Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:06:12 (7719)

2000-05-13 11:06:12# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:06]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um afnám lagaákvæða um skattfrelsi forseta Íslands. Í umræðunni hafa verið látin stór orð falla um málsmeðferð en í huga okkar flutningsmanna er þetta ákaflega einfalt mál. Þetta snýst um að laun séu sýnileg. Um það að laun séu sýnileg í samfélagi okkar hafa verið haldnar margar og langar ræður í þinginu. Þetta snýst um vilja frambjóðenda til forsetakosninga. Allir frambjóðendur til forseta síðast lýstu því yfir að þeim fyndist eðlilegt að greiða skatta eins og aðrir þegnar landsins og mér finnst umræðan um þetta mál ákaflega einkennileg. Talað er um að við flutningsmenn stöndum óeðlilega að málum, komum í skjóli nætur en þegar málið er skoðað grannt þá hafa þeir hv. þm. sem gagnrýna hvað harðast fjallað um málið á svipuðum nótum um árabil.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir skrifaði í Morgunblaðið grein 19. júní 1996 þar sem fyrirsögnin er: ,,Öll rök standa til þess að afnema skattfrelsi forsetans, maka hans og handhafa forsetavalds.``

Það er nál. um frv. til breytinga á launum forseta Íslands sem er afgreitt 4. júní 1996 þar sem gengist er efnislega inn á það að afnema skattfríðindi forsetans og það er því ekki eins og þetta mál sé órætt.

Gagnrýnin á formið. Einhvern tíma verða menn að taka af skarið, ef þeir vilja fá breytingar og í svo sjálfsögðu máli þar sem hlutaðeigandi aðilar eru sammála og hafa lýst því yfir á ekki að þurfa að taka svo langan tíma.

Spurt hefur verið um hvert sé markmið flytjenda frv., hvort markmiðið sé að rýra launakjör forsetans. Það stendur alls ekki til. Hér er fyrst og fremst um formbreytingu að ræða. Það hefur margoft komið fram í umræðunni að Kjaradómur ákveður kjör forseta Íslands. Ég treysti Kjaradómi fyllilega til að vinna á grunni þessara formbreytinga þannig að kjör forseta Íslands verði svipuð og nú er. Það gefur augaleið og þarf ekki að vera með bókhaldsfabúleringar í þinginu út af svona prinsippbreytingum. Það er grundvallaratriðið.

Eins og málið horfir við mér, virðulegi forseti, þá er gagnrýnin á formið eða hvernig þetta er lagt fram hjárænuháttur. Þetta er hræðsla hv. þingmanna við almenningsálitið. Um langt árabil var það þvílíkt viðkvæmnisefni t.d. að ræða kjör þingmanna og þingmenn voru á ákaflega lélegum launum þangað til núna allra síðustu ár vegna þess að ekki mátti ræða það. Hvers vegna? Vegna þess að menn voru hræddir við almenningsálitið fyrst og fremst, tel ég. Þingmenn voru á kjörum bara fyrir örfáum árum, sem voru þannig að hér voru menn eins og ræflar rifnir upp úr svelli. Þjóðin hefur ekki áhuga á því. Þjóðin vill hafa embættismenn sína og þjóðkjörna fulltrúa á góðum launum. Það er misskilningur að halda það að þjóðin sé andvíg því. Það er hjárænuháttur að þora ekki að taka á svona einföldum kerfisbreytingum sem setja alla jafna fyrir skattálögum þar sem fyrir liggur að í raun og veru eru allir sammála þessu og þar á meðal er sitjandi forseti. Hvert er þá vandamálið?

Að eyða löngum tíma í að skamma okkur flutningsmenn fyrir aðkomuna er algerlega óþarfi í þessu máli því þegar upp er staðið lýsa menn því yfir að þeir séu sammála í grundvallaratriðum. En hræðslan við það hvernig þetta ber að er alveg ótrúleg. Af hverju þarf maður að vera svona hræddur við þetta? Þetta eru einföld mál. Þetta er búið að vera í umræðunni um áraraðir og það skiptir ekki máli. Það þarf ekkert langan tíma í umræður um þetta. Eftirleikurinn er auðveldur kerfislegur leikur. Þetta snýst um launakjör forseta Íslands og ekki er verið að setja af stað neina rúllettu. Þetta er fyrst og fremst um þau skattfríðindi sem hafa verið. Varðandi laun almennt í landinu held ég að flestir hv. þm. séu sammála um að það ber að hafa laun sýnileg. Við berjumst fyrir því á öllum vígstöðvum. Laun sýnileg. Þannig eiga leikreglurnar að vera og það skrifuðu hv. frambjóðendur til forsetakjörs síðast allir upp á í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Í mínum huga er málið ákaflega einfalt og liggur fyrir.