Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 14:53:28 (7579)

2000-05-12 14:53:28# 125. lþ. 117.5 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, Frsm. 1. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[14:53]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að ég þekki marga sem starfa í þessari grein og veit vel að um það eru mjög skiptar skoðanir og heilmiklar og útbreiddar efasemdir víða í ferðaþjónustunni um ágæti þess máls að við gerumst aðilar að Schengen. Ég minni t.d. á umsögn Ferðamálaráðs í því sambandi sem var með býsn af fyrirvörum, merkilegum í ljósi þess að formaður Ferðamálaráðs er hv. þm. Tómas Ingi Olrich og varaformaður hv. þm. Jón Kristjánsson. Það var mesta furða hvað gagnrýnin afstaða endurspeglaðist þó að hluta til í þeirri umsögn.

Ég sé að hv. þm. Jón Kristjánsson hefur beðið um orðið þannig að það kannski skýrist á eftir.

Hvað hitt varðar, þá er þetta ósköp einfaldlega skilningur minn á málinu og ég leyfi mér að fullyrða að ég tala þar ekki bara fyrir mína hönd, að menn skildu þá yfirlýsingu í bréfinu þannig að þar væri verið að tala um að til þess að eyða allri tortryggni og taka af allan vafa kæmi viðbótarkostnaðurinn klárt og kvitt úr ríkissjóði og það er auðvitað ein aðferðin til þess að hægt sé að sýna fram á að menn eru að verja notendurna fyrir því að taka hann smátt og smátt á sínar herðar í framtíðinni.

Ég mun beita mér fyrir því að þetta mál verði ekki látið niður falla hér og nú heldur í gegnum utanrmn. kalla aðila til viðræðu og fara betur yfir þetta mál úr því að svör hæstv. utanrrh. eru á þennan veg.