Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 17:43:28 (7632)

2000-05-12 17:43:28# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[17:43]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ekki skattyrðast við hv. þm. um afgreiðslu málsins úr nefndinni að öðru leyti en því að ég stend við það sem ég sagði um það mál. Og út af því að hv. þm. nefndi tímasetningar, þá hófst fundurinn klukkan 18.30 og lauk klukkan 19.

Ég veit ekki alveg hvað maður á að segja við fólk sem er að vefengja tölulegar staðreyndir og draga í efa gildi vísindalegra rannsókna ef þær segja eitthvað annað en þeim líkar. Ég segi á móti að ef hv. þm. telja sig hafa gögn og burði til þess að draga í efa skýrslur sem fagmenn hafa unnið, eiga þeir að gera það á einhverjum öðrum vettvangi en Alþingi. Þetta er ekki staður þar sem menn deila um fagleg efni, enda erum við ekki í stakk búin til þess að leggja faglegt mat á það. Við tökum niðurstöður þeirra fagmanna sem birtar hafa verið og getum að sjálfsögðu ekki dregið þær í efa. Mér finnst það mikil kokhreysti hjá hv. þm. að treysta sér að draga í efa þær staðreyndir sem ég rakti.

Af því að hv. þm. var að tala um að eitthvað vantaði inn í þær tölur um áverka og tengja þær við fjölda iðkenda, þá vil ég fyrst segja og ítreka að tölurnar sem ég nefndi segja mjög sláandi sögu. Þær segja t.d. að á tíu ára tímabili voru 3.400 tilvik þar sem heilaáverkar urðu vegna reiðmennsku, það hlýtur að segja sína sögu, það er ekki hægt að draga í efa gildi þessara upplýsinga, en aðeins 70 í ólympískum hnefaleikum.

Að lokum. Frá Bandaríkjunum komu upplýsingar um rannsóknir sem leiða í ljós að aðeins einn af hverjum 60 þús. áhugahnefaleikamönnum fékk alvarlegan heilaáverka.