Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 18:28:17 (7647)

2000-05-12 18:28:17# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KF
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[18:28]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. til laga um að lögleiða svokallaða ólympíska hnefaleika. Frv. er lagt fram af tíu þingmönnum, sex körlum og fjórum konum, og er þar lagt til að heimiluð verði keppni og sýning á ólympískum hnefaleikum, að heimilt sé að kenna íþrótt þessa, selja og nota til þess gerða hnefaleikaglófa og önnur tæki sem ætluð eru til þjálfunar í ólympískum hnefaleikum, eins og segir í frv.

Eins og fram kom í fyrri ræðu minni um málið þegar frv. var lagt fram á þingi fyrr í vetur, var það læknirinn Kjartan J. Jóhannsson sem var forgöngumaður um það á Alþingi árið 1956 að hnefaleikar voru bannaðir með lögum. Kjartan var þingmaður Sjálfsfl. á árinum 1953--1963. Hann fæddist í Reykjavík árið 1907 og var héraðslæknir og heimilislæknir mest alla sína starfsævi.

Læknasamtök hérlendis og erlendis hafa látið sig þetta mál varða. Við fyrri umfjöllun Alþingis --- en þáltill. um þetta efni hafa verið fluttar áður, aðallega af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni --- hefur Læknafélag Íslnds lýst sig andvígt því að áhugamannahnefaleikar verði lögleiddir hér á landi.

[18:30]

Fulltrúar Læknafélags Íslands komu á fund heilbr.- og trn. þegar málið var þar til umfjöllunar. Í umsögn nefndarinnar, heilbr.- og trn., er sagt frá því hvaða skoðun þeir hafi á málinu og hvernig það hafi verið rökstutt. Fleiri læknasamtök hafa tjáð sig um málið, auðvitað ekki í tilefni af umfjöllun okkar, heldur vegna þess að málið hefur verið til umræðu í öðrum löndum. Þannig hafa ýmis læknasamtök verið andvíg hnefaleikum, þar á meðal breska læknafélagið og það bandaríska, en þar er vissulega við erfiðari mál að etja þar sem atvinnumannahnefaleikar eru leyfðir.

Í bréfi sem Ólafur Hergill Oddsson, héraðslæknir Norðurlands, sendi þingmönnum og dreift var til þeirra í gær, segir héraðslæknirinn, með leyfi forseta:

,,Háttvirtur alþingismaður. Vegna frumvarps til laga um að lögleiða ólympíska hnefaleika bið ég þig að hugleiða eftirfarandi:

1. Íslendingar búa við þann lúxus að áhugamannahnefaleikar (ólympískir) eru ekki leyfðir hér.

2. Hjá þjóðum, sem leyfa áhugamannahnefaleika, koma iðulega upp tillögur um að banna þessa tegund hnefaleika, en menn hika, trúlega vegna þess að það er erfitt að leggja niður kerfi, sem einu sinni hefur verið komið á.

3. Alþjóðaólympíunefndin hefur íhugað tillögur um að leggja niður áhugamannahnefaleika sem ólympíska íþrótt. Fyrrverandi landlæknir Bandaríkjanna, hinn virti Dr. C. Everett Koop og bandarísku læknasamtökin hafa stutt tillögur þar að lútandi.

4. Dauðsföll verða í áhugamannahnefaleikum. Patricia Quinn, 19 ára stúlka, var nemi í lögregluskóla í New Jersey í Bandaríkjunum árið 1988. Í skólanum tók hún þátt í tveimur æfingaleikjum í áhugamannahnefaleikum og var slegin niður fimm sinnum. Patricia dó skömmu síðar. Krufning leiddi í ljós áverka á heila vegna höfuðhögga. Willian E. Bayliss III, 23 ára lögreglumaður í Norður-Karólínu, Bandaríkjunum, dó árið 1988, daginn eftir að hann hné niður við æfingar í áhugamannahnefaleikum í íþróttamiðstöð lögreglunnar. Heilaskurðlæknir á staðnum sagði eftir á að heilinn hefði snúist til á heilastofninum, höggið sem William fékk hefði ekki verið svo þungt, en stefna höggsins var skaðleg.

5. Höfuðáverkar: Um afleiðingar ,,minni háttar`` höfuðáverka má lesa í grein undirritaðs [þ.e. Ólafs Hergils Oddssonar] ,,Leyfum ekki hnefaleika á Íslandi`` í Degi 19. apríl 2000.

6. Augu: Augnáverkar eru algengir í áhugamannahnefaleikum. Margir þeirra eru mjög alvarlegir, dæmi nethimnulos, og geta leitt til varanlegrar sjónskerðingar.

7. Konur: Unglingsstúlkur, sem taka þátt í áhugamannahnefaleikum, geta hlotið skemmd í fituvef brjóstanna, segir ástralski læknirinn dr. Pearn, sem þekkir vel til hnefaleika, og er ráðgefandi læknir hjá Slysavarnastofnun Ástralíu. Dr. Pearn segir einnig: Heili unglingsstúlkna er verr varinn en hjá piltunum sökum þess að beinin í höfuðkúpum stúlknanna eru þynnri en hjá drengjunum.

8. Börn: Í grein sinni ,,Höfuðáverkar hjá börnum í Reykjavík`` segja þeir Eiríkur Örn Arnarson og Jónas G. Halldórsson (1995) svo í upphafi:

,,Höfuðáverkar eru meginorsök sjúkleika og dauðsfalla hjá börnum hins vestræna heims.`` Engin aldursmörk eru tilgreind í ólympískum hnefaleikum, en keppni er leyfð frá 8 ára aldri. Dr. Pearn (1998) segir: Hnefaleika barna (<16 ára) ætti að banna af tveimur ástæðum:

a) Börn gera sér litla grein fyrir hættunni á langvinnum heilakvillum sem kemur fram mörgum áratugum eftir þátttöku í hnefaleikum.

b) Sú æskuíþrótt, sem hefur það að markmiði að veita andstæðingi bráðan heilaáverka, á ekki heima í nútímasamfélagi.

Vísindin. Dr. Kemp (1995) hefur skoðað með gagnrýni margar vísindarannsóknir um áhrifin af áhugamannahnefaleikum og spyr: ,,Hvers vegna eru niðurstöðurnar ekki samhljóða?`` Hann álítur að skýringin sé sú að aðferðafræði margra rannsóknanna sé gölluð. Þannig getur valið á rannsóknarhópnum verið vandasamt. Þeir sem bjóða sig fram til þátttöku í vísindarannsóknum gætu verið þeir sem hefðu lítið skaðast af íþróttinni og sem vildu þannig sýna að læknavísindin þyrftu ekki að hafa áhyggjur af boxi. Þeir sem eru að boxa en finnst eitthvað vera að hjá sér, gætu viljað forðast rannsóknir þar sem þeir gætu misst leyfið ef eitthvað fyndist að. Höfuðáverkar, sem hafa komið til utan hringsins, gætu ruglað myndina.

Val á samanburðarhóp er mjög vandasamt. Hóparnir þurfa að vera sem sambærilegastir hvað varðar aldur, greind, atvinnu, félagslega stöðu og þátttöku í íþróttum svo eitthvað sé nefnt.

Ýmis atriði varðandi tölfræði, val á læknis- og sálfræðirannsóknum o.fl. þarf að athuga vel. Dr. Kemp gefur síðan umsögn um níu rannsóknir á áhugamannahnefaleikum. Um aftursæja (retrospective) rannsókn dr. Haglund í Svíþjóð frá 1990, segir hann: ,,Rannsakaðir voru 50 fyrrverandi áhugamannaboxarar og 50 íþróttamenn. Enginn marktækur munur kom fram í klínískri skoðun, tölvusneiðmyndum eða segulómun. En heilalínurit sýndi marktækt fleiri óeðlilegar niðurstöður.`` Til viðbótar má geta þess að boxararnir voru lélegri í fínhreyfingum á svonefndu ,,fingertapping test`` (innskot ÓHO). Dr. Haglund (1993) segir sjálf um niðurstöður sínar: ,,Engin merki um alvarlegar heilaskemmdir komu fram hjá hópunum sem voru rannsakaðir. En sá munur, sem kom fram á milli hópanna á heilalínuritum og á fingurbanksprófum, gæti bent til vægrar truflunar á heilastarfsemi hjá nokkrum áhugamannahnefaleikaranna.`` Því má skjóta hér inn í --- segir Ólafur Hergill Oddsson --- að í allnokkrum vísindarannsóknum koma áhugamannaboxarar illa út á þessum fingurbanksprófum sem mæla fínhreyfingar eins og áður sagði.

Kemp og félagar (1995) gerðu framsæja (prospective) rannsókn á áhugamannaboxurum og íþróttamönnum sem ekki boxuðu. 41 boxari og 27 í samanburðarhóp gengust undir nokkur taugasálfræðipróf; 34 boxarar og 34 í samanburðarhóp fóru í ísótóparannsókn þar sem mælt var blóðflæði í heila. Niðurstaða: Þeir sem voru í samanburðarhópnum, þ.e. íþróttamenn í öðrum greinum, komu betur út á flestum taugasálfræðiprófunum. Boxarar sem áttu færri bardaga að baki stóðu sig betur á taugasálfræðiprófum en þeir boxarar sem höfðu barist oftar. Ísótóparannsóknin á blóðflæði í heila sýndi að samanburðarhópurinn var með færri afbrigðilegar niðurstöður en boxararnir.``

Að lokum segir héraðslæknir Norðurlands: ,,Niðurstöður vísindarannsókna á skaðanum af áhugamannahnefaleikum eru ekki samhljóða. Flestir vísindamenn segja að rannsaka þurfi þessi mál betur áður en endanlegar ályktanir eru dregnar. Á meðan þessi óvissa ríkir er nauðsynlegt að íslenskir íþróttamenn fái að njóta vafans. Þess vegna skora ég á þig að greiða atkvæði gegn frv. til laga um að lögleiða ólympíska hnefaleika.``

Svo mörg voru þau orð í bréfi Ólafs Hergils Oddssonar, héraðslæknis Norðurlands. En Ólafur hefur einmitt kynnt sér þetta mál mjög ítarlega og skrifað um það blaðagreinar. Hann hefur lesið flest sem gefið hefur verið út um rannsóknir á hnefaleikum og hefur lagt í það mikla og vandaða vinnu og ég hef ekki nokkra ástæðu til annars en að treysta orðum hans.

Mér er kunnugt um að borist hefur undirskriftalisti sem hefur verið lagður fram á lestrarsal og á hann hafa ritað 169 einstaklingar sem skora á þingmenn að greiða atkvæði gegn lögleiðingu ólympískra hnefaleika á Íslandi. Texti áskorunarinnar er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Áskorun til þingmanna á Alþingi Íslendinga vegna frumvarps til laga um lögleiðingu ólympískra hnefaleika.

Í hnefaleikum reynir keppandi að skaða andstæðinginn svo illa að hann verði ófær um að verjast, hann vankist eða falli meðvitundarlaus með óstarfhæfan heila um tíma. Þessi tilgangur er sameiginlegur ólympískum hnefaleikum og hnefaleikum atvinnumanna. Honum verður helst náð með höfuðhöggum. Það er vitað að vægir höfuðáverkar geta valdið varanlegum heilaskaða og ævilangri fötlun. Vægir höfuðáverkar eiga sér stað í hnefaleikum með vilja, en annars að jafnaði af slysni. Því fleiri sem höfuðhöggin verða þeim mun meiri hætta á heilaskaða. Merki um heilaskaða eru því meiri og augljósari meðal atvinnumanna í hnefaleikum en þau er einnig að finna hjá þeim sem aðeins hafa lagt stund á ólympíska hnefaleika. Höfuðhlífar veita heilanum óverulega vörn. Að mati undirritaðra er það alrangt og óverjandi að stuðla að fjölgun heilabilaðra á Íslandi með lögleiðingu hnefaleika. Við viljum því skora á þingmenn að greiða atkvæði gegn lögleiðingu ólympískra hnefaleika á Íslandi.``

Eins og ég sagði áðan skrifa undir þetta 169 einstaklingar, þar af mjög margir læknar. Ég veit að undirskriftarstöfnunin fór fyrst og fremst fram inni á Grensásdeild, þar sem er heilmikil þekking á heilabilun og orsökum hennar.

Auðvitað er það svo að á árum áður þegar hnefaleikar voru heimilaðir á Íslandi þá voru það atvinnuhnefaleikar og það er auðvitað munur. Ég læt mér ekki detta annað í hug. En munurinn er ekki alveg sá sem menn vilja láta í veðri vaka.

Það hefur komið í ljós eins og ég hef nefnt í þessum lestri að endurteknir höfuðáverkar, endurteknir áverkar á heilann, þó þeir séu vægir, geta skaðað heilann. Þetta vissu menn ekki 1956, þeir voru að banna hnefaleika af öðrum ástæðum, þeir voru að banna hnefaleika vegna þess að það voru atvinnumannahnefaleikar sem ollu mjög alvarlegum skaða og jafnvel dauðsföllum.

Fyrrverandi boxari hefur skrifað um þetta í Morgunblaðið um þetta mál. Hann heitir Marteinn B. Björgvinsson og skrifaði hann grein 1999 og í gær eða í fyrradag var viðtal við hann í Morgunblaðinu þar sem hann lýsir reynslu sinni. Þessi atvinnuboxari, sem fór að æfa hnefaleika 15 ára gamall árið 1944 þegar það var löglegt á Íslandi, lýsir því með eftirfarandi orðum, herra forseti:

,,Ein stærstu mistök lífs míns voru þau að ég byrjaði að æfa hnefaleika 15 ára gamall, á árinu 1944. Ég keppti nokkrum sinnum um Íslandsmeistaratitilinn og innanfélagstitil. Þar að auki keppti ég oft fyrir bandaríska herinn sem hélt hnefaleikakeppni á Hálogalandi. Einnig keppti ég á Keflavíkurflugvelli og fleiri stöðum úti á landi. Mér telst til að ég hafi keppt hátt í 50 sinnum alls. Seinna í lífi mínu, nánar tiltekið 23 árum eftir að ég hætti í hnefaleikum, fór að bera á hjá mér minnisleysi og miklum höfuðverk. Síðan ágerðist það þannig, að ég var farinn að gleyma svo miklu, að ég var orðinn hættulegur sjálfum mér og vinnufélögum mínum. Á sama tíma fór einnig að bera á krampaflogum. Þetta ágerðist sífellt og var ég farinn að nota mikið magn af sterkum verkjalyfjum og flogaveikislyfjum. Á endanum varð ég að hætta í minni iðngrein sem var húsgagnasmíði en var jafnframt ófær um að sinna léttum störfum.``

[18:45]

Hvaða skoðun hefur þessi maður á afleiðingum hnefaleika? Hvaða afstöðu hefur hann til þess sem kallað er ólympískir hnefaleikar? Marteinn segir:

,,Ólympískt box eykur hættuna á heilaskaða vegna þess að boxari er dæmdur út frá því hversu mörgum höggum hann kemur á andstæðinginn, þannig að takmarkið er að koma eins mörgum höggum á andstæðinginn og mögulegt er á þeim tíma sem lotan stendur yfir. Margir bardagar á nokkrum dögum þýðir að þeir sem komast lengst þurfa að þola stanslaus högg á mjög stuttum tíma og ef heilinn hefur orðið fyrir hinum minnsta skaða í fyrri bardögum þá gæti það auðveldlega leitt til dauða. Ólíkt líkamlegum skaða er ekki hægt að sjá heilaskaða í hringnum og ekki græðist heilinn af sjálfu sér.

Nútíma læknisfræðileg tækni sýnir hátt yfir allan vafa að krónískur heilaskaði hlýst af endurteknum höggum sem allir hnefaleikarar fá hvort sem þeir eru atvinnumenn eða áhugahnefaleikarar.

Mörg dæmi eru um langtímaáhrif eftir hnefaleika svo sem minnisleysi, höfuðverkur, lélegt jafnvægi og samhæfing og óskýr talandi.``

Þetta segir Marteinn B. Björgvinsson í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið 20. maí 1999.

Mig langar að fjalla aðeins um tíðni áverka og samanburð milli íþróttagreina. Ég tek undir það sem sagt hefur verið hér, að í hnefaleikum eru áverkarnir af ásetningi vegna þess að maður getur skorað stig við að koma höggi á líkama andstæðingsins. Í öðrum íþróttagreinum eru reglurnar þær að ekki er ætlast til að öðrum séu veittir áverkar. Auðvitað verða slík slys. Menn hlæja hér digurbarkalega þegar hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og nú ég segjum að menn ætli sér ekki að veita áverka í fótbolta, en halda því gagnstæða fram og segja: Jú, víst ætlum við að skaða hina. En það eru ekki reglurnar. Reglur eru settar til að reyna að hindra slys af bílum, reglurnar lúta að hraða og bílbeltanotkun, það eru umferðarreglur. Bílnum eru settar mjög þröngar skorður.

Áfengi var nefnt hér líka. Ekki er síður hörð löggjöf um notkun áfengis, um ákveðinn aldur, um ákveðna staði sem drekka má á en ekki öðrum, ekki má flytja inn allar tegundir og verðinu er af ásettu ráði komið þannig fyrir að það dragi úr notkun þess. Hið sama má segja um tóbak.

Auðvitað eru reglurnar settar vegna þess að menn sjá fram á afleiðingarnar. Mér finnst það ekki vera forsjárhyggja, umfram þetta sem ég var að nefna, að vilja halda íslenskum ungmennum frá heilaskaða. Mér finnst sömu rökin búa að baki, hvort sem það er forsjárhyggja eða ekki, kannski þarf að beita slíku þegar maður veit að áverkatíðnin er mikil. Ef það að fordæma eða banna áfram ólympíska hnefaleika er forsjárhyggja, af hverju eru þá atvinnuhnefaleikar ekki seldir undir sömu sök? Er það þá ekki líka forsjárhyggja að leyfa ekki atvinnumannahnefaleika? Ég held það. Ég held að öll þessi rök hnígi í sömu áttina.

Hins vegar, eins og ég sagði í andsvari fyrr á fundinum, eru höfundar þeirra greina sem ég hef lesið allir sammála um að áverkarnir á heilann í áhugamannaboxi verði ekki á æfingum. Eina grein eða tvær sá ég sem sagði að þar væri áverkatíðnin núll. Áverkarnir, slysin og heilaskaðinn, verður í keppnunum. Þess vegna skiptir máli þegar maður fer að bera saman tölur, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði hér fyrr, að láta ekki nægja að telja fjölda áverka, fjölda slysa, heldur verður að miða það við fjölda iðkenda og þann tíma sem áverkarnir hljótast á. Lota í áhugamannahnefaleikum er stutt miðað við reiðtúr, úr því hann var að taka hestamennsku sérstaklega. Í slíkum samanburði verður að liggja fyrir: hestamennska, í hve langan tíma? Hve langur er hver útreiðartúr? Hvað erum við að tala um? Niðurstaðan er sú að það er ekki hægt að bera þetta saman nema við gerum það á sama hátt. Annars er ekkert gagn af þessum tölum. Þær segja okkur ekki neitt.

Áverkarnir verða sem sagt í keppni en ekki á æfingum. Ég held að þorri þess unga fólks, bæði hér á landi og erlendis, sem vill stunda þessa íþrótt geri sér ekki alveg grein fyrir þessu. Þeir vita að það er gaman að hreyfa sig og það er rosalega hollt að stunda íþróttir, sérstaklega þær sem eru loftsæknar, hjólreiðar, hlaup, sund og allt mögulegt annað --- og box, en slysatíðnin, áverkatíðnin er ekki við æfingarnar, hún er í keppnunum. Það má kannski segja að ef ég ætti að vera samkvæm sjálfri mér ætti ég að segja að það sé í lagi að heimila búnað til að æfa sig í áhugamannaboxi ef keppni mundi ekki fylgja, það væri rökrétt. Ég veit að það er rétt samkvæmt því sem ég hef lesið að áverkarnir verða ekki á æfingum. Líkamsæfingar eru auðvitað mjög æskilegar og við viljum að unga fólkið okkar stundi þær og við þessi eldri helst líka.

Fyrir langalöngu komust menn að þeirri niðurstöðu að í boxi væri rétt að banna að kýla fyrir neðan beltisstað. Það er viðtekið í áhugamannaboxi og atvinnumannaboxi. Af hverju var það? Það var til þess að fá ekki áverka á kynfæri. En ég spyr, herra forseti: Er heilinn eitthvað minna mikilvægur en kynfærin? Menn álitu það kannski þegar þessi regla var sett en það er rétt að benda á það að m.a. breska læknafélagið hefur hvatt til þess að í áhugamannaboxi verði ekki heimilað að slá fyrir ofan viðbein. Þeir hafa náttúrlega ekki náð því fram því boxararnir segja: Já, en þá er það ekki box. Skoða menn þetta í alvöru verður maður að hugsa: Ef hættan var svona mikil fyrir kynfærin að það var nóg til þess að menn bönnuðu slík högg --- það þykir ekki drengilegt og er bannað í þessari íþrótt að slá fyrir neðan beltisstað --- þá er heilinn ekki minna virði. Því eftir höfðinu dansa nú limirnir, hélt ég.

Það er mjög mikilvægt að skrá höfuðmeiðsli eins og sagt var hér fyrr, t.d. í knattspyrnu. Þau eru alvarleg og eru alltíð. Menn eru misfærir við að skalla bolta, ég hugsa að ég mundi fara í rot við fyrstu tilraun en það er af því að ég hef ekki æft fótbolta. Komi það í ljós við skráningu á höfuðslysum í fótbolta, ef menn ætla sér í alvöru að skoða þetta, gæti bara vel farið svo að bannað yrði að skalla bolta, alveg eins og bannað var að slá fyrir neðan beltisstað í boxi. Það er nefnilega þannig að ef slysatíðni eða áverkatíðni við einhverja ákveðna hegðun er óeðlilega mikil þá reyna menn að finna einhverjar leiðir til að hindra það. Það hafa menn gert í boxinu.

Í áhugamannaboxi eru notaðar höfuðhlífar og þar er notuð brjósthlíf. Menn eru auðvitað að reyna að gera þetta, það eru notaðir aðrir hanskar, mýkri hanskar og þyngri. Þessi búnaður sem ver vissa hluta líkamans sannanlega og dregur úr slysahættu og áverkahættu á vissum stöðum en ver ekki heilann af því búnaðurinn er skorðaður á höfuðið og höfuðið hreyfist um leið, þetta hreyfist saman, en heilinn lýtur öðrum lögmálum. Hann hreyfist ekki á sama hraða og höfuðkúpan. Þess vegna geta rifnað frá æðar og taugar og orðið skaði á heilanum. Höfuðhlífin hlífir húð og eyrum, dregur úr líkum á áverkum þannig að það blæði úr höfuðleðri. Það er sýnt og sannað að höfuðhlífin dregur úr slíkum meiðslum en það er falskt öryggi fyrir boxarann sem heldur að hann sé svo mikið betur varinn gegn heilaskaða, en hann er það ekki. Það finnst mér þær rannsóknir sem ég hef lesið segja. Sumir gera lítið úr því og segja: Já, það var einhver smámunur á einhverjum fingurbankprófum. En viti maður um allt það sem líkaminn þarf að hafa yfir að ráða til að geta haft fínhreyfingarnar sínar í lagi þá veit maður að svona ,,saklaust`` fyrirbæri getur verið merki um skaða á heila. Þeir boxarar eða þeir íþróttamenn sem hafa orðið fyrir höfuðhöggum og hafa skaðað fínhreyfingar sínar, geta sagt ykkur þetta. Þeir sem missa hæfileikann vita af þessu. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Fínhreyfingar hjá hinum viti borna manni eru hluti af því að getað bjargað sér í nútímaþjóðfélagi. Maður með skertar fínhreyfingar getur kannski ekki skrifað nafnið sitt. Hann getur ekki sinnt ýmsu í lífi sínu, í starfi og leik, sem hann getur með eðlilegar fínhfreyfingar. Ég held að menn vanmeti þetta.

Hér áðan var rætt um um Alzheimer-sjúkdóminn og Parkinson-sjúkdóminn og auðvitað er það svo að í flestum tilvikum er ekki vitað af hverju fólk fær Alzheimer-sjúkdóm eða Parkinson-sjúkdóm. En í ýmsum tilvikum eru mjög sterkar líkur á því að það hafi orðið vegna höfuðáverka. Þetta er ekki óyggjandi sannað enn þá, en líkurnar eru þær og tíðnin er geigvænlega hærri hjá þeim sem hafa fengið slíka áverka en öðrum sem hafa ekki fengið þá. Og það er ekkert endilega af völdum þungra högga. Það er svo merkilegt að þetta líffæri, heilinn, sem er okkar þróaðasta líffæri og skiptir okkur mestu máli, er líka viðkvæmur fyrir vægum höggum. Þetta vissu menn ekki 1956 þegar þeir bönnuðu boxið. En þetta er þó vitað núna og maður getur ekki leitt það hjá sér.

Aðrir hlutar líkamans verða fyrir áverkum og var rætt um nefið áðan þegar lesið úr viðtali við þrjá unga menn í Menntaskólanum, Teit, Ými og Krumma, sem ég reyndar þekki alla. Það var nú sagt í grein eftir Flosa Ólafsson nýverið að Ketil flatnefur hlyti að hafa stundað box og því hefði flast út á honum nefið. En ég ætla nú ekki að velta vöngum yfir því sérstaklega.

[19:00]

Ég er sammála því að íþróttir eigi að stuðla að útrás og eigi að kenna fólki aga og að sæta reglum. Auðvitað er ég sammála því. Ég veit líka að áflog og hnefaleikar hafa verið stunduð sennilega svo lengi sem mannkynið hefur verið við lýði. Áflog sér maður líka hjá öðrum lífverum, kettlingum og hvolpum og menn eru að tuskast á í vinahópi eins og gert er hjá öðrum dýrategundum og það má segja að það sé eðlilegt. Karlkynið gerir meira af því en konurnar reyndar, en hjá kettlingum og hvolpum held ég það sé alveg jafnt. En eðlilegt er að tuskast og fljúgast á í góðu, en það er ekki eðlilegt að skaða hver annan. Það er ekki eðlilegt eða ekki æskilegt og a.m.k. vil ég sem læknir reyna í lengstu lög að sporna gegn því, hvort sem er í íþróttum eða umferðinni eða í öðrum málum. Það má kalla það forsjárhyggju, en ég held að maður verði að reyna að beita því litla viti sem maður hefur.

Herra forseti. Af því ég vitnaði aðeins í Flosa Ólafsson áðan þá sagði hann þar sem hann var að láta gamminn geysa um flatnefi. Hann sagði:

,,Ég vil ekki að boxið sé bannað einfaldlega vegna þess að það þýðir ekkert að banna boxið frekar en aðrar frumhvatir mannskepnunnar, svo sem eins og móðurástina, forvitnina, heiðarleikann, trygglyndi, framhjáhald og kynferðislega áreitni,`` segir Flosi Ólafsson. ,,Boð og bönn hamla ekki frumhvötinni. Ef tveir menn koma sér saman um að ekkert sé unaðslegra en að berja hvor annan í hausinn þar til þeir eru orðnir eins og vankaðir höfuðsóttargemlingar, heilaskaddaðir og alveg út úr heiminum, þá gera þeir það hvort sem boxið er bannað eða ekki. Alveg eins og þeir halda áfram að banka kerlingarnar sínar, hvort sem það er bannað eða ekki. Bann við hnefaleikum hefur alla tíð verið tilgangslaust, allt frá því að Ketill flatnefur bannaði boxið af augljósum ástæðum.``

Ég ætla kannski ekki endilega að gera þessi orð að mínum, en ég held að öllum geti verið ljóst háðið sem fáum er eins vel lagið og Flosa að setja mál sitt fram á.

Í umsögn Læknafélags Íslands 23. mars árið 2000 til menntmn. Alþingis segir m.a. svo, með leyfi forseta:

,,Þann 17. október 1997 sendi stjórn LÍ frá sér eftirfarandi yfirlýsingu: Læknafélag Íslands varar við þeirri umræðu, sem nú er hafin um hnefaleika á Íslandi. Hnefaleikar eru hættuleg íþrótt. Ólíkt öðrum íþróttum er markmið íþróttarinnar að valda líkamstjóni hjá andstæðingi. Hnefaleikar valda aukinni tíðni af varanlegum heilaskaða og geta dregið þátttakendur til dauða. Af þessum sökum leggur stjórn Læknafélags Íslands áherslu á það, að lögum um bann við keppni eða sýningu á hnefaleikum verði ekki breytt.

Læknafélag Íslands stendur við þessa yfirlýsingu. Þeir læknar sem hafa tjáð sig um málið telja að vísindalegar sannanir séu fyrir því að hnefaleikar eftir reglum áhugamanna séu hættulegir heilsu þeirra sem þá stunda. Verður vikið að því nánar. Þá telur LÍ að hætta verði á að ungt fólk ástundi það á götum úti sem fyrir þeim er haft í hringnum og að gera megi ráð fyrir auknum þrýstingi á lögleiðingu hnefaleika samkvæmt reglum atvinnumanna ef áhugamennska verður leyfð. Þá er það staðreynd að þeir sem árangri ná í áhugamennsku leiðast mun frekar til atvinnumennsku í greininni en aðrir. Þá telur LÍ að gera megi ráð fyrir því, að ólögleg ástundun hnefaleika samkvæmt reglum atvinnumanna verði auðveldari í skjóli aðstöðu fyrir áhugamannahnefaleik.

Bendir félagið á afstöðu almennings á Íslandi til þessa máls, en hún var þekkt 1997 samkvæmt könnun Gallups (heimild DV, 10. nóvember 1997). Niðurstaða hennar var sú, að 64% landsmanna voru andsnúnir því að keppni verði leyfð í ólympískum hnefaleikum hér á landi. Fylgjandi voru 32%.

Ekki er annað vitað en að vísindamenn sem rannsakað hafa heilsufarslegar afleiðingar af atvinnuhnefaleikum séu á einu máli um varanlega skaða sem þeir valda. ,,Takmark hnefaleikarans er að veikja varnir andstæðingsins, valda honum skaða, vanka hann og rota.`` Alvarlegustu skaðarnir eru á miðtaugakerfi. Þeir geta verið bæði bráðir og/eða langvinnir. Um er að ræða bráða skaða á augum, heilahristing, mar á heila og alvarlegar blæðingar sem leitt geta til dauða. Langvinnar afleiðingar eru skaðar á augum og ,,chronic traumatic encephalopathy``, þar sem um er að ræða allt frá vægum truflunum á útlimastjórn til ,,dementia pugilistica``, sem er alvarleg heilahrörnun.`` --- Stundum kölluð boxaraveiki.

,,Þessi upprifjun á afleiðingum atvinnumennsku í hnefaleikum er nauðsynleg til að átta sig á þeim kröftum sem að verki eru í áhugamennskunni. Hnefinn sem beinist að húfuklæddu höfði áhugamannsins fer með sama hraða (skriðþunga) og hnefi atvinnumannsins eða um 160 km/klst. Heilinn flýtur í mænuvökvanum í höfuðkúpunni og þar gildir lögmál tregðunnar þegar höfuðið verður fyrir snöggum snúningi eða fram-aftur hreyfingu. Húfan dregur ekki úr áhrifum þessara krafta. Japönsk rannsókn bendir til að langir bardagar leiði frekar til alvarlegra blæðinga af völdum högga. Væri það rökrétt afleiðing þreytu keppenda þegar lotunum fjölgar. Þetta vekur þá spurningu hvort minni skaðar að þessu leyti í áhugamannahnefaleik séu vegna þess að einungis er keppt í 3 lotum, en ekki vegna annarra ástæðna. Um þetta liggja rannsóknir hins vegar ekki fyrir svo okkur sé kunnugt. Sænsk rannsókn bendir til vægra heilaskemmda í áhugamannahnefaleikum og áströlsk rannsókn bendir á að langtímarannsókna sé þörf til að segja fyrir um varanlegan heilaskaða af völdum áhugamannahnefaleika.

Fyrir liggja vísindalegar niðurstöður um augnskaða í áhugamannahnefaleikum sem teljast verða óyggjandi. LÍ vill benda á austurríska rannsókn þar sem bornir voru saman tveir hópar ungra manna. Annars vegar voru 25 einkennalausir áhugahnefaleikarar sem áttu að meðaltali 40 keppnir að baki og hins vegar 25 jafnaldrar sem ekki höfðu stundað hnefaleika. Niðurstaða rannsóknarinnar var að 19 (76%) hnefaleikarar sýndu margvísleg merki um höggáverka á augum svo sem framhólfsbreytingar, glærulos og ör á sjónhimnu. Sambærilegur skaði fannst í einum einstaklingi í samanburðarhópi.``

Niðurstaða Læknafélags Íslands er að mæla gegn því að bann við hnefaleikum á Íslandi verði afnumið.

Herra forseti. Ég hef lesið fjölda greina víða að úr heiminum um rannsóknir á boxurum, bæði atvinnuboxurum og áhugaboxurum og ég hef reynt að mynda mér skoðun eins hlutlaust og ég hef getað, af því ég er ekki að taka afstöðu gegn lögleiðingu ólympískra hnefaleika af þvermóðsku, heldur einungis af því að mér finnst rökin vera svo sterk. Mér finnst ef rökin með og á móti hnefaleikum í áhugamannaskyni séu sett á vogarskálar, þá sé mjög mikill munur á þyngdinni. Kostina hef ég nefnt við ólympískt box og dreg það ekki í efa að ekki verði slys við æfingar, áverkarnir sums staðar á líkamann séu vægir og skipti kannski ekki verulegu máli en áverkar á heilann, uppsafnaður vandi, jafnvel vægra högga, geti valdið varanlegum skaða.

Það má taka samanburð af fólki sem vinnur í hávaða. Vinnueftirlitið, lög og reglur gera ráð fyrir að þeir sem vinna við hávaða yfir ákveðnum desibelafjölda eigi að verja eyrun. Það eru auðvitað margir löghlýðnir og fara eftir þessu, en aðrir skella við því skollaeyrum og hugsa: Þetta er ekkert óþægilegur hávaði, hvað þarf ég að vera með óþægilegar hlífar á eyrunum. En heyrnin skerðist smám saman, hún fer ekki allt í einu. Það er mjög lúmskt hvernig heyrnarskaðinn verður. Og þegar fólk er komið af unglingsárunum og hefur ekki varið á sér eyrun getur það verið orðið heyrnardauft á unga aldri. Þetta þekkja flestir og skilja og vita að umræða er um þetta í þjóðfélaginu. Þess vegna er ekki leyfilegt að hafa aðstæður á vinnustað þannig að hávaði fari yfir ákveðin mörk. Og það eru til aðferðir til að varna því.

Á sama hátt getur maður sagt að hér sé um að ræða íþrótt sem vitað er að við æfingar þá skaði hún ekki og hún getur haft jákvæðar hliðar vissulega, en hin hliðin á teningnum er mjög sláandi. Skaðinn sem getur orðið á heilanum verður varanlegur og það verður ekki aftur snúið frekar en við heyrnartapið. Ég tel að núverandi lög séu til þess fallin að verja ungt fólk gegn slíkum heilasköðum.

Íþróttir sem kenna ungu fólki að fara eftir reglum, að sæta aga sem kannski ekki allir fá heima hjá sér því miður eða fara ekki eftir, auðvitað er hollt að stunda slíkar íþróttir. En það er agi í mörgum íþróttum. Og breska læknafélagið bendir m.a. á júdó, frjálsar íþróttir, sund, fótbolta, þó slysatíðnin af öðrum ástæðum sé há t.d. í fótbolta, en þá eru þessar íþróttir tilteknar af því að þjálfun þeirra fylgir agi, en heilaskaðinn er ekki sá sem fylgir hnefaleikunum.

Herra forseti. Breska læknafélagið heldur því fram að hlutfallsleg áhætta af hnefaleikum sé hærri en í nokkurri annarri íþrótt. Samanburðurinn er erfiður eins og ég hef reynt að skýra hér. Og auðvitað verða læknasamtök úti í heimi þar sem atvinnumannabox er einnig heimilað að velja á hvaða garð þau ætla að ráðast. Þau ráðast helst á þann sem þau telja líklegt að þau geti haft einhver áhrif á. Það þýðir ekkert að berja höfðinu við steininn og hljóta af því heilaáverka sjálfur. En þær tölur sem ég hef fundið í greinum og rannsóknum segja allar þetta sama, að óyggjandi niðurstöður vanti og betri rannsóknir, langtímarannsóknir vanti þó eitthvað sé að þokast, árin líða, en mér finnst alla vega ljóst að meðan ekki er um óyggjandi niðurstöður að ræða eigi ungir íþróttamenn á Íslandi að njóta vafans.

Eitt atriði nefndi ég ekki og vil aðeins gera að umtalsefni og það eru nýjar greinar sem segja að fólk sem hefur visst erfðaefni, visst efni í líkamanum sem er kallað apolypoprotín E-Y4, að því fólki sé hættara við alvarlegum heilaskaða af höggi en þeim sem ekki hafa þetta í líkama sínum. Og kannski er það viðbótarástæða fyrir því að sumir virðast fá alvarlegri áverka af höfuðhöggi en aðrir. Það eru allmargar greinar um þetta á síðari árum og þetta er auðvitað mjög athyglisvert en hefur ekki verið til lykta leitt.

Ég sagði áðan að tíðnin á þátttökunni, tíminn sem íþróttin er iðkuð og fjöldi íþróttamanna sem stunda íþróttina, verði að koma inn í útreikning á hættunni.

[19:15]

Hvað boxarana varðar þá segir í grein Porters og O'Brians sem ég minntist á hér áður frá 1996 úr Clinical Journal of Sport Medicine, að 50% áverkanna séu á heilann, 20% á efri útlimi, hendur og úlnliði og andliti 20%. Menn hafa reynt að reikna út hver tíðnin sé á hvern boxara hverja klukkustund sem íþróttin er iðkuð. Með þeim samanburði við aðrar íþróttir halda þessir höfundar því fram að slysatíðnin sé há miðað við aðrar íþróttir. Ég tel að það verði að taka tillit til þessara þátta, eins og 1. flm. tillögunnar, hv. þm. Gunnar Birgisson, getur áreiðanlega tekið undir með mér með sína verkfræðiþekkingu sem ég bý ekki yfir.

Herra forseti. Víða um lönd þar sem atvinnuhnefaleikar eru stundaðir má e.t.v. segja að áhugamannahnefaleikar séu hlutfallslega lítið vandamál því að vitað er að áverkatíðni er hærri og alvarlegt, varanlegt heilsutjón mun algengara í atvinnumannaboxi en hjá áhugamönnum. Áverkar eru fátíðari, ekki síst af því að reglur þær sem keppt er eftir eru mun strangari í áhugamannaíþróttinni. Lotur eru færri og styttri, auk þess sem notaðar eru hlífar á höfuð og brjóstgrind og einnig mýkri og stærri hanskar. Segja má að áðurnefndur samanburður sé áhugamannaíþróttinni afar hagstæður. Mörg lönd hafa bannað atvinnumannahnefaleika eins og gefur að skilja og eins og ég sagði áðan hafa læknasamtök, t.d. í Bretlandi og víðar, lagt til að áhugamannahnefaleikar verði bannaðir eða þá að reglunum verði breytt þannig að bannað verði að slá fyrir ofan viðbein.

Fullyrðingar ýmissa stuðningsmanna þessa frv. um að ekki fáist stig fyrir að rota andstæðinginn í áhugamannaboxi eru einfaldlega rangar því það verður að kalla þær fölsun á staðreyndum. Stig fást fyrir högg á höfuðið. Hvort sem afleiðingar eru litlar eða miklar, fæst stig fyrir höggið. Höfuðhlífarnar eins og margsinnis hefur verið sagt verja eyrun og höfuðið utanvert við skurðum og mjúkpartaáverkum. En við rannsóknir hefur komið í ljós að áverkar á heilann sem þar er fyrir innan, misjafnlega máttugur reyndar, sérstaklega af þessu erfðaefni sem ég nefndi sennilegast, eru síst alvarlegri en við önnur höfuðhögg.

Eins og fram kom við fyrri umræðu um þetta frv. í þinginu nýverið og í þeirri umsögn sem meiri hluti hv. heilbrn. þingsins sendi menntmn. um frv., eru áverkar á heilann alvarlegasta afleiðing þessarar íþróttar. Það sem verra er þó er að höggin eru ekki slys eins og sannarlega koma fyrir í ýmsum öðrum íþróttum, heldur markvissir áverkar og hluti af leiknum, hluti af þeim gráa leik sem svona hnefaleikar eru.

Mig langar að gera áhrif hnefaleika á börn og unglinga að umtalsefni. Umræðurnar finnst mér að sumu leyti hafa verið þannig að kalla megi að málið sé haft í flimtingum. Það er eins og í kringum áhugamannaboxið sé eitthvert töffaraumhverfi og við þingmenn sem erum nægilega töff til að skilja þetta myndum þá samþykkja þetta frv. Ég verð að gangast við því að ég er enginn töffari. Ég er kannski hlynntari orðsins list en hnefaleikum. En auðvitað á maður ekki að taka afstöðu til mála bara út frá því. En töffaraumhverfið og fyrirmyndin hefur auðvitað áhrif á börn og unglinga. Ég tel að ýmsar hörkuíþróttir undir ströngum reglum og aga getið verið gagnlegar, líka fyrir börn og unglinga og boxið á æfingum þar sem ekki er verið að kýla í besta vininn heldur í púða, sé af hinu góða. Ég get alveg fallist á það. Það eykur þol. Það eykur vöðvastyrk. Það styrkir blóðrás. Það styrkir lungu. Það hefur marga kosti. En það sætir öðru þegar keppt er við lifandi andstæðing og það sýna þessar rannsóknir okkur. Höfuð ungs fólks er ekki eins vel varið og fullorðinna þar sem höfuðkúpan er ekki orðin eins hörð eins og hún verður síðar á ævinni þannig að áverkar á höfuð, þar með á heilann, hafa mikla hættu í för með sér.

Ég sagði áðan til að reyna að opna augu manna fyrir því að með því að heimila áhugamannahnefaleika sé verið að gera börnum frá átta ára aldri kleift að taka þátt í boxkeppni í heimalandi sínu. Þannig munu reglurnar vera. Það hlýtur þá að þýða að þau fara að æfa íþróttina löngu fyrr. Á sama tíma og við erum að vinna að slysavörnum fyrir börn á öllum aldri, við setjum lög um að þau hafi hjálma á höfði við hjólreiðar, við reyrum þau föst í bíla með bílbeltum og reyrum þau föst í bílstóla og stóla, þá skýtur skökku við að innleiða íþrótt sem hefur aukna hættu í för með sér.

Fjölmargar greinar hafa verið birtar um afleiðingar hnefaleika á þá sem iðka íþróttina og þar koma fram niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið víða um heim bæði af vísindamönnum og einnig faraldsfræðilegar rannsóknir á tíðni áverkanna. Íþróttalæknar, taugasjúkdómalæknar, bæði lyflæknar og skurðlæknar, hafa verið að rannsaka afleiðingar af höfuðslysum og augnlæknar hafa rannsakað augnáverka svo eitthvað sé nefnt.

Í grein sem ég minntist á áðan eftir Porter og O'Brian sem birtist 1996 í Clinical Journal of Sport Medicine er skýrt frá tíðni áverka í áhugamannahnefaleikum á Írlandi, nánar tiltekið í Dublin frá nóvember 1992 til mars 1993. Þátttakendur í áhugamannahnefaleikum þar í landi eru taldir vera um sex þúsund og til eru um tvö hundruð og sjötíu klúbbar. Höfundar greinarinnar segja að eitt af markmiðum íþróttalæknisfræði sé að reyna að draga úr hættu á áverkum án þess að breyta eðli íþróttarinnar verulega, áhugamannaboxarar séu útsettir fyrir áverkaáhættu sem sé sambærileg við þá sem stunda box í atvinnuskyni þótt hættan á heilaskaða, einkum varanlegum taugafræðilegum afleiðingum hans, geti verið nokkuð minni vegna öryggisreglanna. Í greininni kemur fram að fylgst var með 281 keppni eða hluta af keppni, því að sumar eru stoppaðar af, alls 4.170 mannmínútum. Þarna eru menn að reyna að setja þetta niður í mælanlega tímaeiningu. Áverkar voru 64, þar af 33 heilaáverkar. En það reiknast til 0,92 áverka á mannklukkustund.

Höfundar flokka áverkana í sjö flokka. Helmingurinn, eða 52%, féll undir skilgreiningu á flokk eitt sem voru minnstu áverkarnir, 30% fóru í flokk tvö, 12% í flokk þrjú og 6% í flokk fjögur til fimm. Í umfjöllun um rannsóknina segja Porter og O'Brian að áverkatíðni í keppni í áhugamannahnefaleikum sé fremur há þegar miðað sé við boxara á hverja klukkustund iðkunar, þ.e. 0,92. Þegar litið er á áverka hvers boxara á hverju ári þá sé talan 0,7. Algengasti áverkinn er heilaáverki eða yfir helmingur allra áverka, 20% eru áverkar á upphandlegg og andlit. Handaáverkar eru algengir svo og skurðir og fleiður í andliti þrátt fyrir höfuðhlífar. Hjá einum boxara sprakk hljóðhimna. Til samanburðar má nefna að Jordan og Campell sýndu í annarri rannsókn fram á að heilaáverkar hjá atvinnuboxurum væru mun algengari, eða tæp 70%. Þá hefur áhugamannabox í hernum einnig verið rannsakað að sögn Porters og O'Brians og þar kom fram að á heimsvísu sé áverkatíðnin 68% og jafnvel 80% hjá ungum hermönnum í þjálfun. Herra forseti. Mér finnst þetta háar tölur.

Flestir sem hljóta heilahristing í áhugamannaboxi fá hann í keppni. Flestir fá einungis vægan heilahristing og þessir höfundar sem ég nefndi, bæði Porter og O'Brian og Jordan og Campell, eru sammála þessu. Við læknisskoðun að leik loknum fannst ekkert athugavert. Og það er það sem líka er svo alvarlegt við þetta mál. Boxari vankast. Hann fær vægan heilahristing. Hann er eitthvað ruglaður einhvern tíma, t.d. tíu mínútur, er slappur eða líður illa. En ekkert finnst við skoðun. Það er ekki þar með sagt að hægt sé að segja að það fannst ekkert við skoðun og þá er allt í lagi. Það er einmitt það sem þessar rannsóknir leiða í ljós að afleiðingarnar, jafnvel af vægum höggum, safnast saman og koma niður á íþróttamanninum seinna á ævinni. Þá er of seint að iðrast. Þá er engu hægt að breyta. Það er nauðsynlegt að finna leiðir til að meta þetta svo óyggjandi sé og einkum til þess að fylgjast með þróuninni og meta árangur af öryggisbúnaði. Vel má vera að hægt sé að þróa öryggisbúnað sem gæti dregið einhvern veginn úr þessu, ekki veit ég það. Það má líka vel vera að ef farið verði eftir tillögum læknafélagsins breska, að slá ekki fyrir ofan viðbein, gildi allt annað um þessa íþrótt. En það hefur ekki verið gert og þetta stendur enn þá svona.

Í rannsókn þeirri sem ég var að nefna var ekki verið að skoða augnáverka eða langvarandi áhrif af höfuðhöggum. Ég er að tala um greinina eftir Porter og O'Brian frá 1996. Og þeir voru heldur ekki að skoða áhrif endurtekinna högga á höfuðið, þeir voru bara að kortleggja tíðnina og hvar höggin hefðu lent og alvarleika þeirra og flokka það niður. En þetta er engin langtímarannsókn enda gerðist þetta 1996 og greinin er frá því ári.

Flestir sem rannsakað hafa varanleg áhrif heilaskaða eru sammála um að frekari rannsókna sé vant. Talið er að endurtekin högg, jafnvel þótt væg séu, geti sammagnast. Tengslin hafa helst verið við sjúkdóma á borð við Parkinson-sjúkdóm og Alzheimer-sjúkdóm en það þykir ekki fullsannað þó líkur séu verulegar og aukin tíðni sé á þessum sjúkdómum. Einnig er talið að meiri hætta sé á minnisleysi og að skerðing verði á fínhreyfingum handa. Þetta finnst sumum e.t.v. léttvægt eins og ég benti á hér áðan, en ég fullyrði að svo er ekki.

Herra forseti. Ég gæti vitnað í fjölmargar aðrar greinar því áliti mínu til stuðnings að við séum betur sett með flestar aðrar íþróttir og án hnefaleika af hvaða tagi sem er. Þótt ég gangist við því að minni hætta sé af áhugamannaíþróttinni má beita fjölmörgum öðrum íþróttagreinum til þess að þjálfa sig líkamlega, íþróttum þar sem unnið er eftir reglum og aga og það er öllum hollt, ungum sem öldnum.

Á meðan öryggi við keppni í áhugamannaboxi er ekki meira en ég hef rakið í máli mínu --- og þar ber heilaáverka langhæst --- og læknasamtök víða um heim m.a. á Íslandi hafa bent á alvarlegar afleiðingar af íþróttinni og hafa jafnvel reynt að beita sér gegn því að í boxi sé keppt á Ólympíuleikum --- það er rétt að skjóta því hér inn að ekki er skylt að taka upp allar þær íþróttir sem keppt er í á Ólympíuleikum --- þá væri nær að stuðla að því að því yrði hætt og að í þessari íþrótt yrði ekki keppt á Ólympíuleikum. Ég sé því, herra forseti, síst ástæðu til að innleiða keppni í áhugamannaboxi hér á landi og þar sem frv. lýtur að því að heimila slíka keppni, hlýt ég að segja: Höldum í heiðri gömlu lögin frá 1956.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hún ljúki ræðunni sinni innan örfárra mínútna.)

Það sem forseti tók ekki eftir var að þingmaðurinn lauk einmitt núna ræðu sinni.