Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 20:55:03 (7662)

2000-05-12 20:55:03# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[20:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þetta mál sem við ræðum hér, frv. til laga um lögleiðingu ólympískra hnefaleika, hefur verið til umfjöllunar í tveimur nefndum þingsins. Annars vegar var það til umfjöllunar hjá menntmn. sem hafði forræði á málinu og svo var því vísað til heilbr.- og trn. sem fjallaði ítarlega um málið.

Þess má geta að af 18 þingmönnum sem sitja í þessum tveimur nefndum eru aðeins sex þeirra meðmæltir málinu, sex af 18 og samt sem áður eru menn staðráðnir í að keyra það áfram í þinginu.

Heilbr.- og trn. fjallaði mjög ítarlega og faglega um málið, fékk til sín ýmsa sérfræðinga, bæði frá íþróttahreyfingunni og læknasamtökum og einnig áhugamenn. Meðal annars sýndi Ómar Ragnarsson myndband þar sem hann kynnti reglur í áhugahnefaleikum fyrir nefndarmönnum. Eftir þessa ítarlegu yfirferð voru allir nefndarmenn í heilbr.- og trn. utan einn sammála um að vera andvígir þessu frv., að þetta frv. ætti ekki að samþykkja. Sá eini sem ekki var sammála meiri hluta nefndarinnar var einn af flutningsmönnum málsins, hv. þm. Ásta Möller sem er fyrrv. formaður Félags ísl. hjúkrunarfræðinga.

Ég verð að segja að þegar við fylgdumst með þessum hnefaleikum hjá Ómari Ragnarssyni og því meira sem ég horfði á þetta og því ítarlegar sem hann skýrði út fyrir okkur reglurnar, því andvígari varð ég þessari svokallaðri íþróttagrein. Hann lýsti fyrir okkur hvernig andstæðingurinn ætti alltaf að kýla í höfuðið á þeim sem hann væri að fást við og kljást við og þyrftu allir dómarar að sjá höggið til þess að það væri gilt þannig að þeir þyrftu að berja oft.

Í umfjöllun í nefndinni komumst við að þeirri niðurstöðu að ólympískir hnefaleikar væri villandi orðtak. Þetta eru áhugamannahnefaleikar og eru kallaðir það alls staðar. Ólympískir hnefaleikar eru heiti á þessari íþrótt sem flutningsmenn þingmálsins hafa fundið upp.

Einnig kom fram í umræðunni að læknasamtök t.d. í Bretlandi og víðar hafa verið að vinna gegn því að keppt sé í hnefaleikum á Ólympíuleikum vegna þess hversu skaðleg þessi íþrótt er. Héraðslæknir Norðurlands, Ólafur Hergill Oddsson, sendi þingmönnum skjal þar sem hann fer ítarlega yfir þetta mál og hv. þm. Katrín Fjeldsted gerði ítarlega grein fyrir í mjög góðri og faglegri ræðu fyrir matarhlé, sem ég vil þakka henni fyrir. Í bréfinu frá Ólafi Hergli Oddssyni kemur fram að erfiðara sé að hætta við eða að snúa til baka þegar búið er að lögleiða hlutina. Ég verð að segja að ég er hreykin af því að það skuli vera bannað að stunda hnefaleika á Íslandi. Mér finnst það ekki vera íþróttamannslegt að reyna að koma höggi á andstæðing sinn.

Hér hafa menn verið að ræða og bera saman ýmsar kannanir þar sem fylgjendur frv. reyna að sýna fram á að slys og dauðsföll vegna ýmissa annarra íþróttagreina séu mun meiri en vegna hnefaleika og verð ég að segja að mér finnst menn ekki fara þar með heiðarlegan málflutning. Í umræðunni hefur komið fram að áverkar vegna hnefaleika verði ekki á æfingum. Menn eru ekki að berja á öðru fólki í æfingunum og verið sé að berja í púða. Það er eins og hv. þm. Katrín Fjeldsted telur, sem er læknir og þekkir það vel, ágætisæfing og góð fyrir líkamann, að berja frá sér í púða á þennan hátt og þess vegna er ekki mikið um slys eða áverka á æfingum en aftur á móti verða þeir í keppnum.

[21:00]

Annað er það sem mér finnst siðferðilega rangt og nánast ósiðlegt. Það er að meginmarkmið með þessari íþróttagrein er að koma höggi á andstæðinginn, þ.e. að meiða hann. Aðalmarkmiðið í leiknum er að koma höggi á andstæðinginn. En í þeim greinum sem menn hafa verið að bera hnefaleikana saman við, t.d. í fótbolta og handbolta, er mönnum vísað af velli ef þeir koma höggi á andstæðinga sína. Ef slík brot eru gróf eru menn settir í leikbann og þeir fá ekki að stunda íþróttina vegna þess að ekki er talið íþróttamannslegt að berja andstæðinginn. Mér finnst það vera aðalmunurinn og meginatriðið að andi íþróttanna er allt annar. Andi íþróttanna er ósiðlegur, t.d. að telja börnum trú um að það sé íþróttamannsleg framkoma að kýla fólk og vini sína eða hvern það er í höfuðið. Það er verið að kenna börnum að það sé í lagi að berja fólk í höfuðið. Það er ekki íþróttamannslegt. Það er ofbeldi.

Í ræðu áðan kom fram að nauðsynlegt hefði þótt að lögleiða ólympíska hnefaleika eða áhugamannahnefaleika vegna þess að það þyrfti að stunda þessa íþrótt, vegna þess að að það væri gott fyrir unglinga og börn að fá útrás á þennan hátt. Ég held það sé mun nær að unglingar og börn fái útrás í heilbrigðum íþróttum eins og boltaleikjum og öðrum íþróttagreinum. En að stuðla að því að börn og unglingar fái útrás í því að berja hvert annað í höfuðið, finnst mér ekki vera stórmannlegt.

Slysatíðni er há í ýmsum íþróttagreinum, það hefur einnig komið fram. Um þau gegnir þó öðru máli en um hnefaleikana vegna þess að slys í þeim íþróttum, sem leyfðar eru hér, eru ekki slys sem verða af ásetningi. Það eru slys, en barsmíð og skaði sem verður af höggi í hnefaleikum er skaði sem verður af ásetningi. Í þeirri íþrótt er markvisst reynt að koma höggi á andstæðinginn og það er gefið stig fyrir högg í höfuð jafnt sem aðra líkamshluta. Það er líka gefið stig fyrir rothögg.

Hv. þm. Katrín Fjeldsted fór ítarlega yfir það hvaða líkamlegur skaði hlýst af áverkum vegna barsmíða í höfuð og vegna hnefaleika og er hún mun færari en ég til þess að lýsa því þar sem hún er sérmenntuð í því að þekkja það sem læknir. En það kom fram hjá heilbr.- og trn. að aðalskaðarnir eru á miðtaugakerfið, þ.e. höfuð- og augnáverkar. Það var vitnað til nokkurra kannana hjá þeim sérfræðingum sem komu á fund nefndarinnar sem sýna óyggjandi að mun meiri líkur eru á slíkum sköðum hjá þeim hópi sem stunda hnefaleika. Sýnt var fram á kannanir þar sem tveir samanburðarhópar voru skoðaðir og í þeim könnunum, sem við fórum yfir í nefndinni, var alveg ljóst að það er verulegur skaði, höfuðáverkar, þ.e. afleiðingar af hnefaleikum. Sömuleiðis er það álit sérfræðinga að höfuðhlífarnar séu fölsk vörn, þær verndi aðeins ytra borð höfuðsins, eyru og ytra borðið, en séu mjög takmörkuð vörn fyrir heilann sem er ákaflega viðkvæmur fyrir höggum. Eins og fram kemur í áliti meiri hluta heilbr.- og trn. hreyfast mismunandi svæði heilans á ólíkum hraða þegar höfuðið verður fyrir höggi og eins og segir hér:

,,Þegar boxari fær högg á höfuðið snýst það mjög snögglega og fer síðan í venjulega stöðu á mun hægari hraða. Þá hreyfast mismunandi svæði heilans á ólíkum hraða. Þetta veldur skemmdum, t.d. á yfirborði heilans sem slæst í innra lag höfuðkúpunnar, tauganet rifna, spenna milli heilavefjar og háræða getur valdið blæðingum, þrýstibylgjur geta valdið mismunandi blóðþrýstingi til hinna ýmsu hluta heilans og einnig geta myndast blóðkekkir í heilanum. Það er skoðun sérfræðinga að þung högg skipti ekki aðeins máli í þessu sambandi því að lítil högg valdi smám saman uppsöfnuðum vanda. Helstu erfiðleikarnir eru að áverkar á heila sjást ekki alltaf á myndum og því er erfitt að greina þá. Varanlegur heilaskaði getur t.d. komið fram í því að fínhreyfingar handanna skerðist. Talið er að ítrekaðir áverkar safnist saman og geti haft langtíma varanlegar alvarlegar afleiðingar. Þá er einnig margt sem bendir til þess að ítrekuð höfuðhögg geti m.a. aukið líkur á Parkinson-sjúkdómi og Alzheimer-sjúkdómi.``

Við sáum í vikunni viðtal í Morgunblaðinu við mann sem stundaði hnefaleika á sínum yngri árum, Martein B. Björgvinsson. Marteinn hefur ítrekað haft samband við mig vegna þessa máls og honum er mjög umhugað að fólk geri sér grein fyrir hversu alvarlegar afleiðingar geta orðið af þessari íþrótt. Hann er nú svo illa farinn eftir hnefaleika að hann er ekki fær um að skrifa bréf sjálfur, hann hefur tapað fínhreyfingum. Hann er spurður í Morgunblaðinu þann 10. maí sl.: ,,Meiddistu oft í þessum keppnum?`` --- Hann er að segja frá keppnum sem hann tók þátt í á þeim tíma þegar hann stundaði þessa grein. --- ,,Nei, ekki öðruvísi en að ég skaðaðist á heila. Það kom fram síðar. Fyrir ári var ég rannsakaður og þá kom enn betur fram hve skaðinn var mikill. Heilinn hafði skaddast af fjölmörgum höfuðhöggum sem ég hlaut í hnefaleikakeppnum á árum áður.`` --- Sá skaði sem verður vegna þessarar íþróttar kemur nefnilega ekki fram fyrr en oft löngu seinna. Síðan er hann spurður: --- ,,Fannstu mikið fyrir þessu?`` --- Og hann svarar: --- ,,Já, þetta hefur gert mér mjög erfitt fyrir, t.d. við vinnu. Ég gafst að lokum alveg upp við að vinna, ég var orðinn hættulegur á vélum, ég gerði svo mikið af vitleysum. Ég reyndi alls konar önnur störf en varð alltaf að gefast upp, ég gat ekki gert það sem ég átti að gera. Allt þetta stafar af höfuðhöggunum sem ég hlaut í hnefaleikakeppnunum.`` --- Síðan er hann spurður að því hvort höfuðbúnaður hefði komið honum að gagni í keppnum: ,,Nei, gagnsemi höfuðbúnaðar er blekking. Ég hef eins og fyrr sagði keppt mjög oft í hnefaleikum og segi það hreint ekki til að upphefja mig heldur aðeins til að reyna að koma í veg fyrir að ólympískir hnefaleikar verði leyfðir hér á landi. Hnefaleikar eru stórhættuleg íþrótt, breska læknafélagið, það bandaríska svo og læknafélag Kanada og læknafélag í Ástralíu vilja banna hnefaleika. Ég hef undir höndum staðreyndir um alvarleg meiðsl og dauða manna af völdum hnefaleika. Á netinu er hægt að fá mikið af upplýsingum um þessi atriði. Þeir menn sem vilja leyfa hnefaleika með höfuðbúnaði vita vel að hann gerir lítið gagn eða jafnvel ekkert.``--- Þetta segir maður sem þekkir afleiðingar hnefaleika af reynslunni.

Hér hafa menn verið að tala um að það sé forsjárhyggja að banna hnefaleika (Gripið fram í: Það er nú bull.) Er það þá ekki líka forsjárhyggja að setja lög? Er það þá ekki forsjárhyggja að stunda forvarnir? Er það þá ekki forsjárhyggja að banna eiturlyf? Er það ekki forsjárhyggja að banna að keyra yfir á rauðu ljósi? Er það ekki forsjárhyggja að setja reglur í samfélaginu? Ef það er forsjárhyggja, þá er þörf á ákveðinni forsjárhyggju í samfélaginu, það er nú bara þannig. Það er þörf á því að viðhalda því banni sem er á því að leika hnefaleika hér á landi. Þetta er árásaríþrótt, það er ekki siðlegt hvernig leikreglurnar eru í þessari íþróttagrein.

Í rauninni finnst mér eftir að hafa hlustað á ítarlegt mál hv. þm. Katrínar Fjeldsted eiginlega óþarfi að ræða þetta mál frekar, því mér fannst koma fram í ræðu hennar svo veigamikil rök gegn því að þetta verði lögleitt. Hún fór það ítarlega í þetta mál og mér finnst það bagalegt, herra forseti, hversu fáir þingmenn voru viðstaddir í salnum þegar hún flutti mál sitt enda flutti hún það í matarhléinu. Ég er sannfærð um það að ef þingheimur allur hefði hlustað á þann málflutning, þá er alveg víst mál að þetta frv. verður aldrei samþykkt hér í þinginu. Það er ábyrgðarhluti að samþykkja frv. sem þetta.

Eins og komið hefur fram tíðkast það að börn fari í keppni í hnefaleikum frá átta ára aldri. Það hefur líka komið fram að börn gera sér ekki grein fyrir því hvaða skaða þau geta valdið með því að beita þeim aðferðum sem á að beita samkvæmt reglum í þessari íþróttagrein. Það er líka ósiðlegt að kenna börnum að berja aðra eins og ég sagði hér áðan, mér finnst það ekki boðlegt og ég vona að við berum gæfu til að fella þetta frv.

Ég vil gera orð Marteins Björgvinssonar, sem er mjög illa farinn eftir að hafa verið hnefaleikamaður á yngri árum, að mínum hér í lokin, en hann segir, með leyfi forseta:

,,Ég vona að menn skilji hversu hættulegir hnefaleikarnir eru og hvað afleiðingarnar geta verið hræðilegar og leyfi alls ekki hnefaleikakeppnir hér á landi.``

Ég vil bæta því við, við eigum ekki að lögleiða þessa íþrótt, við eigum að vera öðrum þjóðum til eftirbreytni og halda þessu banni. Eins og komið hefur í ljós eru fagmenn að reyna að stöðva eða koma í veg fyrir að hnefaleikar, áhugamannahnefaleikar og aðrir hnefaleikar verði áfram leiknir í ýmsum heimshlutum, og ég ætla að vona að við berum gæfu til að fella þetta frv.