Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:22:29 (7726)

2000-05-13 11:22:29# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:22]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur þá fyrir að einn af hæstv. forsetum þingsins telur að sum mál séu þess eðlis að æskilegt sé að viðhafa hjárænugang við meðferð málsins.

(Forseti (HBl): Það var ekki einn af forsetum þingsins sem var í ræðustól hér heldur einn af hv. þm., hv. 6. þm. Norðurl. e.)

Það er rétt, virðulegi forseti, en á köflum gegnir hann starfi forseta þingsins og situr í forsætisnefnd. En þessi viðhorf liggja a.m.k. fyrir, virðulegi forseti. Ég hlýt þá að spyrja hv. þm. hvort hann muni þá ekki bera fram tillögu um að breyta þingsköpum í þá veru að við sérstakar aðstæður, um mál sem eru hjárænuleg gildi þá allt aðrar reglur.

Hins vegar svaraði hv. þm. því ekki, jafnmikill prinsippmaður og hv. þm. er, sem telur að eitt eigi yfir alla að ganga, af hverju ekki var flutt frv. um sjómannaafsláttinn, Nóbelsverðlaunin og allt sem að þessu lýtur. Af hverju fylgdi það ekki í þessum pakka? Það lá gríðarlega mikið á að settar yrðu reglur sem væru þess eðlis að hið sama gilti um alla. Því spyr ég: Af hverju höfðu hv. þm. þá ekki í frv. sínu áform um að taka á öllum þeim sem ekki gilda um sömu reglur og almennt um borgara þessa lands? Ég tel mjög mikilvægt að það liggi fyrir í þessu samhengi.