Þingmannamál til umræðu

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 17:04:40 (7615)

2000-05-12 17:04:40# 125. lþ. 117.93 fundur 533#B þingmannamál til umræðu# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[17:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér finnst það vera þannig að þær aðstæður blasi við í þinghaldinu að það er nokkurt annríki. Ef það á að takast að ljúka þingi, sem væri auðvitað mjög æskilegt að væri unnt sem allra næst þeim mörkum sem menn höfðu sett sér, því að við vitum að menn hafa gert ýmsar áætlanir, og ég hygg að margir eigi t.d. erfitt að breyta frá þeim plönum sem þeir höfðu gert gagnvart næstu viku, þá verða menn náttúrlega einhvers staðar að ná landi í þeim efnum.

Eitt er ljóst og það er að venjan er sú að raða upp málum með þeim hætti að stjórnarfrumvörp og forgangsmál ríkisstjórnar ganga fyrir öðrum málum. Þetta verðum við þingmenn að sætta okkur við, a.m.k. í tilvikinu stjórnarandstöðuþingmenn. Það eru þau svör sem við fáum þegar við kvörtum undan því að mál okkar fái lítt afgreiðslu, bíði vikum saman t.d. eftir því að komast til umræðu svo ekki sé talað um fái sárasjaldan afgreiðslu frá nefnd, að þau mæti afgangi og það séu forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar sem gangi fram. Þetta mál er ekki af þeim toga.

Hér er í annað skipti á þessum vetri að valda deilum í þinghaldinu mjög umdeild tillaga eða frv., flutt af stjórnarþingmönnum, þar sem 1. flm. eru stjórnarþingmenn. Það er frekar óhefðbundið, herra forseti, að forsetar valdi deilum um þinghaldið til að þröngva áfram tillögum frá stjórnarþingmönnum þegar komið er að þinglokum. Það er frekar óhefðbundið.

Það eina sem ég hlýt að segja um þetta mál að öðru leyti, herra forseti, er að það liggur fyrir að um það verða miklar umræður. Þá er auðvitað spurning: Er þá forgangsröðun manna í þinghaldinu á síðustu sólarhringum sú að láta þetta mál taka margra klukkutíma umræður á þessum tíma? Mér finnst það ekki mjög skynsamleg eða eðlileg uppröðun mála, herra forseti, hefði talið eðlilegast að taka málin í mikilvægisröð, séð frá þeim sjónarhóli sem ríkisstjórnin leggur áherslu á hlutina, að mikilvægustu frv. hennar, sem hér þurfa að fá afgreiðslu fyrir þinglokin, væru tekin fyrir og í þeirri röð og annað látið mæta afgangi. Þá á þetta frv. að sjálfsögðu að vera þar en það hlýtur augljóslega að vera frekar aftarlega á listanum.

En að öðru leyti er ég auðvitað hlynntur því, ef því verður við komið, að það fái umræður og afgreiðslu eins og önnur mál. En það kostar þá það sem það kostar í tíma.

(Forseti (GuðjG): Það getur varla talist óhefðbundið að taka á dagskrá mál sem hefur löngu verið afgreitt úr nefnd.)