Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 10:20:47 (7711)

2000-05-13 10:20:47# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[10:20]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. virðist afar sannfærður um að það að afnema skattfrelsi forsetans muni engin áhrif hafa, ekki einu sinni þau áhrif að breyta launum forsetans sjálfs. Að vísu væri þá um raunlækkun á kjörum hans að ræða miðað við það sem hann hefur núna. En hvað um það, þetta er sannfæring forsrh. og hana ætla ég ekki að taka af honum. Það segir mér að hæstv. forsrh. mundi þá vera hlynntur því, ef hv. efh.- og viðskn. sem nú mun fjalla um þetta mál finnur leið til þess í lagasetningu, annaðhvort með breytingum á lögum um Kjaradóm eða í breytingu á lögum um laun forsetans, að setja í lög að það að afnema skattfrelsið eigi ekki að hafa nein áhrif til að hækka laun annarra sem Kjaradómur úrskurðar laun fyrir. Ég lít svo á að það hljóti að hafa stuðning hæstv. forsrh. þegar hann er svona innilega sannfærður um að þetta hafi engin áhrif.

Ég er aftur á móti langt frá því að vera sannfærð um það. Ég held að við höfum ekki séð til botns í þessu máli gangi það fram sem horfir. Ég spyr forsrh.: Telur hann það ekkert óeðlilegt og til vansa fyrir þingið að afgreiða á einum degi, gegnum þrjár umræður og umfjöllun í nefnd, slíka breytingu á kjörum forseta Íslands? Nefndin hefur ekki einu sinni tíma til að fjalla um áhrifin af þessu, m.a. áhrifin á lífeyrisréttindi o.s.frv. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki hvort hann teldi eðlilegt að hækka laun handhafa forsetavalds ef laun forsetans mundu hækka í kjölfar þessara breytinga.