Afbrigði

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 13:34:43 (7557)

2000-05-12 13:34:43# 125. lþ. 117.94 fundur 534#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[13:34]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þeirrar afgreiðslu sem á að fara fram, ekki til að fjalla um efnisatriði málsins, þó svo að ljóst sé að verði þetta frv. að lögum muni það líklega hafa þær afleiðingar að laun allra æðstu embættismanna ríkisins munu hækka, heldur út af málsmeðferðinni, herra forseti.

Ég tel að það sé ekki svona sem kjörin löggjafarsamkunda eigi að eiga samskipti við embætti þjóðkjörins þjóðhöfðingja. Það er ekkert við það að athuga að löggjafarsamkundan sé þeirrar skoðunar að það beri að breyta starfsumhverfi forseta Íslands sem hefur staðið óbreytt frá því að til þessa embættis var stofnað, það er ekkert óeðlilegt við það. En sé það niðurstaða þingsins og þingmeirihlutans, sem vel má vera að sé, þá eiga menn að ganga eðlilega til verks. Málið er á forræði hæstv. forsrh. Að sjálfsögðu ber honum skylda til að hafa einhverja forgöngu í málinu eða a.m.k. að leitað sé samráðs við hann. Þegar slíkt mál er flutt ber að gera það á eðlilegum starfstíma Alþingis, gera forseta Íslands grein fyrir því hvaða breyting er fyrirhuguð og afgreiða málið eðlilega. Hér er slíkt ekki gert, herra forseti.

Hér er rokið upp til handa og fóta næstsíðasta áætlaðan starfsdag þingsins og málið flutt án þess að ég viti til að um það hafi verið haft samráð við forsrn. ellegar forsrh. Vilji þess liggur a.m.k. ekki fyrir í málinu. Og síðan á að afgreiða málið með afbrigðum á Alþingi nánast án skoðunar og forseti Íslands les um það í blöðunum.

Herra forseti. Ég geri mjög alvarlegar athugasemdir við málsmeðferðina. Svona á löggjafarstofnun ekki að hegða sér gagnvart embætti þjóðkjörins þjóðhöfðingja. Þetta er lítilsvirðing á þessari stofnun, virðulegi forseti. Ég mun hins vegar ekki standa í vegi fyrir því að þetta mál komist á dagskrá en þetta geri ég alvarlegar athugasemdir við og finnst ekki sæmandi fyrir löggjafarstofnun þjóðarinnar.