Samkeppnislög

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 22:49:22 (7668)

2000-05-12 22:49:22# 125. lþ. 117.13 fundur 488. mál: #A samkeppnislög# (samstarf fyrirtækja, markaðsráðandi staða, samruni o.fl.) frv. 107/2000, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[22:49]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efh.- og viðskn. og brtt. vegna frv. til laga um breytingu á samkeppnislögum. Nefndin fjallaði um málið með venjulegum hætti, sendi það til umsagnar og fékk fulltrúa ýmissa aðila á sinn fund sem getið er í nefndaráliti.

Nefndin gerir ekki tillögur um miklar breytingar á frv. Það eru þrjár brtt. Þar af eru tvær fyrst og fremst orðalagsbreytingar. Það eru tvær efnistillögur sem skipta máli sem nefndin gerir um breytingar. Þær tillögur eru til breytinga á 10. gr. frv., eða 18. gr. samkeppnislaganna, sem fjallar um samruna. Í megindráttum ganga þessar tvær brtt. út á það að sett er inn svokölluð minniháttarregla varðandi samruna, þ.e. að ákvæði greinarinnar taki einungis til samruna þar sem sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er einn milljarður eða meira og hvernig fara skuli að því að telja veltu. Enn fremur skulu a.m.k. tvö af þeim fyrirtækjum sem aðild eiga að samrunanum hafa a.m.k. 50 millj. kr. ársveltu hvert um sig til að samrunagreinin eigi við.

Sambærileg ákvæði eru í samkeppnislögum flestra ríkja Evrópu og m.a. í Danmörku, þar sem verið er að taka upp samrunagrein í samkeppnislög, er fyrirkomulag svipað og hér er gerð tillaga um. Eins er í sænsku löggjöfinni svipað fyrirkomulag. Það er mismunandi eftir Evrópulöndum hvernig þessu er háttað. En hér er sem sagt gerð tillaga um að taka þessa svokölluðu minniháttarreglu inn á þennan hátt.

Síðan er tekið upp í tillöguna að tilkynna eigi Samkeppnisstofnun um samruna sem fellur undir samrunaákvæðin eigi síðar en einni viku eftir að samningi um hann er lokið eða tilkynnt er opinberlega um yfirtökuboð. Það er því sett sú skylda eða kvöð á aðila sem sameinast eða ganga í samruna að tilkynnt sé um samruna.

Allmiklar umræður urðu um þetta mál í nefndinni enda eru samkeppnislög að sjálfsögðu með grundvallarþáttum í okkar viðskiptalöggjöf.

Ég vona að Alþingi geti fallist á tillögur meiri hluta nefndarinnar. Ég tel að frv. batni við að taka þessi ákvæði inn. Ég tel reyndar að helsta og veigamesta breytingin í frv. sé að taka upp bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Það er langstærsta breytingin sem verið er að gera frá gildandi rétti. Ég tel að það sé framfaraskref og í rauninni í samræmi við þá þróun og áherslubreytingar sem eru í samkeppnisréttinum og samkeppnismálum í okkar helstu nágranna- og viðskiptalöndum þar sem aukin áhersla er lögð á að reyna að bregðast við misnotkun á markaðsráðandi stöðu fyrirtækja sem myndast af mörgum ástæðum.