Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 18:18:46 (7640)

2000-05-12 18:18:46# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[18:18]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau rök sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir færði fram áðan eða lestur öllu heldur sem hún færði fram sem rök gegn þessu máli, segja mér allt aðra sögu, þveröfuga sögu við það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir segir. Hún lýsti hnefaleikum ungra manna við Menntaskólann í Reykjavík. Hnefaleikar eins og við vitum eru bannaðir þannig að það er líka bannað að kenna hnefaleika þannig að það er bannað leiðbeina fólki um hvaða reglur það á að fara eftir. Rökin fyrir því að leyfa ólympíska hnefaleika hér á landi eru m.a. að koma böndum yfir það sem verið er að gera núna. Ég geri ráð fyrir að sú ástundun sem fór fram í MR og víða hér í bænum og víða um allt land, fylgi ekki þeim reglum sem á að fylgja. Ég legg því áherslu á að um leið og ólympískir hnefaleikar verða lögleiddir þannig að fólk sé ekki að stunda ólögmæta starfsemi hér út um allan bæ, sé jafnframt farið að kenna ungu fólki siðfræðina bak við ólympíska hnefaleika.

Annað sem ég vildi líka leggja áherslu á er að margir, bæði andstæðingar frv. í þinginu og úti í bæ, leggja sig í líma að draga úr gildi rannsókna sem gerðar hafa verið um áhrif slysahættu og áhrif ólympískra hnefaleika á heilsu manna. Í áliti Landlæknisembættisins sem kom til menntmn. eru m.a. dregnar fram rannsóknir sem sýna að ólympískir hnefaleikar, áhugamannahnefaeikar, hafa ekki ... (Forseti hringir.) Ég held áfram á eftir. (Gripið fram í: Fannst mér nú forseti vera dálítið bjölluglaður.)