996. Þannig er það, herra forseti.

Herra forseti. Sums staðar er orðalag þessa frv. --- og það er annað atriði sem ég vil taka sérstaklega til umfjöllunar --- nokkuð óljóst og virðist í raun ekki hafa verið nægilega til þess vandað. Ég get nefnt sem dæmi 7. gr. þar sem fjallað er um tilgang hins nýja félags. Að hluta til er horfst í augu við þetta með brtt. meiri hlutans. En þarna hefði að mínu mati mátt betur gera.

Líka hefur verið á það bent að kveða þyrfti skýrar á um stöðu þessa fyrirtækis í samhengi við alþjóðlegar skuldbindingar á starfssviðinu, þ.e. allt sem lýtur að rekstri flugstöðva, flugumferð og farþegum. Reyndar er athyglisvert, herra forseti, og í raun ótrúlegt að hvergi er mælt sérstaklega fyrir um það meginmarkmið flugstöðvar að taka á móti farþegum eða sinna þeim og tryggja umferð þeirra um bygginguna o.s.frv. Höfundar frv. hafa fyrst og fremst verið uppteknir af rekstrinum en nánast gleymt þessum þætti málsins. Það er með ólíkindum, herra forseti, að í þessu frv. um flugstöð, um samgöngumannvirki, er hvergi minnst á þann þátt. Orðið farþegi kemur hérna hvergi fyrir. Það getur verið í greinargerðinni. Ég hef ekki lúslesið hana. En ég held að ég megi örugglega fullyrða að það komi hvergi fyrir í lagatextanum sjálfum. Um þetta segja t.d. ýmsir umsagnaraðilar. Við getum t.d. byrjað aftur á Flugleiðum, með leyfi forseta:

,,Þá er einnig brýnt að hafa í huga það meginhlutverk alþjóðlegrar flugstöðvar að flugfarþegum verði veitt góð og örugg þjónusta í samræmi við ákvæði Chicago-sáttmálans frá 1945 og síðari alþjóðleg skjöl og samþykktir á þessu sviði, og honum tengjast. Hér er m.a. um að ræða svonefndan viðauka nr. 9 (ICAO Annex 9, ,,Facilitation``) og viðauka nr. 17 (ICAO Annex 17, ,,Security``),`` --- sem fjalla annars vegar um aðstöðu ,,facilitation`` og hins vegar um öryggi ,,security`` --- ,,en þar er að finna þau ákvæði er lúta að grundvallarhlutverki alþjóðlegra flugstöðva. Hafa þarf í huga að almenn verslunarstarfsemi í slíkri flugstöð má ekki njóta forgangs umfram meginhlutverk hennar, eins og það er skilgreint í alþjóðlegum samningum og verklagsreglum.``

Hér er komið inn á mjög mikilsvert atriði sem mér sýnist höfundum frv. hafa meira og minna yfirsést. Hvert er meginhlutverk flugstöðvar? Það er ekki verslunarrekstur. Það er ekki að græða á útleigu húsnæðis. Það er að sinna farþegunum og koma þeim örugglega til og frá þeim stöðum sem þeir eru að ferðast á milli. Bæði Flugmálastjórn á Reykjavíkurflugvelli og Flugmálastjórn í Keflavík koma sérstaklega inn á þetta. Ég held að nauðsynlegt sé að vitna aðeins í þær umsagnir einnig hvað þennan þátt varðar. Flugmálastjórn á Reykjavíkurflugvelli segir t.d., með leyfi forseta:

,,Þegar fjallað er um framangreint málefni er rétt að hafa í huga nokkur mikilvæg atriði varðandi rekstur alþjóðlegra flugvalla og þá sérstaklega flugstöðva á slíkum flugvöllum:

1. Ísland, eins og önnur aðildarríki Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO), hefur undirgengist að fara að reglum stofnunarinnar um rekstur alþjóðlegra flugvalla. Þessar reglur birtast sem staðlar og tilmæli í viðaukum við stofnsamning ICAO. Jafnframt hefur verið gerður fjölda samþykkta á þingum ICAO og af fastaráðinu, sem útfæra nánar hvernig staðið skuli að verki á einstökum sviðum.

2. Eitt af grundvallaratriðum varðandi rekstur slíkra mannvirkja er að þjóðríkið getur ekki framselt ábyrgð á því að farið sé að settum reglum og mannvirkin byggð og rekin í samræmi við reglur ICAO. Til þess að rækja þessa ábyrgð verður ríkið að geta haldið uppi eftirliti með starfseminni og gripið inn í hana ef þurfa þykir.``

Herra forseti. Í raun og veru eru þetta kannski sterkustu rökin fyrir því að svona mannvirki á að sjálfsögðu að vera í opinberri eigu og rekið af hinu opinbera vegna þess að hið opinbera er bundið skyldum gagnvart því að hlutirnir gangi fyrir sig með tilteknum hætti.

,,Sérstaklega er vert að geta alþjóðlegra skuldbindinga á sviði flugverndar (aviation security), sem m.a. koma fram í Viðauka 17 (Aviation Security) við stofnsamning ICAO og samþykktum Evrópusambands flugmálastjórna (ECAC).

3. Ljóst er að samkvæmt skilgreiningu ICAO er aðalhlutverk alþjóðlegrar flugstöðvar að veita alla nauðsynlega þjónustu þannig að flugfarþegar komist greiðlega leiðar sinnar milli flugvélar og lands. Öll starfsemin verður að laga sig að þessu hlutverki og um hana gilda ítarlegar reglur sem birtast í Viðauka 9 (Facilitation) við stofnsamning ICAO. Gert er ráð fyrir að margvísleg önnur þjónusta við flugfarþega geti farið fram í flugstöðvum eins og t.d. hvers konar verslun og veitingastarfsemi. Slík þjónusta hlýtur þó ætíð að vera í öðru sæti hvað varðar forgang.``

Slík þjónusta hlýtur þó ætíð að vera í öðru sæti hvað varðar forgang. Þá er það svolítið ankannalegt, herra forseti, að það atriðið sem allir helstu umsagnaraðilarnir undirstrika og minna á að eigi að vera númer eitt, þ.e. þjónustan við farþegana og það að tryggja umferð þeirra um bygginguna, er ekki nefnt í frv. Hins vegar er frv. að uppistöðu til umgjörð um verslunarreksturinn og útleiguna á húsnæðinu og allt það.

Að sjálfsögðu hafa menn haft það sér til málsvarnar að það sé svo sjálfsagður hlutur að flugstöð eigi að sinna flugfarþegum að ekki þurfi að taka það fram. En má þá ekki alveg eins segja það um hina þættina? Ekki hefði nú sakað að gera það. Reyndar viðurkennir utanrmn. að hluta til þennan ágalla málsins með sinni brtt. þar sem m.a. eftirlitsþætti stjórnvalda er komið sérstaklega inn í málið.

Mjög svipað er að finna um þetta atriði í umsögn Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli. Þar er vitnað í Chicago-sáttmálann á nýjan leik og viðauka 9 við hann sem Ísland er einnig aðili að og fjallar um aðstöðu fyrir flugfarþega sem aðildarríkin skuldbinda sig til að láta í té á millilandaflugvöllum. Í því sambandi er aðaláhersla lögð á að flugfarþegar fái skjóta og örugga þjónustu m.a. á eftirtöldum sviðum: Innritun og skil á farangri, vegabréfaskoðun og vopnaleit.

Í kafla í skjalaukanum, þ.e. viðauka 9, þar sem fjallað er um verslanir í flugstöðvum er að finna ábendingu þess efnis að þær skuli staðsetja þannig að verslanir trufli ekki eða hefti flæði eða ferðir farþega. Svo segir Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli enn fremur, með leyfi forseta:

,,Meginhlutverk flugstöðvarinnar er afgreiðsla farþega og þjónusta því tengd. Hlutverk flugstöðvarinnar er einnig á sviði opinberrar stjórnsýslu, ekki síður en á sviði einkarekstrar og viðskipta. Það er því mikilvægt að stjórnvöld missi ekki stjórnsýslulegt vald yfir flugstöðinni.``

Þetta er ástæða til að undirstrika, herra forseti, í sambandi við þennan þátt málsins.

Í þriðja lagi verður að spyrja, herra forseti, þegar þetta er skoðað: Hverju er í raun verið að breyta fyrir utan þessa formbreytingu? Hvað er trixið eins og krakkar mundu kannski orða það? Hver er brellan? Jú, hún er ósköp einföld þegar upp er staðið. Hún er ósköp einfaldlega sú að hér er verið að taka ákvörun um að gera upptækan hagnaðinn af rekstri Fríhafnarinnar sem hingað til hefur runnið í ríkissjóð og nota hann til að borga niður fjárfestingar og skuldir flugstöðvarinnar. Flóknara er það nú ekki. Það á að færa þarna til nokkur hundruð millj. kr. í fjármunum talið sem hingað til hafa runnið í ríkissjóð og nú eiga í gegnum það að sameina rekstur Fríhafnarinnar og flugstöðina í einu fyrirtæki að renna þar inn. Þá má spyrja, herra forseti: Hefði ekki verið mun einfaldara bara að ákveða þetta? Er ekki einfaldara að ákveða það að í tengslum við afgreiðslu fjárlaga eða með öðrum hætti að næstu fimm eða tíu árin renni allur hagnaður af rekstri Fríhafnarinnar bara til þess að borga niður skuldirnar? Það er að mörgu leyti skynsamlegt. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það og í raun má segja að það sé að sumu leyti eðlilegra en sú ráðstöfun sem verið hefur vegna þess að þetta er þó þrátt fyrir allt arður sem myndast af starfsemi sem byggir á flugumferðinni og tilvist flugstöðvarinnar, enda hefur stundum verið á það bent. Það má t.d. í því sambandi minna á --- ég held að það hafi komið fram annaðhvort í umsögn flugráðs eða hvort það er Flugleiða --- að þar á bæ hafi menn undanfarin ár einmitt oft bent á að óeðlilegt væri að allur ágóði af rekstri Fríhafnarinnar rynni í ríkissjóð en kæmi ekki til góða a.m.k. að einhverju leyti þeim rekstri sem þarna væri á ferðinni.

Efnislega felst þetta í málinu að stærstum hluta til og þá er þetta náttúrlega ákaflega krókótt leið að því markmiði að ná í hagnaðinn af Fríhöfninni, þ.e. að fara út í þetta hlutafélagabrölt og að sameina þetta allt í einu fyrirtæki sem getur, eins og áður hefur komið fram, haft ýmiss konar önnur vandamál í för með sér. Ég hef þegar minnt þar á samkeppnisþáttinn.

Herra forseti. Í fjórða lagi vill 1. minni hluti taka það fram að fari svo sem við höfum því miður fordæmi fyrir að hér sé verið að marka upphafið að einhverju einkavæðingarferli sem endi í einkafákeppnis- eða einkaeinokunarrekstri þá erum við algerlega andvíg því. Við stöndum ekki að slíkum breytingum í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði fyrir utan það að það er auðvitað alveg ljóst, og ég hef þegar rökstutt það, að samgöngumannvirki af þessu tagi á að vera í eigu opinberra aðila og rekið af þeim. Ég hefði gjarnan viljað sjá, herra forseti, skýrt fyrirheit um það eða yfirlýsingu. Það væri betra en ekki ef hæstv. utanrrh. væri fáanlegur til að gefa hér yfirlýsingu um að það standi ekki til að hrófla við eignarhaldi ríkisins á þessu mannvirki, a.m.k. ekki t.d. næstu 12--15 árin sem er u.þ.b. það tímabil sem núverandi fjárestingaráætlanir taka til. Það er um að ræða stórfelldar framkvæmdir, sú sem nú er hafin og síðan viðbyggingar út frá henni í báðar áttir plús væntanlega einnig breikkun á landgangi, samtals framkvæmdir upp á 7--8 milljarða á næstu 10--15 árum. Að sjálfsögðu getum við ekki bundið með yfirlýsingum af því tagi í sjálfu sér hendur þeirra sem kunna að fara með þessi mál á komandi árum. En við getum lýst því sem okkar stefnu sem nú erum í aðstöðu til þess og staðið við hana eftir því sem við erum í færum um á komandi árum. Ég spyr því, herra forseti, hæstv. utanrrh.: Er hæstv. utanrrh. tilbúinn til þess fyrir sitt leyti að lýsa því yfir, eftir því sem hann verði í aðstöðu til, að hann vilji beita sér fyrir því að ekki verði þarna um breytingu að ræða næstu 12--15 árin? Ég tel að það skipti talsverðu máli að hafa fast land undir fótum í þeim efnum sérstaklega af tveimur ástæðum. Það er auðvitað annars vegar hin almenna röksemd að þessi rekstur á að vera á hendi hins opinbera vegna alþjóðlegra skuldbindinga og af ýmsum fleiri ástæðum, en líka vegna þeirra miklu framkvæmda sem þarna eru fram undan og Schengen-þáttarins í því máli. Ég held að það sé bæði einfaldast og eðlilegast að menn standi við sín loforð í þessum efnum, m.a. hvað það varðar að hann verði ekki til þess að íþyngja rekstraraðilum heldur verði allur viðbótarkostnaður honum samfara greiddur beint úr ríkissjóði, að gera það einmitt með því að ríkið eigi og haldi mannvirkið. Þá er það hreint og beint og getur ekki einfaldara verið.

[12:15]

Það er auðvitð alveg ljóst, herra forseti, að ýmsa langar í þá matarholu, það er alveg ljóst. Það væru örugglega ýmsir tilbúnir til að fá þetta afhent á silfurfati til þess að geta grætt á því eftir að ríkið er búið að koma þessu upp, eins og við höfum náttúrlega séð. Menn hafa verið furðu lagnir við að afhenta mönnum mjólkurkýrnar eftir að búið er að koma í þær kálfi, ef svo má að orði komast. Og er nú ekki góður búskapur að selja alltaf frá sér kelfdu kvígurnar. En ég hvet hæstv. utanrrh. til að stunda ekki slíkt búskaparlag og vildi gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra einhverja yfirlýsingu í þessu sambandi.

Herra forseti. Þá ætla ég í fimmta lagi að ræða aðeins um stjórnsýsluþátt þessa máls. Það fyrirkomulag, herra forseti, að utanrrh. skipi einn alla stjórn þessa fyrirtækis er að mínu mati algerlega fráleitt, það er algerlega fráleitt að þannig verði frá málum gengið í hinu nýja hlutafélagi. Ég teldi frekar að við ættum að rifja upp tillögu okkar, ég og hæstv. utanrrh., frá því við sátum saman sem stjórnarandstæðingar í efh.- og viðskn. og fluttum um það tillögu að Alþingi kysi stjórn Síldarverksmiðja ríkisins hf. svo lengi sem a.m.k. meiri hlutinn væri í eigu ríkisins. Þá væri eðlilegt að því fyrirtæki væri skipuð slík stjórn. En hafi verið ástæða til þess þá og rök sem að sjálfsögðu voru, þá eru náttúrlega enn frekari rök fyrir því hér og ég vil færa fram nokkur.

Í fyrsta lagi, herra forseti, er um að ræða eitt mikilvægasta samgöngumannvirki landsins sem þjónar landsmönnum öllum á eina umtalsverða millilandaflugvellinum. Þetta er miðpunktur í samgöngukerfi landsmanna og afar mikilvægur sem slíkur. Ég teldi eðlilegasta fyrirkomulagið, herra forseti, --- og að mínu mati yrði það í raun mjög til bóta upp á samskipti í þessum málum --- að yfir því fyrirtæki sem þarna er verið að stofna væri þingkjörin stjórn. Það skiptir til að mynda heilmiklu máli hvernig þarna er staðið að verki í sambandi við tengsl flugsamgangnanna, millilandaflugsins, við aðrar samgöngur, við innanlandsflug og við áætlunarsamgöngur á landi og fleira í þeim dúr.

Ég vil líka láta það koma fram, herra forseti, að ég tel auðvitað að hiklaust eigi að stefna að því að færa yfirráð yfir flugstöðinni frá utanrrn. til samgrn. Og þess vegna m.a., herra forseti, var ég að vonast til þess að hæstv. samgrh. gæti einnig verið viðstaddur umræðuna. Það væri fróðlegt að heyra viðhorf núv. samgrh. í þeim efnum. Er núv. hæstv. samgrh. sáttur við þetta fyrirkomulag? Það hafa samgrh. yfirleitt ekki verið en reynst torsótt að fá þessu breytt. Ég tel mig tala af svolítilli reynslu og fullyrði að það er hið mesta vandræðafyrirkomulag að þessi mikilvægi þáttur samgöngumála sé tekinn undan og sé ekki á forræði samgrh. Ég held að það sé ein ástæðan fyrir því að mönnum hefur gengið heldur böksulega að koma hlutum í eitthvert almennilegt skipulag, ekki vegna þess að þeir utanrrh. sem með málin hafa farið hafi ekki verið allir af vilja gerðir, heldur vegna þess að það er mjög umhent í stjórnsýslunni að tvískipta þessu á þennan hátt.

Ég tel þess vegna, herra forseti, að skoða eigi það í alvöru að afmarka varnarsvæðið sem svo er kallað við flugstöðina þannig að flugstöðvarbyggingin sjálf og landgangar lendi út fyrir varnarsvæðið þó að flughlöðin gerðu það ekki og þá sé hægt að færa forræðið yfir sjálfu mannvirkinu og rekstrinum þar undir samgrn. Ég sé ekkert vandamál í því sambandi nema þá það eitt að á þessu mannvirki hvílir sú kvöð sem getur vaknað upp, fræðilega séð, að Bandaríkjamenn eiga áskilinn rétt til afnota af byggingunni við tilteknar ástæður. Það mál má leysa þannig að frá því sé gengið að gerist það, þá færist stjórnsýslan yfir til utanrrh. ef það er vandamálið í þessu sambandi.

En þetta ákvæði er óvirkt, hefur verið það frá byrjun og verður vonandi um aldur og ævi og aldrei til þess gripið. Á þá að nota það sem röksemd fyrir því að þetta mikilvæga samgöngumannvirki sé ekki á forræði samgrh. eins og önnur í landinu um alla tíð? Er virkilega ekki hægt að tala saman í alvöru um þetta? Það ætti að vera að hægt að treysta hæstv. núv. samgrh., ekki er hann svo varhugaverður í skoðunum í utanríkismálum, er það? Eins og talið var eiga við um suma aðra samgrh. fyrr á öldinni að þeim væri ekki treystandi fyrir því að komast með hendurnar í þetta, það ætti þá ekki að eiga við núna, eða hvað? Treystir hæstv. utanrrh. ekki hæstv. samgrh. prýðilega til að fara vel með þetta mál?

Ég spyr, herra forseti, og spyr í alvöru: Getur hæstv. utanrrh. hugsað sér að menn skoði það að gera þarna breytingar? Ég held að mjög mikilvægt sé að svo verði.

Ég vil líka spyrja, herra forseti, ef þetta verður gert á þennan hátt, þarf þá ekki líka og er ekki eðlilegt að skoða stöðuna sums staðar annars staðar? Hvað með flugvallarrekstur og fríhafnarrekstur annars staðar þar sem millilandaflug er að einhverju leyti til staðar eða getur vonandi orðið á komandi árum? Er þá endilega heppilegt að vera að búa um þetta í ólíku fyrirkomulagi af þessu tagi?

Varðandi stjórnarþáttinn að öðru leyti þá verð ég að segja að fallist menn ekki á þá tillögu sem ég teldi skynsamlegasta og mun e.t.v. leggja hér til í formi brtt., ef ekkert verður tekið undir þetta af annarra hálfu. Fyrsta tillaga mín, aðaltillaga, er að vísu sú, herra forseti, ég skýt því inn í, að vísa málinu á þessu stigi til ríkisstjórnarinnar og fela henni að vinna það betur og leggja þá fram nýtt frv. að hausti. En verði ekki á slíkt fallist mundi ég þó telja að það mætti hugsa sér að gera á þessu breytingar til bóta og aðaltillaga mín væri sú að þingið kysi þessu nýja mannvirki stjórn. Og færi þá með forræðið í samráði við hæstv. ráðherra. Þess vegna gæti hæstv. ráðherra tilnefnt formann stjórnarinnar án tilnefningar og þingið kysi aðra stjórnarmenn, það má hugsa sér ýmiss konar fyrirkomulag í þeim efnum.

En algjört svartasta lágmark er, herra forseti, að samgrh. tilnefni eins og tvo menn þarna inn í stjórnina. Mér finnst það alveg ótrúlegur frágangur á málinu að ætla utanrrh. einum að tilnefna alla stjórnina. Ég minni t.d. á þau fordæmi þegar fyrirtæki eða viðfangsefni hafa legið á mörkum milli ráðuneyta, eins og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. gerði, þá voru tveir ráðherrar látnir tilnefna í stjórn hans á meðan hann var ríkisfyrirtæki. Sjútvrh. átti þar menn í stjórn þótt viðskrh. færi með málið að öðru leyti.

Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég skoðaði það ákvæði sem hér á við eða þetta frv. að þetta væri alfarið á hendi hæstv. utanrrh. og ekki gert ráð fyrir að neinir aðrir kæmu þar nálægt hlutunum, því það verður ekki öðruvísi af samhenginu ráðið, þ.e. forræði utanrrh. á málinu, og síðan 12. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að stjórnin sé kosin á aðalfundi, það eru þá eigendurnir sem það gera. Og hver á að fara með eignarhaldið f.h. ríkisins? Jú, utanrrh., er það ekki þannig?

Ég verð að segja alveg eins og er að ef þetta hefur verið kynnt í ríkisstjórn og hæstv. samgrh. ekki maldað í móinn, þá er hann nú geðlausari en ég hef hingað til talið. Er það virkilegt að hæstv. samgrh. hafi þegjandi og möglunarlaust látið þetta yfir sig ganga? Þá verða bara einhverjir aðrir að koma honum til hjálpar held ég. Ég spyr því einnig, gæti hæstv. utanrrh. hugsað sér t.d. að frá því yrði gengið og þá á ég við með lögum, auðvitað getur hæstv. utanrrh. gert það og vel getur verið að það standi til að leita álits samgrh. eða fá frá honum tilnefningar um menn sem utanrrh. síðan á aðalfundinum gerir að sínum mönnum í stjórn, en það á ekki að gera það þannig að mínu mati, herra forseti, það á bara að vera skýrt til að undirstrika líka mikilvægi þessa mannvirkis sem samgöngumannvirkis að samgrh. tilnefni menn í stjórn.

Ég tel, herra forseti, að í rauninni séu miklu brýnni verkefni sem ég hefði fyrr talið að menn hefðu átt að vera að eyða orku í heldur en í sjálfu sér þetta hlutafélagabrölt. Það væri að setja kraft í mögulega uppbyggingu á öðrum sviðum og atvinnusköpun út frá flugstöðinni og í tengslum við hana. Ég verð að játa að mér finnst að mjög lítið hafi gerst í þeim efnum miðað við það sem maður hafði bundið vonir við. Það er t.d. mjög dapurlegt að ýmis hliðarrekstur sem víða erlendis sprettur upp við flugvelli hefur ekki fest rætur nema að mjög litlu leyti við Keflavíkurflugvöll. Þar er að vísu viðhaldsstöð Flugleiða og þar er flugeldhús sem auðvitað þarf að vera og einhver rekstur í nafni fyrirtækis sem Suðurflug heitir ef ég veit rétt, en þar er t.d. ekki nema að mjög litlu leyti lagerhald flugrekenda. Fyrirtækið Atlanta er með stórrekstur í Englandi. Hefði ekki verið mögulegt að ná þeim rekstri hingað ef menn hefðu verið betur vakandi og reynt að greiða fyrir slíku. Það eru menn að gera annars staðar. Opinberir aðilar leggja alveg blygðunarlaust fjármuni í að ná til sín rekstri af slíku tagi. Og manni fyndist fljótt á litið að slíkur rekstur, ekki bara íslenskra flugrekenda, heldur margra annarra ætti að geta verið prýðilega settur að einhverju leyti á Keflavíkurflugvelli. Viðhald og þjónusta við flugrekstur, lagerhald, jafnvel ýmis smáiðnaður sem slíku tengist, en það hefur gengið mjög seint.

Ef hillir undir að ameríski herinn fari úr landi getur verið að vísu að menn setji kraft í að nýta sér möguleikana á slíkum sviðum til að byggja upp atvinnulíf á móti. Þá getur verið ágætt að eiga það inni út af fyrir sig, en eitthvað hefði nú mátt vera byrjað á þessu finnst mér, herra forseti.

Rétt er að nefna kannski lítillega í viðbót, herra forseti, einn þátt enn sem flækir svolítið stöðu þessa máls og ég nefndi reyndar áðan, það er að Bandaríkjamenn settu fjármuni í þetta mannvirki. Tuttugu millj. dala komu í formi eingreiðslu frá Bandaríkjamönnum inn í byggingu flugstöðvarinnar. Ég vil að vísu halda því fram og hef gert áður að sú þátttaka Bandaríkjamanna í málinu hafi verið afar dýru verði keypt. Ég held að öll gögn sýni það þegar upp er staðið að það var lítill búhnykkur fyrir Íslendinga að fá þessar 20 millj. með öllum þeim kvöðum og viðbótarkostnaði sem því fylgdi að hanna mannvirkið á þann hátt sem leiddi af kröfum m.a. Bandaríkjamanna.

Fyrir um tíu, tólf árum síðan, herra forseti, var hér nokkuð mikil umræða um þetta mál á Alþingi Íslendinga í framhaldi af skýrslu sem Ríkisendurskoðun gerði um byggingu flugstöðvarinnar í Keflavík. Og þar var margt skrautlegt, herra forseti. Það var nú margt skrautlegt í þeirri skýrslu. Það mál er að ýmsu leyti frægt að endemum, því að fyrir utan þennan mikla kostnað sem reyndist samfara því að uppfylla kröfur Bandaríkjamanna í þessari flugstöð og hún er mjög sérkennilega hannað mannvirki að ýmsu leyti af þeim ástæðum, þá kostaði æðibunugangurinn sem var í mönnum að ná að opna flugstöðina fyrir kosningarnar 1987 stórfé, svo að hægt væri að mynda framboðslista Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi utan við flugstöðina. Það kostaði fleiri hundruð milljónir, herra forseti, bara sú eina mynd sem birtist í blaði sjálfstæðismanna á Reykjanesi rétt fyrir kosningarnar 1987 með þáv. samgrh. í broddi fylkingar, eða var það þáv. utanrrh. þá mánuðina. (Gripið fram í: Frekar verið hann.) Frekar verið hann. Að minnsta kosti var það fyrsti maður á lista Sjálfstfl. á Reykjanesi sem tróndi þar á miðri myndinni.

Það er eiginlega skemmtilesning, herra forseti, eða grátbrosleg lesning sumt í skýrslu Ríkisendurskoðunar um alla vitleysuna sem menn urðu að elta uppi í flugstöðinni til að uppfylla þær kröfur. Til dæmis eru sérstakar engisprettuvarnir í niðurföllum í kringum flugstöðina. Og af hverju er það? Jú, það er vegna þess að bandaríski herinn hefur alþjóðlega staðla og lætur setja upp engisprettuvarnir alls staðar þar sem hann tekur þátt í slíkum mannvirkjum. Það er allur retúr í flugstöðinni einangraður af því það er svo rakt í Flórída að pípurnar mundu gráta ef þær væru ekki allar einangraðar í bak og fyrir. Þetta þurfti að gera.

[12:30]

Salernin þurftu að vera með alveg sérstökum hætti til þess að uppfylla staðla bandaríska hersins. Og alla þessa vitleysu urðu Íslendingar að elta og ég leyfi mér að halda því fram að lítið ef nokkuð var eftir af 20 milljónum dala þegar búið var að elta ólar við þessa vitleysu og Íslendingar urðu að taka á sig restina. Þannig var nefnilega frá málunum gengið. Kaninn var mjög sniðugur. Hann tók engan þátt í öllum þeim mikla viðbótarkostnaði sem menn lentu í í flugstöðinni af ýmsum ástæðum og slapp með sitt fasta framlag sem eingreiðslu, en það voru kostnaðaráætlanir Íslendinga sem fóru tugi ef ekki hundruð prósenta fram úr áætlun. Og það var með hreinum ólíkindum, herra forseti, ýmislegt sem þarna gerðist. Muna menn eftir hlaðna veggnum sem er á milli miðrýmisins á neðri hæðinni og komusalarins? Hann var færður til þrisvar sinnum. Þrisvar sinnum var búið að hlaða hann upp og hann var jafnoft brotinn niður út af ýmiss konar vitleysu sem menn uppgötvuðu alltaf. Þannig var þetta allt saman og féll saman við mikla þenslutíma, enda mikil gullöld og gleðitíð hjá iðnaðarmönnum sem þarna lágu við alls staðar að af landinu á þessum tíma. (Gripið fram í: Falleg bygging.) Byggingin er falleg, það er alveg rétt, en hún er hins vegar ekki mjög praktísk. Til dæmis er ekki mjög þægilegt að byggja við hana, það hefur nú heldur betur komið á daginn. Þetta er ein af örfáum flugstöðvum í heiminum sem er þannig hönnuð að það er eiginlega engin leið að byggja við hana. Þess vegna verða menn að fara út í að byggja í raun og veru nýja flugstöð við endann á núverandi landgangi, í staðinn fyrir að byggja, eins og allar aðrar þjóðir, álmubyggingar sem hægt er að lengja til beggja handa eða gera það á einhvern slíkan hátt. Fyrirkomulagið verður þarna mjög óhagkvæmt. Það sem er í vændum er að við förum að reka tvær flugstöðvar en ekki eina á sama staðnum, tengdar með landgangi. Það er nú staðreynd málsins. Það er ákaflega erfitt að koma þarna við breytingum og ýmislegt fleira er mjög snúið. Byggingin er falleg, já, það er rétt, en það er kannski líka það helsta sem hún hefur til síns ágætis sem flugstöð. Hún er fallegur arkitektúr og allt það, en ákaflega erfið að ýmsu öðru leyti að eiga við hana.

Það kom t.d. á daginn þegar menn ætluðu að reyna að tengja innanlandsflug við hana að það var eiginlega ekki nokkur lífsins leið að koma því við, það var á hrakhólum á neðri hæð hússins. Menn voru að flæmast um með tilraunir sínar til að reyna að koma á aðstöðu fyrir innanlandsflug sem gæti tengst við millilandaflugið í byggingunni, eins og alls staðar er annars staðar þar sem þessum málum er sæmilega fyrir komið. Enginn vafi er á því í mínum huga að það átti sinn þátt í því að þær tilraunir runnu út í sandinn, að svo illa var að þeim búið í byggingunni. Ég á sérstaklega við tilraunir til að byggja upp beint tengiflug frá Akureyri við millilandaflugið sem hefði auðvitað gjörbreytt aðstöðu þess svæðis hvað varðar ferðaþjónustu og ferðir Norðlendinga sjálfra til og frá landinu.

Núverandi fyrirkomulag kostar ómældar fjárhæðir og mikið óhagræði. Það kostar t.d. nánast undantekningarlaust a.m.k. einnar nætur gistingu fyrir alla þá sem fara af norðan- og austanverðu landinu í viðskiptaerindum til útlanda eins og fyrirkomulagið er nú. Menn ná yfirleitt ekki nema í besta falli annarri leiðinni heiman að og heim t.d. í gegnum Akureyrar- eða Egilsstaðaflugvöll nema annaðhvort á útleið eða komuleið lendi menn í því að gista á hóteli í Reykjavík. Það er fínt fyrir hótelin í Reykjavík, en það er bölvað fyrir önnum kafna menn sem hverra tími er dýrmætur og það kostar heilmikla fjármuni að þetta skuli vera svona. Ég fullyrði að ef betri aðstaða væri fyrir hendi til að tengja þetta saman, þá væru miklu raunhæfari líkur á því að beint tengiflug frá t.d. Egilsstöðum og Akureyri við millilandaflugið gæti staðið undir sér eða komið til sögunnar. Fyrir nú utan það sem væri auðvitað enn betra að þessir staðir fengju sjálfstæða tengingu til útlanda í formi áætlunarflugs, a.m.k. yfir sumartímann.

En þessi eign Bandaríkjamanna, herra forseti, eins og ég var að koma inn á, getur vissulega flækt eitthvað málin, þó að vísu sé ekki deilt um það að íslenska ríkið er eigandi að mannvirkinu, að flugstöðinni. Það gildir hins vegar ekki um flughlöðin og ýmsa aðstöðu þar, lagnir ofan í flughlöðum o.fl. Enda mætti alveg skilja þar á milli mín vegna og þær gætu áfram tilheyrt hinu svokallaða varnarsvæði.

Málum er þannig háttað eins og margfrægt er orðið að fyrir dyrum standa viðræður við Bandaríkjamenn um sjálfa framtíð, eða vonandi ekki framtíð þeirra í Keflavík. Og eru þá ekki hæg heimatökin að taka einnig þetta mál upp í þeim viðræðum? Ræða við þá um að annaðhvort verði kvöðinni aflétt, þess vegna að menn bara hreinlega leystu sig einhvern veginn frá henni, eða að þetta verði gert svona ef hún verður endilega að vera til staðar áfram og eitthvað viðkvæmt mál er að hrófla við því út af 20 milljónunum sálugu, þá verði hún látin vera óvirk og stjórnsýslan á forræði samgrh., en hún verði sem sagt svæfð með þeim hætti og eitthvert sérákvæði væri þá bara um það að ef til kæmi og það væri vilji Bandaríkjamanna endilega að málið sé þá á forræði utanrrh. ef þeir koma við sögu, þá gæti það bara komið sem tímabundin ráðstöfun þegar þannig stæði á sem vonandi gerir aldrei.

Herra forseti. Ég vil að lokum undirstrika að mér virðist allt of margt óathugað og losaralegt í þessu máli fyrir utan hina efnislegu andstöðu mína við það að fara út í þetta einkavæðingarbrölt til þess að það sé í raun og veru skynsamlegt að vera að afgreiða þetta hér og nú. Ég segi það burt séð frá efnislegri afstöðu til málsins. Ég held að þetta mál þurfi betri skoðunar við og meiri yfirlegu og það væri langhyggilegast að láta það liggja til haustsins og fara þá í þá vinnu. Þá er líka vel mögulegt að hæstv. utanrrh. verði kominn eitthvað af stað í viðræðum sínum við Bandaríkjamenn og gæti m.a. verið búinn að taka upp þennan þátt málsins og ganga frá honum. Ég held því að langgáfulegast sé að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar um sinn og þar verði málið athugað betur.

Ég held líka að það sé allt of augljóst að það býður upp á hættu á árekstrum og vandræðagangi að ganga frá málinu á þennan hátt í einu hlutafélagi. Það verða læti í kringum það, sjálfsagt kærur til Samkeppnisstofnunar og guð má vita hvað, og þá væri miklu hyggilegra að ganga frá því með fyrirbyggjandi ráðstöfunum nú þegar. Þó ekki væri nema þannig að fríhafnarreksturinn sjálfur og/eða annar verslunarrekstur sem yrði á hendi ríkisins væri í sjálfstæðu dótturfélagi hins nýja hlutafélags, sem væri bókhaldslega og stjórnunarlega aðskilið þannig að það uppfyllti ákvæði samkeppnislaga þar um. Það er að vísu samkvæmt tilteknum heimildum í samkeppnislögum mögulegt að framkvæma slíkan bókhaldslegan og stjórnsýslulegan aðskilnað innan fyrirtækja, það eru vissir möguleikar í slíku, samanber það sem Landssímanum hf. hefur verið gert að gera að því leyti sem hann var og/eða er í samkeppni við aðra, þá var það þannig um skeið a.m.k. að þá áttu um það að gilda ákvæði samkeppnislaga um bókhaldslegan og fjárhagslegan aðskilnað þeirra þátta, einokunarþáttanna og samkeppnisþáttanna. Það er algjört lágmark í þessu máli, herra forseti, að sú leið sé farin. En í rauninni virðist ósköp lítið hafa verið að því hugað enn þá í umfjöllun um málið, það hefur ekki verið leitað fyrirframálits samkeppnisráðs eins og ég áður sagði eða annað í þeim dúr.

Herra forseti. Ég vil fara fram á að þetta verði skoðað og vildi gjarnan heyra viðbrögð hæstv. samgrh. við því.

Mér finnst mikill skaði, herra forseti, ef hæstv. samgrh. kemur alls ekki hér til umræðunnar því ég hefði gjarnan viljað leggja fyrir hann spurningar en get svo sem gert það í seinni ræðu. Ég hefði viljað heyra um almenn viðhorf hæstv. samgrh. í þessum efnum og eiginlega fá það staðfest hvort það er virkilega svo að hæstv. samgrh. sé það uppburðarlítill í þessum efnum að hann ætli bara að láta þetta alveg þegjandi og hljóðalaust yfir sig ganga, að hann komi hvergi við sögu í þessu máli, sem mér finnst með hreinum ólíkindum úr því verið er að breyta þessu á annað borð.

Ég hef lagt nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra, ég held ég þurfi ekkert að rifja þær upp. Hæstv. ráðherra hefur hlýtt á mál mitt og ég þakka fyrir það og læt máli mínu lokið.