Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 17:48:49 (7635)

2000-05-12 17:48:49# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Frsm. minni hluta KolH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[17:48]

Frsm. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég get hafið yfirferð mína á þeim rökum sem ég tel nægja sem gagnrök við ræðu hv. frsm. í málinu og lýsi nú strax yfir áhyggjum yfir því að hv. frsm. málsins skuli vera horfinn úr þingsal. Ég trúi því ekki, herra forseti, að óreyndu að hann ætli ekki að hlusta á mál mitt og láta sannfærast af ágæti þeirra raka sem ég hef fram að færa.

Herra forseti. Að lokinni umfjöllun hv. menntmn. hefur minni hlutinn komist að þeirri niðurstöðu að skilyrðislaust eigi að halda fast við núgildandi bann við hnefaleikum. Þær ástæður sem minni hlutinn telur vega þyngst eru vísbendingar um alvarlegt heilsutjón sem hlýst af iðkun hnefaleika, jafnt áhugamanna sem atvinnumanna, og vísbendingar um að skaðinn af iðkun þessara tveggja tegunda hnefaleika sé fyllilega sambærilegur ef ekki bara alveg sá sami. Að sögn sérfræðinga sem komu á fund heilbrn. eru sterkar vísbendingar um að svo sé og eru nefndar rannsóknir og athuganir ýmsar því til staðfestingar. Er þar um að ræða alvarlega höfuðáverka, skaða á æðum sem geta rifnað, skaða vegna rifinna festinga, skaða sem hlýst af blæðingum, jafnt fyrir innan heila og utan, heilaskaða af völdum uppsafnaðra áhrifa höfuðhögga, taugaskaða, hreyfiskaða, augnskaða og vitrænan skaða. Þá eru einnig vísbendingar um tengsl hnefaleikaiðkunar og Alzheimer-sjúkdómsins. Augnskaðarannsóknir hafa einnig gefið tilefni til að ætla að höfuðhlífar í hnefaleikum áhugamanna veiti falskt öryggi og augnskaðar sem hljótast í áhugamannahnefaleikum séu þeir sömu og í atvinnumannahnefaleikum þrátt fyrir notkun hlífa. En vegna skorts á langtímarannsóknum á meiðslum sem hljótast í hnefaleikum leikur á því vafi að um sömu áverka eða sömu áhrif sé að ræða og ég spyr hv. þingheim: Hver á að njóta vafans?

Það vegur líka þungt í afstöðu minni hluta nefndarinnar gegn lögleiðingu hnefaleika að hér er um árásaríþrótt að ræða. Markmið íþróttarinnar er það eitt að meiða andstæðinginn og því ofar sem höggin falla á líkamann því hærri stig gefa þau. Rothögg, herra forseti, gefa líka stig í áhugamannahnefaleikum. Þannig má segja að meiðsl sem hljótast af iðkun hnefaleika séu ásetningur en ekki slys. Og það er einmitt þar, herra forseti, sem skilur á milli meiðsla sem hljótast af hnefaleikaiðkun og meiðsla sem hljótast af iðkun annarra íþrótta. Það er ekki ásetningur nokkurs manns, herra forseti, sem stígur á bak hesti sínum að detta af baki. En það er ásetningur þess manns sem stígur inn í hnefaleikahring að meiða andstæðing sinn. Þegar leitað er á netinu að upplýsingum um skaðsemi áhugamannahnefaleika finnst nokkur fjöldi greina. Af tíu greinum sem Grétar Guðmundsson læknir, sem kom á fund heilbrn. við meðferð málsins, fann á netinu var komist að þeirri niðurstöðu að um skaðlega íþrótt væri að ræða í sex en í fjórum var hinu gagnstæða haldið fram. Og af þessum fjórum þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væri um skaðlegri íþrótt að ræða en gengur og gerist um íþróttir voru tvær eftir sama höfund.

Herra forseti. Varðandi þau rök að í áhugamannahnefaleikum gildi reglur sem draga úr skaðsemi íþróttarinnar telur minni hlutinn frv. sem hér er til umræðu alls ekki leggja neitt til málanna sem tryggt geti að reglur íþróttarinnar séu haldnar við iðkun og æfingar. Að því leyti til teljum við þetta frv. ófullnægjandi. Það er vitað að tæki til iðkunar hnefaleika eru notuð á Íslandi nú og nokkur hópur manna stundar greinina þrátt fyrir gildandi bann. Þess er skemmst að minnast að í nýútkomnu skólablaði Menntaskólans í Reykjavík, sem ég hef hér, herra forseti, er viðtal við tvo unga menn sem stunda hnefaleika í leynum. Í grein blaðsins kemur glögglega í ljós að æfingarnar eru iðkaðar meira af kappi en forsjá og eftirlitið með því að reglum sé framfylgt virðist ekki vera neitt. Ég vitna frekar til þessarar greinar síðar í ræðu minni, herra forseti.

Minni hlutinn telur að verði slakað á í þessu sambandi og áhugamannahnefaleikar lögleiddir megi gera ráð fyrir að brautin fyrir atvinnumannahnefaleika sé þar með rudd og krafist verði lögleiðingar á þeim innan fárra ára. Það væri að mati minni hlutans stórslys.

Minni hlutinn lýsir sig að öðru leyti fullkomlega sammála áliti meiri hluta heilbrn. Alþingis sem sent hefur verið menntmn. og fylgir nefndaráliti meiri hlutans og vekur athygli á að einungis einn af níu nefndarmönnum heilbrn. telur að lögleiða eigi áhugamannahnefaleika.

Undir þetta minnihlutaálit menntmn. skrifa auk mín hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson.

Vegna þess að hv. frsm. meiri hlutans gerði lítið úr áliti eða umsögn heilbr.- og trn., nefndi hana einungis lauslega í einni setningu í ræðu sinni, ætla ég að gera frekari grein fyrir henni, herra forseti. Það vildi svo til að í forföllum hv. þm. Þuríðar Backman sat ég tvo af fundum hv. heilbr.- og trn. við afgreiðslu frv. og það voru, ef ég man rétt, tveir af þremur fundum sem nefndin fjallaði um málið. Ég varð þess því aðnjótandi að heyra til þeirra gesta sem heilbr.- og trn. kallaði fyrir við skoðun málsins.

Til að fólk sé með það alveg á hreinu hvaða gestir komu fyrir nefndina, les ég þá hér upp, herra forseti. Þeir voru Líney Rut Halldórsdóttir frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Grétar Guðmundsson frá Félagi heila- og taugalækna, Þuríður J. Jónsdóttir taugasálfræðingur, Sigurbjörn Sveinsson frá Læknafélagi Íslands, Haraldur Sigurðsson frá Félagi íslenskra augnlækna, Ómar Ragnarsson áhugamaður um hnefaleika, Torfi Pálsson frá Glímusambandi Íslands og Ólafur Haraldsson Wallevik frá Karatesambandi Íslands. Þá horfði nefndin á myndband með nýlegri upptöku af svokölluðum friðarleikum í áhugamannahnefaleikum og var ég á þeim fundi þar sem horft var á það myndband, herra forseti.

Eins og komið hefur fram mælir aðeins einn af níu nefndarmönnum í heilbr.- og trn. með því að frv. verði samþykkt og er sá nefndarmaður sömuleiðis einn af flm. frv., þ.e. hv. þm. Ásta Möller.

Herra forseti. Meiri hluti heilbr.- og trn. telur til að mynda að heitið sem flutningsmenn velja á frv., þ.e. frv. til laga um að lögleiða ólympíska hnefaleika, sé villandi því þó þetta sé einhver ólympíuíþrótt, þá er þetta stundað af áhugamönnum og í öllum öðrum tungumálum er bara talað um áhugamannabox og atvinnumannabox. Nefndin leggur áherslu á að hlutirnir séu kallaðir sínum réttu nöfnum og vill þess vegna að þessir ólympísku hnefaleikar séu kallaðir áhugamannahnefaleikar. Það hef ég gert, herra forseti, í umfjöllun minni um málið og ég tek þessari röksemd heilbr.- og trn. sannarlega fagnandi.

Svo fullyrðir heilbr.- og trn. eftir sína umfjöllun um málið að slysatíðni í hnefaleikum sé há miðað við aðrar íþróttir enda sé markmið íþróttarinnar að koma höggi á andstæðinginn, en segir jafnframt að það greini á milli hnefaleika og þorra annarra íþróttagreina því hnefaleikar, bæði í atvinnuskyni og sem áhugamannaíþrótt, séu árásaríþrótt en ekki sjálfsvarnaríþrótt eins og t.d. karate og júdó, og telur þarna vera um grundvallarmun að ræða, herra forseti. Austurlenskar sjálfsvarnaríþróttir sem eiga sér árþúsundasögu, herra forseti, lúta allt öðrum lögmálum en vestrænir hnefaleikar. Ég vil að gerður sé stór og mikill greinarmunur á þessum tveimur tegundum íþrótta. Ég minni bara á að siðareglur og agareglur í karate eru slíkt grundvallaratriði að þar fær enginn nemandi að taka þátt eða berjast í hring eða á teppi í sínum karateæfingum fyrr en búið er að tryggja það að viðkomandi þekki siðareglurnar. Siðareglur og agareglur í karate eru grundvöllur undir þá sjálfsvarnaríþrótt sem á sér aldalanga hefð. Það er því ósanngjarnt og með öllu óréttmætt að líkja saman þessum tveimur tegundum íþróttagreina. Austurlenskar sjálfsvarnaríþróttir hafa að sjálfsögðu sérstöðu. Hins vegar vil ég taka undir það að það sem búið er að gera úr gömlum kínverskum eða austurlenskum sjálfsvarnaríþróttum á Vesturlöndum í seinni tíð er ekki lengur hefðbundnar sjálfsvarnaríþróttir. Nefni ég þar til kickboxing og Tae Kwon Do sem eru hvort tveggja íþróttir sem þróaðar eru úr austurlenskum sjálfsvarnaríþróttum og búið til úr þeim, að ég vil segja, herra forseti, einhvers konar skrípi af fyrirmyndinni. Ég fullyrði líka hér að kickboxing á ekki nokkurn skapaðan hlut skylt við austurlenskar sjálfsvarnar\-íþróttir. Ég get alveg tekið undir það, herra forseti, að íþrótt á borð við kickboxing --- og mér skilst Tae Kwon Do líka --- þetta eru íþróttir sem byggjast upp á árásum og byggjast upp á því að menn meiði hver annan og að spörk hitti líkama andstæðingsins. Mér finnst ámælisvert að íþrótt af þessu tagi skuli leyfð því ég sé ekki annað en að íþrótt af þessu tagi eigi að heyra undir sömu lög og nú gilda um bann við hnefaleikum.

[18:00]

Þarna finnst mér ákveðinn tvískinnungur sem ég er hlynnt að verði eytt úr íslenskri löggjöf. Ef við hv. þm. á Alþingi, herra forseti, erum hlynnt því að bannið um hnefaleika gildi áfram þá eigum við að setja bann á kickboxing líka, því að á kickboxing og hnefaleikum er að mínu mati enginn munur.

Herra forseti. Aftur að áliti hv. heilbr.- og trn. sem getur þess í áliti sínu að komið hafi fram í máli sérfræðinga sem nefndin ræddi við að alvarlegustu áverkarnir sem hljótist af þessari íþrótt séu á miðtaugakerfið. Allir vita, herra forseti, að áverkar á miðtaugakerfi eru með alvarlegustu áverkum sem líkaminn getur orðið fyrir. Við vitum, herra forseti, að áverkar á miðtaugakerfi og uppsafnaður heilaskaði eru dýrir sjúkdómar að meðhöndla fyrir samfélagið. Það er svo sannarlega engum óskandi að komast í þá aðstöðu að þurfa að eiga við sjúkdóma sem komnir eru til af uppsöfnuðum heilaskaða eins og t.d. þeir knattspyrnumenn sem hafa tekið marga skallabolta um ævina.

Herra forseti. Við höfum um það ótal vísbendingar að skallabolti í knattspyrnu hafi nákvæmlega sömu áhrif á höfuðið og heilann og þung högg í hnefaleikum. Fyrir nokkrum dögum kom í Morgunblaðinu, herra forseti, grein um þetta mál þar sem samtök skoskra atvinnuknattspyrnumanna gera leikmönnum sínum það núorðið að skrá öll höfuðmeiðsl. Til hvers er það gert, herra forseti? Til þess að kanna þær glöggu vísbendingar sem til staðar eru um að höfuðmeiðsl í knattspyrnu hafi alvarleg áhrif.

Herra forseti. Mig langar til að vitna í þessa grein sem Morgunblaðið birti þar sem kemur fram að fyrrv. knattspyrnumenn segi það fullum fetum að þeir hafi orðið fyrir varanlegum skaða af því að skalla fótbolta. Vitnað er til knattspyrnumannanna Billy McPhail og Jock Weir, en þeir voru á hátindi feril síns á 5. og 6. áratugnum, og kemur fram í greininni að McPhail er nú alzheimersjúklingur og Weir er haldinn elliglöpum að því er breska ríkisútvarpið BBC hefur greint frá. Svo ég vitni orðrétt í greinina, herra forseti, en þar segir, með yðar leyfi:

,,Verkfræðingar við Glasgow-háskóla hafa greint frá því, að hámarkskraftur sem höfuð knattspyrnumanns þyrfti að taka við þegar hann skallaði eldri gerð fótbolta gæti numið allt að hálfu tonni. Samsvarandi tala þegar um nýja gerð bolta er að ræða er um það bil helmingi lægri.`` --- En þó 250 kg, herra forseti.

Það er staðfest hjá vísindamönnum að vísbendingarnar séu það sterkar en niðurstöður þeirra rannsókna og athugana sem hafa verið gerðar hingað til séu það veikar að það þurfi að rannsaka þessi mál betur. Ég spyr enn: Hver á að njóta vafans?

Það er alkunna, herra forseti, að samkvæmt kenningum sérfræðinga þá er breyting á meðvitundarástandi vegna höfuðhöggs, þ.e. að vankast eða rotast, talin vísbending um heilaskaða. Þetta kemur líka fram í áliti hv. heilbr.- og trn. Menn vankast og rotast við högg í hnefaleikum, jafnt í áhugamannahnefaleikum sem atvinnumannahnefaleikum. Þó að höfuðhlífarnar séu sagðar verja höfuðið, sem þær gera, þá verja þær ekki heilann. Það er alkunna að hreyfingin sem kemur á heilann er þess eðlis að hlífar utan á höfðinu breyta engu um þá hreyfingu. Vil ég þá vitna aftur til álits meiri hluta hv. heilbr.- og trn., en þar segir, með leyfi forseta:

,,Hnefi getur farið á um 160 km hraða á klukkustund í höfuðið á andstæðingi. Breytir þar engu hvort um áhugamanna- eða atvinnumannahnefaleika er að ræða. Það er þannig álit sérfræðinga að höfuðhlífar þær sem notaðar eru í áhugamannahnefaleikum verndi aðeins eyru og ytra borð höfuðs en veiti takmarkaða vörn fyrir heilann. Innri líffæri eru varin af beinum, húð, fitu og vöðvum en heilinn er aðeins varinn af höfuðkúpunni og tengist henni að innanverðu með háræðum og fínum taugum. Þegar boxari fær högg á höfuðið snýst það mjög snögglega og fer síðan í venjulega stöðu á mun hægari hraða. Þá hreyfast mismunandi svæði heilans á ólíkum hraða. Þetta veldur skemmdum, t.d. á yfirborði heilans sem slæst í innra lag höfuðkúpunnar, tauganet rifna, spenna milli heilavefjar og háræða getur valdið blæðingum, þrýstibylgjur geta valdið mismunandi blóðþrýstingi til hinna ýmsu hluta heilans og einnig geta myndast blóðkekkir í heilanum. Það er skoðun sérfræðinga að þung högg skipti ekki aðeins máli í þessu sambandi því að lítil högg valdi smám saman uppsöfnuðum vanda. Helstu erfiðleikarnir eru að áverkar á heila sjást ekki alltaf á myndum og því er erfitt að greina þá. Varanlegur heilaskaði getur t.d. komið fram í því að fínhreyfingar handanna skerðist. Talið er að ítrekaðir áverkar safnist saman og geti haft langtíma varanlegar alvarlegar afleiðingar. Þá er einnig margt sem bendir til þess að ítrekuð höfuðhögg geti m.a. aukið líkur á Parkinson-sjúkdómi og Alzheimer-sjúkdómi.``

Ljóst er að þeir sérfræðingar sem komu á fund nefndarinnar studdu allir þetta álit. Átta af níu nefndarmönnum heilbr.- og trn. eru nákvæmlega þessarar skoðunar. Þar sitja fagmenn, nefndin vann verk sitt ötullega og fór virkilega vel ofan í alla þætti þess.

Þar sem ég hef lokið tilvitnunum mínum í umsögn meiri hluta hv. heilbrn.- og trn. þá langar mig til að snúa mér að ræðu hv. frsm. meiri hlutans í menntmn. Hann minnti í ræðu sinni á yfirlýsingu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, þar sem fram kemur að framkvæmdastjóri sambandsins hafi ekki í hyggju að lögleiða atvinnumannahnefaleika þó svo áhugamannahnefaleikar verði leyfðir. Mig langar til að spyrja hv. flm.: Hvers vegna telur hann að Íþrótta- og ólympíusambandið vilji ekki lögleiða atvinnumannahnefaleika þó svo áhugamannahnefaleikar verði lögleiddir? Kann það að standa í sambandi við vissu fólks, líka Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, um að skaðinn af atvinnumannahnefaleikum sé mikill? Sé svo þá verðum við að minna á, herra forseti, að skaði sem áhugamannahnefaleikar valda virðist sá sami.

Herra forseti. Eitt af því sem ég minntist á í ræðu minni var viðtal í skólablaði Menntaskólans í Reykjavík sem kom út fyrr á þessu ári. Þar er viðtal við tvo unga menn sem æfa að eigin sögn áhugamannahnefaleika í Reykjavík í dag. Fyrirsögn þessa viðtals, herra forseti, er: ,,Gaman að berja bestu vini sína.`` Myndirnar með þessu viðtali eru vægast sagt sláandi, því þar eru drengirnir blóði drifnir í hringnum með höfuðhlífarnar sínar. Mig langar til að vitna í þetta viðtal þar sem drengirnir eru spurðir að því af hverju þeir séu að slást. En þar svarar Ýmir, með leyfi forseta:

,,Þetta er fyrst og fremst frábær útrás.``

Krummi tekur við og segir:

,,Auk þess er niðurbrotsstarfsemi í eðli okkar og í staðinn fyrir að fullnægja þeirri hvöt, fær maður þessa frábæru útrás hérna við að berja bestu vini sína.``

Ýmir tekur við og segir:

,,Það er líka alveg merkilegt að maður þarf ekkert að vera árásargjarn. Um leið og stigið er í hringinn og búið er að kýla og blóðga mann, kemur þetta strax upp í þér. Þá fær maður alveg ótrúlega útrás.``

Þá kemur Teitur og segir, með leyfi forseta:

,,Já, ég er nú annálaður rólyndismaður og ég veit ekki alveg enn þá hvers vegna ég er hérna.``

Þá svarar Ýmir, herra forseti:

,,Þetta er alveg upplagður vettvangur til að taka út árásargirnina í staðinn fyrir að taka hana t.d. út á fylleríi niðri í bæ.``

Herra forseti. Hér tala ungir menn í Menntaskólanum í Reykjavík. Það er á þennan hátt sem þeir svara spurningunni um hvers vegna þeir séu að slást. Ég hef enga ástæðu til að ætla að aðrir ungir menn sem hafa einhvers konar þrá til að berja bestu vini sína mundu svara þessari spurningu á annan hátt. Ég tel að alþingismenn beri ábyrgð á því að ungir menn hafi önnur tækifæri til þess að stunda og iðka íþróttir en íþróttir á borð við þessa, sem byggir á því að berja bestu vini sína af því það er svo rosalega gaman þegar árásargirnin gýs upp í manni, þegar búið er að kýla mann og blóðga.

Í viðtalinu kemur fram annað athyglisvert, herra forseti. Drengirnir segja fullum fetum að barist sé meira af kappi en forsjá. Það kemur líka fram að það er enginn að fylgjast með því að loturnar lúti þeim reglum sem ætlast er til í áhugamannahnefaleikum. Það er enginn sem sér til að þeim reglum sem þó gilda í áhugamannahnefaleikum út um allar trissur sé fylgt. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því, herra forseti, að svo verði ekki áfram þó svo að lögleiðingarstimpillinn kæmi frá hv. Alþingi á þessa íþrótt? Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að farið verði að reglum í íþróttinni þegar þeir sem stunda hana af kappi í dag og berjast fyrir því að hún fái lögleiðingu láta hanka sig á því að þeir fylgi ekki reglunum sem þeir þó vilja að sé fylgt. Þeir fylgja reglunum í orði en ekki á borði.

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að vitna á öðrum stað í þetta viðtal þar sem blaðamaður spyr drengina hvort þeir meiði sig ekki. Og þeir svara og það er Ýmir sem hefur orðið, herra forseti:

,,Jú, blessaður vertu, eftir fyrsta bardagann minn fossblæddi úr munninum og báðum nösum.``

Því til staðfestu, herra forseti, er mynd af Ými blæðandi í blaðinu. Krummi heldur áfram og segir:

,,Maður meiðir sig samt aðallega í nefinu. Það er ógeðslega sárt að fá þungt högg beint á nefið. Manni er þá illt í nefinu alla næstu vikuna. Núna er ég t.d. að drepast í kjálkanum --- takk Binni.``

Og Teitur segir:

,,Já það er líka mjög vont að fá högg beint undir þindina og missa andann í tíu sekúndur.``

Herra forseti. Ég segi það bara fullum fetum að að horfa á þessar myndir, heyra fyrir sér þetta viðtal og lesa hér það sem þessir drengir hafa að segja, er bara sárgrætilegt. Það tekur út yfir allt að þm. hv. skuli berjast fyrir því með kjafti og klóm að koma máli á dagskrá hér á elleftu stundu, á síðustu mínútum yfirstandandi þings, til að fá lögleidda íþrótt sem veldur öðru eins dómgreindarleysi hjá ungum mönnum og hér er lýst.

Herra forseti. Hér er ekki eitt heldur allt sem bendir til þess að um skaðlega íþrótt sé að ræða, andlega og líkamlega og ekki síst, herra forseti, siðferðislega. Ég geri ekki annað hér í lokin en að hvetja hv. þm. til að taka nú upplýsta ákvörðun um hvernig þeir greiði hér atkvæði og eigi við samvisku sína hvort þeir vilji lögleiða íþrótt af því tagi sem gengur út á það eitt að svo gaman sé að berja bestu vini sína.