Mat á umhverfisáhrifum

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 16:49:31 (7605)

2000-05-12 16:49:31# 125. lþ. 117.12 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[16:49]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom ágætlega fram í fyrirspurnatímanum um Þjórsárverin að það er tvennt sem hefur verið til skoðunar, og við vitum það, sem getur haft einhver áhrif á umhverfi friðlandsins við Þjórsárver, ekki friðlandið sjálft heldur umhverfi þess. Það er annars vegar Kvíslaveita 6, eins og hv. þm. segir réttilega, og hins vegar Norðlingaöldulón sem tengist því. Ef þessar tvær framkvæmdir yrðu að veruleika er ljóst að þær munu þurrka upp ákveðin svæði austast í Þjórsárverum fyrir utan friðlandið sem gæti leitt til uppfoks og þar af leiðandi skemmda á verunum.

Ég lít svo á að sú nefnd sem er skipuð og síðan Náttúruvernd ríkisins, sem fer með umsögn, eigi að vera fullbærir aðilar til að meta hvort þarna yrðu einhverjar skemmdir. Það sem ég heyri svo aftur á móti frá þessum aðilum er að þeir eru mjög hræddir við þessar framkvæmdir. Og ef Náttúruvernd ríkisins er hrædd við þær framkvæmdir þá verður ekkert úr þeim.

Hvers vegna við viljum halda inni bráðabirgðaákvæði I er einfaldlega vegna þess að búið er að greiða atkvæði um það í raun. Það voru greidd atkvæði um framkvæmd virkjunar við Jökulsá í Fljótsdal og Alþingi samþykkti það með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða að halda áfram þeirri framkvæmd. Þá framkvæmd er ekki búið að taka út af dagskrá enn þá þannig að við sjáum alveg að ákveðnar framkvæmdir eru í gangi sem njóta þessa ákvæðis og þess vegna er það áfram inni.