Þingmannamál til umræðu

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 17:01:18 (7612)

2000-05-12 17:01:18# 125. lþ. 117.93 fundur 533#B þingmannamál til umræðu# (um fundarstjórn), KHG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[17:01]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta það sem fram kom í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um að málið hefði verið afgreitt út úr menntmn. í ágreiningi. Það er ekki rétt. Málið var afgreitt út úr menntmn. og allir viðstaddir nefndarmenn samþykktu að málið yrði afgreitt út. Hitt er annað mál að menn voru ekki sammála um afstöðu til málsins. En það er ekki rétt að halda því fram að ágreiningur hafi verið um að taka málið út. Þvert á móti, það var það ekki og formaður nefndarinnar, hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, stýrði fundum hennar og meðferð málsins í nefndinni á þann veg að ég sé ekki að það sé sanngjarnt að bera fram gagnrýni á formanninn fyrir þau störf.

Að öðru leyti vil ég svo geta þess varðandi þau mál sem heyra undir hæstv. iðnrh. að hún er burtu um stund en kemur síðar í dag. Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir óskaði eftir því, þegar til stóð að taka á dagskrá frv. um tannsmiði, að hæstv. ráðherra kæmi um miðja nótt og hún varð við því. Auðvitað er eðlilegt að ráðherrann haldi sig við það að verða viðstödd umræðuna fyrst þingmaðurinn hafði óskað eftir því.