Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 18:13:51 (7636)

2000-05-12 18:13:51# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[18:13]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil hér mótmæla einu atriði sem kom fram hjá síðasta ræðumanni. Hún sagði að áhugamannahnefaleikar væri ný íþróttagrein. Það má kannski vera en hnefaleikar hafa verið stundaðir í einhverri mynd í heiminum í árþúsundir. Á Krít hafa fundist höggmyndir af hnefaleikamönnum sem taldar eru 3500--4000 ára gamlar. Nútímahnefaleikar eru taldir upprunnir á Englandi 1681 og þaðan barst íþróttin um allan heim. Áður hefur verið keppt í þeim á grísku ólympíuleikunum og var lárviðarsveigur sem menn fengu þá eftirsóknarverður. Hér var byrjað að stunda hnefaleika hjá Ármanni árið 1926 og var fyrsta hnefaleikasýningin haldin það sama ár í Iðnó. Þannig að ég vil mótmæla því sem fram kom hjá hv. þm.

Hún fullyrðir einnig að alzheimersjúklingar hafi veikst af því að stunda áhugamannahnefaleika. Mér finnst það afar einkennilegt því ekkert af því eldra fólki með Alzheimer-sjúkdóminn sem ég þekki hefur stundað áhugahnefaleika.