Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 18:24:22 (7644)

2000-05-12 18:24:22# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[18:24]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég var lítill strákur þá var ég mikill antísportisti. Síðan skipti ég um skoðun. En þegar ég hlustaði á þessa voðalegu ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, fór ég að hugsa um hvort það hefði ekki verið vitleysa hjá mér að skipta um skoðun. Þetta er allt svo stórhættulegt. Þar sem ég reikna með að fyrir hv. þm. vaki bara gott þá spyr ég hana: Væri ekki rétt að menn hefðu samræmi í afstöðu sinni og reyndu þá að samræma löggjöfina og passa upp á að hættulegar íþróttir séu bara alls ekki leyfðar? Vill þá ekki hv. þm. beita sér fyrir því að löggjöfin sé þannig að hættulegar íþróttir séu bannaðar, t.d. hinn voðalegi fótbolti? En þær lýsingar sem komu hér á þeirri íþróttagrein voru satt að segja alveg skelfilegar. Nú þekki ég ekki til fótbolta svo mikið. En ég hef ekki heyrt aðra lýsingu verri á þeirri íþrótt og ég trúi ekki öðru, úr því hv. þm. er svona mikið niðri fyrir varðandi þessa ólympísku hnefaleika sem hún vill meina að séu vart hótinu betri, en að hv. þm. beiti sér fyrir því að banna þá stórhættulegar íþróttir aðrar og sé þá sjálfri sér samkvæm.