Mat á umhverfisáhrifum

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 15:09:05 (7586)

2000-05-12 15:09:05# 125. lþ. 117.12 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KPál
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[15:09]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Þá höldum við áfram umræðu sem hófst fyrir nokkrum dögum um frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum en eins og alþjóð veit hefur legið fyrir í nokkuð marga mánuði að endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum sem sett voru árið 1993. Á Ríó-ráðstefnunni sem haldin var í Rio de Janeiro í Brasilíu árið 1992 var mörkuð stefna í alþjóðlegum umhverfisrétti til næstu áratuga. Gerð var sérstök yfirlýsing, Ríó-yfirlýsingin svokallaða sem hefur að geyma 27 meginreglur en 17. reglan fjallar einmitt um mat á umhverfisáhrifum eða þar sem segir að ríkið skuli láta fara fram mat á umhverfisáhrifum þegar um er að ræða fyrirhugaða starfsemi sem er líkleg til að hafa veruleg skaðleg áhrif á umhverfið og háð er úrskurði viðkomandi stjórnvalds.

Það má segja að lögin frá 1993 séu barn síns tíma og mjög mörg atriði sem þar eru orki tvímælis í ljósi reynslunnar og enn önnur vantar inn í vegna þess að miklar breytingar hafa orðið á hugmyndum manna um hvernig umgengni um umhverfið skuli vera og hvernig skipulag skuli vera þegar um umhverfi er að ræða. Um þetta hafa skapast miklar umræður og ekki hvað síst í ljósi framkvæmda sem voru fyrirhugaðar í sambandi við Fljótsdalsvirkjun en hefur verið frestað um sinn. Allir þekkja þá umræðu og er ekki ástæða til að rifja hana upp.

Einnig er ástæða til að minnast á það að í EES-samningnum eru mörg tilmæli sem eru í raun lagabindandi og erum við skuldbundin til að taka þau mörg hver upp í okkar lög sem er ein ástæða þess að við verðum að endurskoða lögin um mat á umhverfisáhrifum fljótt aftur sem og önnur lög sem við setjum á hv. Alþingi sem þurfa sífellt að vera í endurskoðun, ekki síst út af þeim tilmælum sem eru í EES-samningnum.

Við 1. umr. þessa frv. lagði ég sérstaka áherslu á aðkomu almennings að umhverfismálum og hvernig best væri að tryggja hana sem eðlilegasta. Allir eru farnir að átta sig á að samráð er nauðsynlegt alla leið, þ.e. frá því að hugmynd er lögð fram og þangað til framkvæmd hefst, samráð milli framkvæmdaraðila og leyfisveitanda þannig að þegar kemur að endapunkti og framkvæmd getur byrjað hlaðist ekki upp mikil gagnrýni eða miklar deilur heldur sé búið að leysa úr þeim ágreiningi í ferlinu áður en kemur til leyfisveitingar eða útgáfu framkvæmdaleyfis svo að við þurfum ekki að horfa upp á þær deilur sem hafa verið í þjóðfélaginu um meiri háttar framkvæmdir fram að þessu, a.m.k. á síðustu árum.

Ég lagði sérstaka áherslu í 1. umr. á reglugerðina sem mundi fylgja lögunum um umhverfismat. En eins og allir þekkja eru þar túlkaðar leikreglur eftir lögunum --- og oft hefur það gerst að reglugerðin varð öðruvísi en menn gerðu ráð fyrir samkvæmt lögunum og hún hefur orkað tvímælis. Menn hafa verið á gráum svæðum sem er óþarfi, enda eðlilegt að reglugerðir fylgi að meginhluta til með lögunum þó svo það geti ekki verið að öllu leyti en í þessu tilfelli höfum við gætt þess að svo verði eins og kostur er.

Í störfum nefndarinnar eins og kom fram hjá formanni hennar var farið mjög vandlega yfir allt frv. og stýrði sá sem hér stendur töluverðu af þeirri vinnu með ráðuneytinu en ráðuneytið hefur verið mjög samningslipurt og við getum sagt að þar hafi maður gengið undir manns hönd til þess að reyna að gera gott frv. betra.

[15:15]

Það gera allir sér grein fyrir því að svona vinnu er ekkert lokið hjá okkur þingmönnum þó við höfum samþykkt málið sem lög. Við þurfum að standa frammi fyrir umbjóðendum okkar og segja þeim hvers vegna við gerðum þetta svona og hvers vegna við breyttum þessu en ekki öðru eins og margur hefði kannski viljað. En auðvitað sjáum við aldrei allt fyrir.

Ástæðan fyrir því að við fórum svo vel yfir frv. er þessi: Við vitum af áhuganum og þekkjum ábyrgð okkar. Það birtist í þeim brtt. sem fylgja frv., upp á fjórar vélritaðar blaðsíður, sem er óvenju mikið í vinnslu frv. af þessu tagi.

Ef við lítum, herra forseti, á niðurstöðuna af störfum nefndarinnar þá eru markmiðssetningar og skilgreiningar í meginatriðum samþykktar eins og þær komu frá nefndinni og ráðuneytinu. Auðvitað eru gerðar minni háttar orðalagsbreytingar sem ekki er litið á sem breytingar á grundvallaratriðum heldur fremur sem eðlilegar leiðréttingar.

Þegar kom að 5. gr., þar sem fjallað er um heimildir til undanþágu frá mati, var leitað sérstaks álits á þeirri grein ásamt 7. gr. hjá Lagastofnun. Lagastofnun taldi sig ekki geta veitt skriflegt álit á þessum tveimur greinum með tilliti til þess hvort þær stæðust stjórnarskrána. Eigi að síður taldi Lagastofnun sér mögulegt að senda sinn æðsta mentor í stjórnsýslurétti, Sigurð Líndal, til að ræða þetta við nefndina og hugmyndir að orðalagi á 5. og 7. gr. frv. Í ljósi þess og dóms Hæstaréttar út af máli Stjörnugríss hf., þá var þessum greinum breytt í grundvallaratriðum og vald ráðherra skilyrt, annars vegar til þess að undanþiggja ákveðnar framkvæmdir mati og hins vegar til þess að setja ákveðnar framkvæmdir í mat. Vald hans er nú miklu takmarkaðra en áður þannig að að okkar mati eru stjórnarskrárákvæði virt en svigrúm ráðherrans til að grípa inn í í neyðartilfellum til staðar, í miklu og almennu samráði við alla sem hlut eiga að máli.

Í 5. gr. eru ákvæði um að framkvæmdir sem tilgreindar eru í því sem yrði 1. viðauki í þessum lögum skuli ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum. Eins og komið hefur fram eru þrír viðaukar sem fylgja þessu frv. 1. viðauki á við um þær framkvæmdir sem skilyrðislaust fara í mat. Í 6. gr. er talað um þær framkvæmdir sem á að tilkynna til skipulagsstjóra og eiga að fara í mat ef Skipulagsstofnun telur svo eiga að vera. 3. viðauki inniheldur viðmiðanir sem skipulagsstjóri fer eftir þegar hann metur framkvæmdir samkvæmt 2. viðauka. Þetta er að mörgu leyti mjög nákvæmlega fram fært og eðli máls samkvæmt sett þannig fram að Skipulagsstofnun og ráðherra hafi nákvæmar leiðbeiningar um hvernig fara skuli með athugasemdir og hvernig umhverfismat fer fram.

Herra forseti. Ég vil benda á að í 8. gr., um matsáætlun, er sérstaklega talað um aðkomu almennings að matsáætlunum. Þar stendur:

,,Framkvæmdaraðili skal kynna tillögu að matsáætlun umsagnaraðilum og almenningi og hafa samráð við Skipulagsstofnun.``

8. gr. mun því að þessu leyti tryggja að almenningur eða þeir sem málið varðar hafi rétt til að fá kynningu á öllum þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru og falla undir lög þessi. Almennt telja menn að með þessu muni framkvæmdaraðilar vanda sig meira við matsáætlun en annars væri og matsáætlun ekki koma fram fyrr en menn eru tilbúnir að svara fyrir öll þau álitamál sem hugsanlega gætu komið upp. Ég er á því að þannig verði unnið betur að matsáætluninni en ekki gengið út frá því að þær verði leiðréttar þegar matsáætlun er komin fram. Við teljum að þetta sé mjög til bóta og hafi vonandi þau áhrif að umræðan hefjist strax og athugasemdir sem borist hafa í lok matstímabils verði þá þegar ræddar.

Á 11. gr., sem heitir Úrskurður Skipulagsstofnunar, var gerð ein grundvallarbreyting af hálfu nefndarinnar en það var að fella út svokallað ,,frekara mat``. Það er einnig gert vegna tilmæla og ábendinga framkvæmdaraðila sem álíta að erfitt sé að fara í nánast sambærilegt mat tvisvar sinnum í röð með tilheyrandi kostnaði og tíma, og kannski óþarfi þar sem framkvæmdaaðili getur einnig skotið sér á bak við slíkt og beðið eftir athugasemdum án þess að leita eftir þeim fyrir fram. Það eru einmitt þau atriði sem við höfum reynt að skerpa á með þessari yfirferð. Skipulagsstofnun hefur samkvæmt 9. gr. laganna og þessu frv. þær skyldur í dag að leiðbeina framkvæmdaraðilum um hvernig matsskýrslan skuli líta út ef fram á það verður farið. Að því leyti er framkvæmdaraðilinn strax kominn í betra samband við Skipulagsstofnun og á að geta útbúið þá lokaskýrslu sem lögð verður fram þannig að framkvæmd eigi ekki að þurfa að fara í frekara mat. Þess vegna er í raun óþarfi að gefa einhvern ádrátt um að til frekara mats gæti komið.

Þetta er eitt af því sem ég held að hafi skipt miklu máli og hafi mætt mörgum öðrum kröfum varðandi það sem þurfti að leysa samkvæmt ákv. til brb. III, þ.e. um endurskoðun á þessum lögum. Öll sú endurskoðun miðar í raun að því að auka þetta samráð og minnka ágreining.

Þó að í nefndinni sé mikil samstaða um lausn mála almennt þá er ekki, eins og er kannski eðlilegt, alger samstaða um alla hluti en í 11. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Hefjist framkvæmdir ekki innan tíu ára frá úrskurði Skipulagsstofnunar skal stofnunin ákvarða hvort mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar skuli fara fram að nýju samkvæmt lögunum.``

Hér er gert ráð fyrir því að framkvæmd geti beðið í 10 ár. Sumum finnst rétt að stytta þennan tíma í fimm ár eða jafnvel enn skemmri tíma en að mati meiri hluta nefndarinnar er það álitin það mikil og kostnaðarsöm aðgerð að fara í umhverfismat að enginn fari af stað með slíkt öðruvísi en ætla sér í framkvæmdina. Kæmi það síðan upp að viðkomandi þyrfti að draga framkvæmdina eða breyta einhverju þá væru 10 ár ekki langur tími miðað við þann mikla kostnað sem fer í mat á umhverfisáhrifum. Því er ekki talið réttlætanlegt að hafa þennan tíma of stuttan, 10 ár er ekki langur tími þegar litið er á stórar og miklar framkvæmdir. Rannsóknir einar og sér geta jafnvel tekið mörg ár.

Sama var upp á teningnum hvað varðar bráðabirgðaákvæði I þar sem tilgreint er að framkvæmdir, með leyfi útgefnu fyrir 1. maí 1994 sem ekki eru háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum, séu enn undanþegnar umhverfismati og þá til ársloka ársins 2002. Sumum finnst ástæða til þess að stytta þennan tíma niður í 5--6 mánuði og hafa eflaust eitthvað til síns máls miðað við þá umræðu sem hefur verið en að mínu áliti er þetta stuttur tími. Þrátt fyrir að þetta ákvæði hafi gilt í langan tíma þá erum við einungis að tala um næsta og þarnæsta ár sem er réttlætanlegt.

Eins og ég gat um áðan var eitt af því sem ég lagði mikla áherslu á í umræðunni, og framkvæmdaraðilar í orkugeiranum hafa bent á, er að breyta þessu matsferli okkar enn frekar í svokallað samráðsferli og byggja þau á reynslu annarra landa. Þá er fyrst og fremst átt við Norðurlöndin og sum Evrópulönd. Þar hefur náðst samstaða um að matið verði bundnara við leyfishafann og framkvæmdaraðilann og umhverfismatið sjálft verði í rauninni tekið gilt af leyfisveitanda en ekki umhvrh. Raunar eru margar skoðanir á því og ýmsar aðferðir sem hægt er að nota við þetta en niðurstaðan um ákv. til brb. III varð þessi:

,,Ákvæðið orðist svo:

Lög þessi skulu endurskoðuð fyrir 1. janúar 2003. Við endurskoðunina skal sérstaklega kanna hvort ástæða sé til að sameina og samræma mat, sbr. 11.--13. gr., við leyfisveitingar fyrir einstökum framkvæmdum, í hvaða mæli skipulagsáætlanir geti komið í stað mats á umhverfisáhrifum framkvæmdar og hvort færa beri ábyrgð á mati til framkvæmdaraðila í ríkari mæli en gert er í lögum þessum.``

[15:30]

Þetta ákvæði vil ég leggja mikla áherslu á að ný yfirferð liggi fyrir 1. janúar 2003, ég hef ekki orðið var við annað en menn væru sáttir við það.

Viðaukarnir sem fylgja þessu frv. og verða að lögum eru mjög ítarlegir. Það fór mikil vinna í að fara yfir þá og skilja hvað væri verið að meina með mörgum þeirra. Það er einungis fyrir sérfræðinga að skilja sumt af því sem þarna fer fram og tekið er til. En ekki var sparað að reyna að efla skilning manna á þessum viðaukum. Ég held að þegar upp var staðið hafi umhvn. verið orðin ansi vel inni í því hvernig túlka beri hvað vegir eigi að vera langir og hvaða verksmiðjur, hvað þauleldi sé o.s.frv. Menn hafa þannig reynt að fara í gegnum þessa viðauka sem af mörgum eru taldir allt of ítarlegir. En fyrst þeir eru á annað borð í lögunum þá er nauðsynlegt að hafa þá ítarlega. Annars staðar í Evrópu eru viðaukar eins og þessir, þ.e. 2. og 3. viðauki, ekki í lögum heldur víðast hvar hafðir í reglugerðum. En þeir eru hér í lögunum og þess vegna er nauðsynlegt að þeir séu mjög ítarlegir en þeim hefur verið breytt verulega. Ef við tökum dæmi úr 2. viðauka um tilkynningarskyldu þá var þar breytt ákvæði varðandi skógrækt að ef nýrækt skóga á 40 hektara svæði eða stærri væri fyrirhuguð, ætti að tilkynna hana. Þetta ákvæði olli verulegum óróleika meðal skógræktarbænda. Þeim fannst að með þessu ákvæði væri verið að skylda þá til þess að fara út í mikinn kostnað við minni háttar skógræktarframkvæmdir sem gætu leitt til þess að skógræktaráform skógarbænda um allt land mundu líða undir lok þar sem arðsemi skógræktar er hæg. Skógrækt er kostnaðarsöm en þeir töldu að það kostaði allt upp í 3 millj. kr. að fara í umhverfismat á einni jörð. Nefndin ákvað því að hækka þessi mörk upp í 200 hektara eins og Skógræktarfélag Íslands gerði að tillögu sinni. Skógarbændur höfðu farið fram á miklu rýmri heimildir sem ekki var hægt að verða við að svo stöddu.

Margar aðrar breytingar varðandi viðaukana voru gerðar sem ekki er ástæða til að telja upp hér. Eigi að síður kemur fram í þessum brtt. okkar að þar hefur margt þurft að skýra. Það má taka dæmi um skemmtigarða. Þar kom upp sú spurning hvað væri skemmtigarður. Það reyndist í sjálfu sér ekki hlaupið að því að finna út hvað það þýddi. Að endingu komust menn að því að skemmtigarður yrði að ná yfir ákveðið svæði. Í framhaldi af því komumst við að þeirri niðurstöðu að hann þyrfti að ná yfir a.m.k. tveggja hektara svæði. Við getum því séð að menn fóru ofan í mikil smáatriði. Við þurftum við ekki að ákveða hvað skemmtigarður þyrfti að ná yfir stórt svæði. En við gátum séð fyrir okkur að hreyfanlegt tívolí á lóð einhverrar stórverslunar gæti allt í einu orðið skemmtigarður vegna þess að ekki var skilgreint í lögunum hvað þetta þyrfti að vera stórt. Það gat t.d. verið undir einum hektara o.s.frv. þannig að margt í því sem nefndin hefur verið að skoða er þess eðlis að ekki var hægt að ætlast til þess að nefndarmenn hefðu neina persónulega reynslu af hlutunum heldur var leitað víða fanga til að skilja hlutina og ég held að þar hafi tekist vel til.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa lengra mál um þetta. Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju minni með gott samstarf í nefndinni og hvað nefndarmenn lögðu mikið á sig. Þarna var unnið dag eftir dag við að reyna að koma þessu máli fram. Frv. kom seint fram, ekki fyrr en í febrúar, ef ég man rétt. Við vitum af mörgum og viðamiklum framkvæmdum sem munu þurfa að lúta þeim lögum sem sett verða í framhaldi af þessu frv. og ég vona svo sannarlega að öll sú vinna komi til með að skila sér, bæði til þeirra sem unna náttúrunni og þeirra sem hafa hug á framkvæmdum í framtíðinni.