Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 22:31:15 (7666)

2000-05-12 22:31:15# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[22:31]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að það er alveg dæmalaust að málið sem hér liggur fyrir skuli þvælist fyrir þingstörfum á síðustu klukkustundum þingsins. Það var afar athyglisvert að hlusta á það sem hún hafði að segja hér um málið efnislega. Hún vísaði til fjölda einstaklinga sem hafa góða þekkingu á þessu máli og höfðu fyrir því að gefa umsagnir eða skrifuðu greinar um málið. Ég hef hins vegar, herra forseti, ákveðið að halda ekki langa ræðu hér. Ég ætla frekar að gera það þegar þetta mál verður tekið fyrir síðar á þessum fundi, ef af því verður eða við 3. umr. Ég hef lýst áhuga mínum á því að stjfrv. sem okkur þótti mikilvægt að kæmust sem fyrst á dagskrá komi til umræðu. Það er aldeilis ótrúlegt að við í stjórnarandstöðu höfum beðið um að stjfrv. eins og um samkeppnislög komist hér til umræðu en það mál þurfi að bíða meðan endalaust er rætt um hvort leyfa eigi ólympíska hnefaleika, sem svo hefur komið í ljós er eitthvað sem enginn kannast við og ættu að heita eitthvað allt annað.

Miðað við það hvernig hér hefur verið haldið á málum sýnist mér að þetta þing hljóti að standa fram yfir helgi. Það verður umhugsunarefni hverjum Íslendingi sem horfir hingað niður á Austurvöll þegar ljóst verður að mörgum dögum eftir áformuð þinglok stöndum við hér og ræðum þingmannamál, annars vegar mikið deilumál í þinginu sem tefur hér þingstörf og hins vegar glænýtt mál sem menn áttuðu sig allt í einu á að væri snilldarmál að flytja og varðar þjóðhöfðingja Íslands. Þetta eru óviðfelldin vinnubrögð og varða ekki bara þá sem halda um stjórn þingsins, ekki bara stjórnarflokkana sem hér hafa öll völd, heldur alla hv. þm. Hér er um ásýnd þingsins að ræða.

Ég tek undir það með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að auðvitað hljóta allir að álíta að hið stóra mál íhaldsins sé nú til umræðu. Hér kallaði áðan fram í sá sem mest berst fyrir því að þetta mál nái fram að ganga. Hann nefndi að það hefði tekið sjö ár að koma því hingað. Sjö ár er auðvitað biblíutala og ef ég man rétt þá urðu þau sjö ár tvisvar sinnum sjö. Það væri kannski ekki úr vegi að við höfum það þá þannig líka hér.

Allt hefur sinn tíma. Ég hef ekkert við því að segja að mál eins og þetta sé tekið fyrir, flutt, fjallað um það í nefndum, það tekið til afgreiðslu og útkljáð af Alþingi, alveg óháð því hvort mér fellur málið eða ekki. En það er ekki viðunandi að mál eins og þetta sé tekið úr nefnd laust fyrir þinglok og liggi inni í þessum afgreiðslupakka sem virðist næsta ómögulegt að ná utan um og þvælist fyrir þinghaldinu þannig að vinnulagið verður eins og það sem nú blasir við.

Það er dæmalaust ef þingið á að standa fram yfir næstu helgi eða fram yfir hana af því að það stýrist allt af þrákelkni þeirra sem um véla. Það er fráleitt fyrir okkur sem vinnum hér að alvarlegum málum í þinginu.

Ég hlýt að spyrja hvað veldur. Ég velti því fyrir mér og hv. þm. hljóta að velta því fyrir sér hvers vegna þessu máli er haldið svo fast fram. Varla er það nú vegna þess að allur stjórnarmeirihlutinn sé svo upptekinn af ólympískum hnefaleikum. Það fær mig enginn til að trúa því. Hins vegar er mér það algjörlega ljóst að hæstv. forsrh. ræður ferðinni hér í þinginu. Það er hann sem ræður því hvaða mál ná fram að ganga og hver ekki. Það hvarflar ekki að mér að það sé gæska hæstv. forsrh. sem ræður því að við stöndum nú hér nokkrum klukkustundum eftir að umræða um þetta mál hófst og höfum ekki komist til að ræða stjfrv., t.d. um samkeppnislög.

Af hverju erum við enn að ræða þetta mál? Ætli það geti verið að þurft hafi að hnýta fólk í stjórnarliðinu saman? Ekki kæmi það okkur á óvart eins og núningurinn hefur verið á þessum vetri. Samstaðan, vinarbragðið og ljóminn sem stafaði af ásýnd samstarfsins á síðasta kjörtímabili er löngu horfinn. Við gerum okkur grein fyrir því að núningurinn sem við verðum vör við hér í salnum hlýtur að eiga sér dýpri rætur í samstarfinu innan veggja Stjórnarráðsins.

Ástæðan hlýtur að vera sú að erfiðlega hafi gengið að ná einhverju saman. Kannski var erfitt að ná íhaldinu saman um samkeppnislögin eða tannsmiðina. Varð e.t.v. að kaupa einhverja þar til fylgis? Eða að áróðurinn gegn tannsmiðafrumvarpinu hafi verið farinn að rugga íhaldsbátnum óþyrmilega í þinginu? Hið undarlega er að það er eiginlega fullkomið bræðralag hér í flutningi þessa máls, það bræðralag á sér rætur í sitt hvorum stjórnarflokknum. Því er mjög erfitt fyrir okkur hér að skynja hvað ræður þessari þrákelkni og hvað er verið að kaupa eða hverju á að ná fram. Kannski blandast óviðfelldið skattamál sem bíður okkar í fyrramálið inn í þessa fléttu. Það er engin leið að átta sig á því, en það er alveg ljóst að það er ekki bara áhugi á ólympískum hnefaleikum, sem er að snúast upp í pólitíska hnefaleika eða alla vega hin verstu pólitísku átök, sem ræður því að við stöndum hér einum og hálfum degi eftir að þinginu átti að ljúka og höfum ekki komist í að afgreiða stjfrv.

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við höfum verið í þessari stöðu. Ég minnist þess þegar þingmannamál nokkurra þm. Vestfirðinga barst hérna inn í þingið og var afgreitt úr nefnd skömmu fyrir þinglok. Það var allt annars eðlis. Það var um eyðingu refa í friðlandinu á Hornströndum. Þeir voru að gæta hagsmuna þeirra sem töldu að þessir refir kæmu af friðlandinu og inn í byggðarlög og virkuðu eins og vargur í fénu. Fólk hér á þingi var upptekið af reglum og lögum um friðlandið og því vöknuðu heitar tilfinningar í því máli. Að því leyti eru þessi tvö mál lík, annars vegar refirnir og hins vegar ólympískir hnefaleikar, að þau mál vekja mjög sterkar tilfinningar. Þau eiga það líka sameiginlegt að þau virðast bæði hluti af einhvers konar refskák milli stjórnarflokkanna. Hins vegar er alveg ljóst að þá, þegar refafrv. réð hérna ríkjum og allt þingið stóð á öndinni síðustu klukkustundir þinghaldsins, þá hafði hæstv. forsrh. manndóm í sér, af því það er hann sem ræður og kveður upp úr þegar á reynir, að setja hnefann í borðið og segja: Hingað og ekki lengra. Þá var meira að segja hann farinn að skynja að það að halda þinginu í gíslingu með mál af þessu tagi er ekki vel til þess fallið að halda þeim vinsældum sem hæstv. forsrh. leggur svo mikið upp úr.

Það hefur margkomið fram, herra forseti, að mikill meiri hluti hv. þm. sem skipar þær tvær nefndir sem fjalla um frv. leggst gegn því. Þó var það afgreitt frá þeim. Fólkið sem hefur farið yfir þessi mál í nefndinni og flutt mál sitt hér, hefur fært fyrir því mjög fagleg og sterk rök að ekki eigi að leyfa hnefaleika eins og hér er lagt til. Ég vísa til þeirrar umræðu.

Eins og ég sagði, herra forseti, verður væntanlega á morgun önnur mjög ítarleg umræða hér við 3. umr. Annaðhvort verður hún seinni partinn á morgun eða, eins og ég gat mér til, að þingið muni standa fram á mánudaginn, það verður mjög glæsilegt þegar við sitjum hér eftir á mánudag með tvö mál; hnefaleika og skattamál, þingmannafrv. um skatta þjóðhöfðingja landsins. Við verðum væntanlega með það á mánudaginn. Öll þjóðin horfir á að það eru nokkrir dagar liðnir frá því við ætluðum að ljúka þinginu en við erum enn að út af bjánagangi þeirra sem hér ráða.

E.t.v. eru hnefaleikar og þetta frv. hér táknrænt fyrir það sem er að gerast núna, fyrir stjórnarflokkana á þessum vetri og hvernig komið er í vinnunni á þingi. Herra forseti. Ég ætla að geyma efnislega umræðu um þetta mál þar til við 3. umr. Mér fyndist betra að við færum í samkeppnislög og tannsmíðafrumvarpið meðan við erum nokkurn veginn hress.