Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 17:41:56 (7631)

2000-05-12 17:41:56# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Frsm. minni hluta KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[17:41]

Frsm. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvær athugasemdir sem mig langar að gera við ræðu hv. þm. Önnur lýtur að upphafi orða hans vegna afgreiðslu málsins úr menntmn. þá lýsi ég því yfir hérna, herra forseti, að hv. þm. fer með rangt mál. Ég mótmælti afgreiðslu málsins á þeim fundi sem gestir komu til að fjalla um málið við okkur og sá fundur var haldinn klukkan 17.30 þann 3. maí og honum var slitið klukkan 19 sama dag, og það var á þeim fundi sem ég mótmælti afgreiðslu nefndarinnar og sagði mér misboðið. Það er því rangt sem þingmaðurinn heldur hér fram að ekki hafi komið fram mótmæli við afgreiðslu málsins úr nefndinni.

Hin athugaemdin var sú sama og önnur af athugasemdum hv. þm. Katrínar Fjeldsted. Það væri kannski ágætt að fá hv. þm. til að koma með þær tölulegu staðreyndir sem vantar í þær athuganir sem hann telur til í ræðu sinni, en allar athuganirnar sem hv. þm. nefnir eru ófullnægjandi vegna þess að þar virðist ekki getið um fjölda iðkenda eða tímafaktorinn í rannsóknunum. Ég spyr því hv. þm. hvort hann hafi þessar upplýsingar til að gefa þingheimi fyllri mynd af því sem hann heldur fram um skaðleysi eða litla áhættuþætti við iðkun íþróttarinnar?