Þingmannamál til umræðu

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 17:07:18 (7616)

2000-05-12 17:07:18# 125. lþ. 117.93 fundur 533#B þingmannamál til umræðu# (um fundarstjórn), KolH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[17:07]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég verð að taka undir orð þeirra þingmanna sem hér hafa talað sem gagnrýna að þetta mál skuli komið á dagskrá á elleftu stundu. Ég verð að fá að leiðrétta ummæli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, sem á sæti með mér í hv. menntmn., því að ég mótmælti því harðlega í nefndinni að málið væri tekið út og taldi mér stórlega misboðið.

Herra forseti. Mér er misboðið með afgreiðslu á Alþingi og því hvernig þetta mál er sett á dagskrá fram fyrir, ekki bara að það sé rifið út úr nefnd, fram fyrir önnur mjög mikilvæg þingmannamál sem liggja í menntmn. Ég nefni bara textun á innlendu sjónvarpsefni fyrir heyrnarskerta, mál sem hefur legið í nefndinni lengur en þetta mál. Ég get líka nefnt þáltill. um úttekt á stöðu safna á landsbyggðinni sem var líka reynt að ná út úr nefndinni en tókst ekki.

Herra forseti. Ég lýsi því hér yfir að mér er misboðið með þessari forgangsröðun og mér þykir nokkuð mikils virði að fá að heyra það frá reyndum þingmönnum á borð við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að þetta heyri til undantekninga og þeim sé nánast ókunnugt um að svona gerist á síðustu klukkustundum þinghalds, að mál af þessu tagi sem vitað er að verði miklar umræður um og standi um hatrammar deilur skuli tekið á dagskrá með þessu móti.

Herra forseti. Mér er stórlega misboðið.