Mat á umhverfisáhrifum

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 15:39:09 (7588)

2000-05-12 15:39:09# 125. lþ. 117.12 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir spyr í fyrsta lagi um landshlutabundin skógræktarverkefni. Eins og hv. þm. segir þá er að sjálfsögðu ágreiningur um hvað þetta eigi að vera mikil takmörkun. Ég lít svo á að með þessum lögum falli úr gildi bráðabirgðaákvæði um að landbrh. fari með umhverfismál landshlutabundinna skógræktarverkefna.

Þessi verkefni eru yfirleitt mjög stór. Við erum að tala um að 5% af öllu láglendi eigi jafnvel að leggja undir skógrækt þannig að þessi skógræktarverkefni eru mjög umfangsmikil. En 200 hektarar eru ekki stórt landsvæði þannig að ég lít svo á að öll þau skógræktarverkefni sem við erum að tala um, alvöruskógræktarverkefni, nái yfir miklu stærra svæði og hljóti því að fara í umhverfismat. Ef svo fer ekki lít ég á þann tíma sem við höfum til að endurskoða þessi lög. Eftir tvö og hálft ár verða komin ný lög þar sem skoðaðar verða þessar matsáætlanir. Þá má skoða þetta sérstaka tilvik eitt út af fyrir sig.

Ég vil samt segja til viðbótar að í nýjum lögum mun væntanlega koma fram úr tilskipunum Evrópusambandsins að allar áætlanir að fari í mat, þ.e. vegáætlanir, hafnaáætlanir o.s.frv. þannig að framtíðin mun leiða í ljós að lög munu taka yfir allar slíkar áætlanir og þá einnig áætlanir um landshlutabundin skógræktarverkefni sem ég lít svo á að séu það umfangsmikil að þau fari sjálfkrafa í mat ef skipulagsstjóri --- ég vil taka það fram --- ef skipulagsstjóri ákveður það af því að þetta eru tilkynningarskyld verkefni.

Ég veit ekki til þess að erlendis sé þetta skylduverkefni. Ég held að ég fari rétt með að þetta sé í 2. viðauka í Evrópu og þar með einungis tilkynningarskylt en ekki matsskylt.