Afbrigði

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 13:42:35 (7562)

2000-05-12 13:42:35# 125. lþ. 117.94 fundur 534#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[13:42]

Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að þetta sé afar sérstakur forgangur sem hér á að fara að ákveða ef á að veita afbrigði fyrir því að taka þetta þingmannamál á dagskrá, ekki síst í ljósi þess að mörg mikilvæg þingmannamál sem snerta kjör og aðbúnað fólks í landinu og fjölskyldna hefur verið vísað frá á þeirri forsendu að ekki sé tími til þess að ræða þau. Meira að segja mál sem voru lögð fram á fyrstu dögum þingsins í októbermánuði. Þess vegna er þetta afar sérstakur forgangur.

Herra forseti. Ef þessi afbrigði verða veitt hlýt ég sem nefndarmaður í efh.- og viðskn. að treysta því að þetta mál fái eðlilega þinglega meðferð og umfjöllun í nefnd og fari til þeirra aðila til umsagnar sem nauðsynlegt er. Ég held að full ástæða sé til þess að óttast, jafnvel þó að hæstv. utanrrh. hafi önnur orð um það, að það að breyta skattlagningu á kjörum forseta geti leitt til verulegrar hækkunar á launum forsetans, kannski 500--800 þús. Ég held að ástæða sé til þess að óttast að laun annarra toppa í kerfinu, bæði ráðherra og annarra, geti fylgt á eftir. Það þarf því að gefast tími á þinginu, herra forseti, til þess að kanna verulega hvaða áhrif lagasetningin hefur ef hún gengur fram eins og sumir ætla hér.

(Forseti (HBl): Fuglasöngur er nú fallegur þykir mér, sérstaklega á vorin. En þessi hljóð sem hér berast úr salnum líkjast honum ekki að einu eða neinu leyti og ég áminni þingmenn um að vera ekki með GSM-síma opna inni í þingsal.)