Þingmannamál til umræðu

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 17:09:40 (7618)

2000-05-12 17:09:40# 125. lþ. 117.93 fundur 533#B þingmannamál til umræðu# (um fundarstjórn), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[17:09]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér finnst ekki rétt að málum staðið hvað varðar forgangsröðun mála sem eiga að fá afgreiðslu. Ég tel að það mál sem menn vilja fara að ræða ætti að koma á eftir ýmsum málum sem ég tel a.m.k. miklu mikilvægari. Hins vegar hefur þetta mál verið lagt fram fyrir eðlilegan tíma og ætti eins og önnur mál, ef önnur mál fengjust afgreidd hér, að fá að koma til afgreiðslu. Fjöldinn allur af málum hefur ekki einu sinni náð að koma til umræðu og mér finnst alveg með ólíkindum hvernig staðið er að því að velja á milli mála sem eigi að fá umfjöllun.

Hér komu menn í gær, eftir að þingi átti að vera lokið, með mál sem á að taka hér og renna með einhverjum forgangshraða í gegnum Alþingi. Mér finnst svipurinn á því hvernig menn stjórna þessu þinghaldi með ólíkindum. Það á ekki einu sinni að gefa sér tíma til að skoða það mál með ábyrgð og athuga hvaða áhrif það hefur í þjóðfélaginu heldur er það meiningin samkvæmt því sem nú liggur fyrir að mál sem komi til 1. umr. í fyrramálið eigi að afgreiða á morgun og nefnd eigi að skila málinu af sér samdægurs sem málið er afgreitt.

Ég er ekki að segja að slíkt hafi ekki komið fyrir áður. En ástæðan fyrir því getur ekki verið merkileg. Það er varla að koma í ljós núna að það eigi að fara að kjósa til forseta Íslands í vor. Mönnum hefur varla komið mjög á óvart að það stæði til. Það verður að gera þá kröfu til hv. alþingismanna að þeir geti brugðist við með tillögum sínum og málafylgju þegar það liggur fyrir, vitað fyrir langalöngu, að það er kosið til forsetaembættis Íslands til fjögurra ára í einu. Og að forseti Alþingis, sem stjórnar því hvaða mál koma á dagskrá, skuli hlaupa til og taka slíka tillögu inn á dagskrá Alþingis þegar yfir 90 mál liggja fyrir sem ekki hafa fengist rædd í þinginu er einkennileg forgangsröðun á því hvernig eigi að taka mál fyrir.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að menn ættu að fara yfir það og skoða hvort stjórn á þingi sé eðlileg, að gefa undir fótinn með að það eigi að renna málum í gegn með þeim hraða sem þetta mál á að fá í gegnum þingið og það sé óhætt að koma bara með mál og leggja þau fram eftir að búið ætti að vera að slíta þingi samkvæmt starfsáætlun. Ég held að þeir sem eru svo seinir til ættu að fá þau svör hjá hæstv. forseta að þeir skuli koma með mál sín á næsta þingi.