Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 20:52:37 (7660)

2000-05-12 20:52:37# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., LB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[20:52]

Lúðvík Bergvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við ræðum um hnefaleika og ég er einn þeirra sem telja æskilegt að málið komi til atkvæða. En hins vegar beindi ég fyrirspurn til hæstv. forseta áðan. Ég spurði hæstv. forseta hvort það mál sem við ræðum hér um lögleiðingu hnefaleika sé forgangsmál ríkisstjórnarinnar og forgangsmál yfirstjórnar þingsins. Það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir eða hvort hugsanlegt sé að gert verði hlé á umræðunni og einhver mál kannski tekin sem hægt væri að ljúka á skömmum tíma til þess að flýta fyrir störfum þingsins.

Virðulegi forseti. Það væri mjög mikilvægt og mjög gott að fá svör við þessum spurningum því mér fannst, virðulegi forseti, og ég ætla að leyfa mér að segja það að mér fannst jaðra við lítilsvirðingu hjá hæstv. forseta þegar hann neitaði að svara eða svaraði engu því sem hann var spurður um í umræðunni áðan um fundarstjórn forseta og því ætla ég, virðulegi forseti, alla vega að fara fram á það við forseta að hann svari þeirri spurningu hvort þetta sé forgangsmál Alþingis, og hvort þetta sé forgangsmál ríkisstjórnarinnar.