Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 10:13:55 (7707)

2000-05-13 10:13:55# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[10:13]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert við því að segja að hæstv. forsrh. sé þessarar skoðunar. Hann hefur fullt frelsi til þess og fullan rétt til þess. En ég leyfði mér að benda á að 1. flm. málsins er á öndverðri skoðun. Hann telur að þessi breyting muni leiða til hækkunar á launum forsrh. og væntanlega annarra ráðherra. Sama máli gegndi um núv. hæstv. dómsmrh. sem skrifaði undir meirihlutaálit allshn. á sínum tíma.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh. að einu. Alþingi vísaði málinu á sínum tíma til ríkisstjórnarinnar sem átti síðan að taka við boltanum og skoða málið betur. Það var auðsjáanlega ekki gert. En auðvitað skiptir ekki síst máli eftir þá afgreiðslu hvert er álit þess aðila sem fer með málefni forseta Íslands í ríkisstjórninni. Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh.: Var leitað samráðs við hann um undirbúning þessa máls? Var það gert með eðlilegum hætti eins og á að gera eftir þá afgreiðslu Alþingis á málinu fyrir fjórum árum þegar það vísaði málinu til ríkisstjórnarinnar? Var haft samráð við forsætisráðherraembættið um flutning málsins?