Samkeppnislög

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 23:14:40 (7673)

2000-05-12 23:14:40# 125. lþ. 117.13 fundur 488. mál: #A samkeppnislög# (samstarf fyrirtækja, markaðsráðandi staða, samruni o.fl.) frv. 107/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[23:14]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að það sem hefur einkennt atvinnulífið og fjármálamarkaðinn á undanförnum mánuðum, missirum og árum, er hringamyndun og valdasamþjöppun og raunar óeðlileg hagsmunatengsl sem hafa takmarkað samkeppni og raunar á ýmsum sviðum og atvinnugreinum leitt til fákeppni sem er auðvitað andstæð hagsmunum neytenda. Það sem hefur verið reynt að vinna að á vegum okkar í Samfylkingunni, eins og við höfum getað, er að koma fram á Alþingi með frv. sem tryggja eðlilegar leikreglur og styrkja frjálsa samkeppni en þær séu þá með þeim hætti að hægt sé að vinna og stuðla að heilbrigðri samkeppni í atvinnulífinu. Það virðist svo sannarlega ekki veita af vegna þess að í stórum atvinnugreinum er orðin mikil valdasamþjöppun og það er alveg ljóst að Samkeppnisstofnun hefur ekki haft þau úrræði og tæki sem nauðsynleg voru til þess að taka á þeim málum. Ég hef orðað það svo að það frv. sem við fjöllum um, samkeppnislögin, sé eitt af stærstu málefnum þessa þings sem snertir atvinnuvinnumarkaðinn og fjármálamarkaðinn. Hæstv. ráðherra á heiður skilið fyrir að hafa komið fram með þessa löggjöf sem er mjög áþekk því frv. sem þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram í upphafi þings.

[23:15]

Því er það vissulega miður sem gerst hefur við meðferð málsins í efh.- og viðskn., að samrunaákvæði sem fram koma í 10. gr. frv. eru verulega veik. Ég verð að segja að miðað við þær umsagnir sem fram komu og mjög harða andstöðu Samtaka atvinnulífsins, batt ég satt að segja ekki miklar vonir við að þetta frv. mundi koma aftur til 2. umr., enda var ágreiningur mikill um þetta milli stjórnarflokkanna. Því fagna ég að þetta frv. er komið hérna aftur til 2. umr. en tel að þau þrengingarákvæði sem meiri hlutinn beitir sér fyrir varðandi samrunaákvæðin séu með öllu ástæðulaus og þau veikja mjög það svigrúm sem Samkeppnisstofnun hefur til þess að taka á þessu máli.

Ég vil spyrja hv. formann nefndarinnar hvort það hafi nokkuð verið kannað hjá Samkeppnisstofnun hvaða mat Samkeppnisstofnun sjálf leggur á þær breytingar sem hér eru lagðar til. Samkvæmt tillögum meiri hlutans er lagt til að utan ákvæðisins falli samruni þar sem viðkomandi fyrirtæki hafi sameiginlega minna en 1 milljarð kr. í veltu og samruni sem uppfyllir ekki það skilyrði að tveir aðilar hans hafi hvor um sig 50 millj. kr. í veltu. Það er afar slæmt finnst mér að þessar brtt. skuli koma fram. Það er auðvitað rétt og satt sem fram kom hjá síðasta ræðumanni, að Samtök atvinnulífsins vildu ganga lengra í því að skerða svigrúm Samkeppnisstofnunar í þessu efni. Þau vildu í stað 1 milljarðs veltu að miðað væri við 3 milljarða veltu og í staðinn fyrir 50 millj. kr. veltu, þ.e. þegar það skilyrði er fyrir hendi að tveir aðilar hafi hvor um sig 50 millj., vildu þeir hafa 200 millj. kr. veltu. Það hefði auðvitað verið alveg afleitt og skemmt alveg eða raunverulega tekið bitið úr þessu frv. ef það hefði náð fram að ganga. Út af fyrir sig er því þetta skárra en það sem Samtök atvinnulífsins voru að reyna að koma fram og raunverulega þeir aðilar, sem hafa stuðlað að þessari fákeppni á markaðnum, eru að beita sér fyrir.

Eins og fram kemur í áliti minni hlutans vakna líka spurningar um áhrif breytinganna sem meiri hlutinn leggur til á 10. gr., þ.e. samrunagreininni, á 4. gr. frv. um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu og hvort með tillögum meiri hlutans sé verið að koma því til leiðar að slík uppkaup á samkeppni séu undanþegin ákvæðum samkeppnislaga ef velta fyrirtækisins nær ekki 50 millj. Þess vegna vara ég a.m.k. mjög við því að settar skuli þessar skorður og takmarkanir og ég tel að það hafi einnig komið fram í máli framsögumanns minni hluta, Lúðvíks Bergvinssonar. Þess vegna er afar mikilvæg sú yfirlýsing sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að því er varðar skilning á því hvernig eigi að beita þessu ákvæði.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson bendir einmitt á í nefndaráliti sínu að það geti haft afar óheppileg áhrif á þróun samkeppni á ýmsum nýjum mörkuðum, t.d. á sviði upplýsingatækni, ef samruni stærri fyrirtækja við fyrirtæki sem enn hefur ekki náð 50 millj. kr. veltu fellur utan ákvæðisins. Ég hygg að það eigi eftir að reyna á þetta á ýmsum sviðum og afar óheppilegt að verið sé að þrengja svigrúm Samkeppnisstofnunar á þennan hátt.

Ég vil spyrja hv. formann nefndarinnar hvort þessi breyting hafi verið borin undir Samkeppnisstofnun og hvert mat Samkeppnisstofnunar sé þá á þessari breytingu og þrengingu sem hér er verið að leggja til á samrunaákvæðinu og hvaða áhrif megi ætla að sú breyting sem meiri hlutinn er að leggja til á þessum ákvæðum hafi.

Að öðru leyti er alveg ljóst að frv. sem hér verður væntanlega samþykkt, jafnvel þó að það sé með þeim skorðum sem verið er að setja, mun breyta mjög þeirri stöðu sem Samkeppnisstofnun hefur verið í og gefa Samkeppnisstofnun mun beittari tæki til þess að vinna með til þess að hindra fákeppni og einokun á markaðnum.

Í lokin vil ég nota tækifærið til þess að brýna hæstv. ráðherra til þess að nýta sumarið vel til þess að vinna að þeirri skýrslu sem við í Samfylkingunni höfum lagt fram um stjórnar- og eignatengsl. Ég þykist vita það mikið um þetta mál að hæstv. ráðherra skorti ekki vilja til að reyna að vinna sem hraðast að því. Ég hygg að erfiðleikana í samkeppnismálunum, þ.e. að það þarf að herða löggjöf og skoða hvað sé að gerast varðandi stjórnar- og eignatengsl í atvinnulífinu, sé miklu fremur að finna og að hindrunin komi miklu fremur frá Sjálfstfl. en að hæstv. ráðherra vanti vilja til þess að vinna að þessu verkefni. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til þess að haldið verði þannig á málum í ráðuneyti hennar og hjá Samkeppnisstofnun að því er þennan þátt mála varðar nú í sumar að við getum haft skýrsluna tilbúna þegar þing kemur saman á hausti komanda.