Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 20:18:39 (7654)

2000-05-12 20:18:39# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[20:18]

Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Fyrr í dag þegar þetta mál var tekið á dagskrá var það ósk okkar nokkurra þingmanna að þetta mál yrði ekki tekið á dagskrá en önnur mál sem við töldum brýnni hefðu ákveðinn forgang og kæmu á dagskrá eins og samkeppnislög og frv. um tannsmiði. Hæstv. forseti upplýsti þá að þau mál yrðu tekin á dagskrá strax eftir kvöldmat. Nú er klukkan að verða hálfníu og enn eru nokkrir þingmenn á mælendaskrá. Ég vil vekja athygli á því að tvær nefndir hafa fjallað um það mál sem hér er á dagskrá og þar af eru ellefu þingmenn andvígir málinu í þessum tveimur nefndum og sex sem eru meðmæltir því. Þess vegna held ég, herra forseti, eða það er a.m.k. skoðun mín að önnur mál ættu að hafa forgang. Ég inni forseta eftir því sem kom fram fyrr í dag að þau mál sem ég nefndi áðan eins og samkeppnislögin og frv. um tannsmiði yrðu tekin strax eftir kvöldmatinn. Því vil ég ganga á eftir því við hæstv. forseta hvort ekki sé rétt og eðlilegt að fresta því máli sem er á dagskrá en taka til við þau tvö mál sem er brýnna að komist á dagskrá að mínu mati en það mál sem við ræðum hér.