Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 10:59:43 (7715)

2000-05-13 10:59:43# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[10:59]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spyr hver sé vilji flutningsmanna með þessu máli. Ég get lesið upp úr greinargerð minni hluta allshn. undirritaða af hv. þm. sjálfum, Lúðvíki Bergvinssyni:

,,Með stuðningi við þetta frumvarp er ekki tekin afstaða til launa forsetans heldur til þess eins að forsetinn, maki hans og handhafar forsetavalds greiði skatta eins og aðrir þegnar.``

Þetta skrifar hv. þm. undir 4. júní 1996 örfáum dögum fyrir forsetakosningar. Svo kvartar hann núna undan því að stuttur tími sé til stefnu. (JóhS: Það var búið að vera hálft ár í þinginu þá.) (Gripið fram í.) Samt kvartar hv. þm. undan því að málið hafi ekki fengist rætt. Það er búið að ræða þetta mál mörgum mörgum sinnum. Það var flutt frv. 1995, 1997 og aftur núna. Þetta er ekkert mál sem er alveg nýtt á döfinni. Hv. þm. er búinn að fjalla um þetta í sinni nefnd, í allshn. 1996 og skrifar undir og 4. júní 1996 segir hv. þm. meira að segja:

,,Því er rétti tíminn nú, þegar forsetakosningar fara í hönd, að taka afstöðu til skattfríðinda forseta Íslands og maka hans.``

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þm. á að samkvæmt 58. gr. má eigi nema með leyfi forseta lesa upp prentað mál.)

Ég bið forseta afsökunar á því. En hv. þm. segir í þessu nefndaráliti nákvæmlega það sama og hann var að kvarta undan að menn geri ekki í dag.